10.03.1987
Neðri deild: 61. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3915 í B-deild Alþingistíðinda. (3584)

339. mál, byggingarsjóður aldraðs fólks

Félagsmálaráðherra (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. á þskj. 591.

Það er um afnám laga nr. 49 20. apríl 1963, um Byggingarsjóð aldraðs fólks. Fulltrúaráð Sjómannadagsins í Reykjavík og Hafnarfirði hefur óskað eftir breytingu á lögum um Happdrætti DAS, nr. 16 1973, og jafnframt að lög nr. 49 20. apríl 1963, um Byggingarsjóð aldraðs fólks, verði felld úr gildi. Lögin um Happdrætti DAS heyra undir dómsmrn. og hefur dómsmrh. ákveðið að verða við óskum sjómannadagssamtakanna um fyrrgreindar breytingar frá núgildandi lögum og mun standa að flutningi frv. þar um sem hér er til meðferðar.

Ég vísa til grg. sem er með þessu frv. Það var ákveðið að verða við þessum óskum. Þessi byggingarsjóður er orðinn tiltölulega lítill og það hafa orðið þær breytingar í þjóðfélaginu í sambandi við happdrættismálin að talið er eðlilegt að þessi breyting verði gerð þannig að þau 40% af tekjum Happdrættis DAS sem hafa farið í Byggingarsjóð aldraðs fólks verði felld niður. Samkvæmt frv. um Happdrætti DAS er þar sett heimild um að stjórn happdrættisins sé heimilt að láta fjármagn til byggingar dvalarheimila úti um land eftir því sem eðlilegt er miðað við umfang happdrættisins.

Framkvæmdasjóður aldraðra sem hefur skv. lögum það hlutverk að styrkja þessar framkvæmdir úti um landið og einnig er í húsnæðislöggjöfinni gengið verulega til móts við þessar framkvæmdir þannig að það er ekki ástæða til að skipta þessu fjármagni eins og hefur verið. Hér eru, eins og ég sagði áðan, tiltölulega litlar upphæðir og ég legg til að það verði orðið við óskum Sjómannadagssamtakanna. Hv. Ed. hefur samþykkt frv. óbreytt.

Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og félmn.