11.03.1987
Sameinað þing: 61. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3941 í B-deild Alþingistíðinda. (3598)

396. mál, utanríkismál

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég þakka utanrrh. fyrir þessa skýrslu, sem er í sumum greinum ítarleg, og ég tel einboðið að taka nokkurn tíma til að ræða hana. Utanríkismál eru einn mikilvægasti málaflokkur sem við fjöllum um hér á Alþingi og þess vegna er þeim tíma vel varið sem við notum til að velta þeim fyrir okkur.

Mig langar til að byrja á að vitna til stefnuyfirlýsingar núv. ríkisstjórnar um utanríkismál og hljóðaði utanríkismálakaflinn svo, með leyfi forseta:

„Meginmarkmið utanríkisstefnu Íslendinga er að treysta sjálfstæði landsins og gæta hagsmuna þjóðarinnar. Það verði m.a. gert með þátttöku í norrænu samstarfi, varnarsamstarfi vestrænna þjóða, alþjóðasamvinnu um efnahagsmál, starfi Sameinuðu þjóðanna og stofnana sem þeim eru tengdar. Á alþjóðavettvangi beiti Ísland sér fyrir aukinni mannúð, réttindum og friði. Stefna Íslands í afvopnunarmalum miðist við að stuðla að gagnkvæmri og alhliða afvopnun þar sem framkvæmd verði tryggð með alþjóðlegu eftirliti. Standa þarf vörð um fyllstu réttindi Íslands innan auðlindalögsögunnar og réttindi landsins á hafsbotninum utan hennar verði tryggð svo sem alþjóðalög frekast heimila.“

Eins og menn heyra er hér fyrst talið og megináhersla lögð á norrænt samstarf, en það er ekki meginatriðið í þessari skýrslu og að því vil ég finna. Að vísu ber þess að geta að Íslandsdeild Norðurlandaráðs hefur lagt fram ítarlega skýrslu um norrænt samstarf á þskj. 801. Þarna eru rakin að nokkru störf Norðurlandaráðs síðan í fyrravor, sagt frá tveimur þingum ráðsins og drepið á nokkur helstu mál sem verið hafa til umfjöllunar. Nokkrar tillögur fluttar að frumkvæði okkar Íslendinga fengust samþykktar á síðasta Norðurlandaráðsþingi. T.d. voru samþykktar tvær tillögur sem ég var 1. flm. að. Önnur var samstarfsáætlun gegn krabbameini, hin var um samstarfsáætlun gegn mengun hafsins. Þá var samþykkt tillaga Guðrúnar Helgadóttur um norrænt samstarf um rannsóknarverkefni varðandi jarðskjálfta á Íslandi.

Á síðasta ári urðu miklar umræður um samskipti Norðurlandaráðs við umheiminn. Ég tel mikilvægt að Norðurlandaráð láti rödd sína heyrast á alþjóðavettvangi. s.l. haust var haldin stórmerk þingmannaráðstefna í Stokkhólmi um loftmengun sem berst milli landa. Þessi ráðstefna komst að samkomulagi um sameiginlega yfirlýsingu með atkvæðum allra viðstaddra þingmanna og þetta voru þingmannanefndir bæði frá Rússlandi, Bretlandi, Frakklandi, báðum þýsku ríkjunum, Hollandi, Belgíu, Póllandi, Tékkóslóvakíu, Austurríki, Sviss svo og Norðurlöndunum. Þetta gagnlega framtak sannar mér að Norðurlandaráð getur náð miklum árangri einnig utan Norðurlanda og við eigum að halda áfram á þessari braut. Ég tel eðlilegt að í framtíðinni leggi samstarfsráðherra fram skýrslu um norrænt samstarf og þá gætum við haft umræðu hér á þingi sem takmarkaðist sérstaklega við hið norræna samstarf. En úr því að svo var ekki hefði ég talið eðlilegt að verja meira rúmi í þessari skýrslu utanrrh. í norrænt samstarf.

Skýrsla Íslandsdeildarinnar er skýrsla um þingmannasamstarfið, en ég tel að það hljóti að vera eitthvað að frétta af samstarfi ríkisstjórnanna.

Ræða hæstv. utanrrh. núna fjallaði nær eingöngu um hermal og meginviðfangsefni skýrslu utanrrh. fjallar um samskipti við herinn. Á hæstv. utanrrh. er að heyra að þau samskipti hafi verið harla góð. Hermang er með meiri blóma en oftast áður. Íslenskir starfsmenn setuliðsins eru 1100. Flugsveit varnarliðsins er einvörðungu búin F-15 orrustuþotum og hefur að sögn ráðherrans geta varnarliðsins til að sinna loftvarnahlutverki sínu aukist verulega. Þá greiddi herinn á árinu 1986 4118 millj. kr. til íslenskra fyrirtækja og einstaklinga. Þá styttist í að ratsjárstöðvar á Langanesi og Stigahlíðarfjalli verði teknar í notkun. Hafnargerð í Helguvík er í fullum gangi og framkvæmdir sem byrjað er á arið 1987 á vegum setuliðsins eiga að nema 60 millj. dollara. Það er von að hæstv. ráðh. geti verið stoltur.

Ég hef undrast mjög hve mér finnst hæstv. utanrrh. vera orðinn herskár. Meðan hann var viðskrh. var hann allra manna friðsamastur. En nú talar hann og skrifar eins og hinn versti haukur. Hæstv. utanrrh. leyfir sér meira að segja að snúa út úr ályktun Alþingis frá 23. maí 1985 og það hefur hann gert hvað eftir annað hér á Alþingi. Ályktun Alþingis hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að brýna nauðsyn beri til að þjóðir heims, ekki síst kjarnorkuveldin, geri með sér samninga um gagnkvæma alhliða afvopnun þar sem framkvæmd verði tryggð með alþjóðlegu eftirliti. Enn fremur telur Alþingi mikilvægt að verulegur hluti þess gífurlega fjármagns sem nú rennur til herbúnaðar verði veittur til þess að hjálpa fátækum ríkjum heims þar sem tugir milljóna manna deyja árlega úr hungri og sjúkdómum.

Alþingi fagnar hverju því frumkvæði sem fram kemur og stuðlað getur að því að rjúfa vítahring vígbúnaðarkapphlaupsins. Alþingi ályktar að beina því til ríkisstjórnarinnar að styðja og stuðla að allsherjarbanni við tilraunum, framleiðslu og uppsetningu kjarnavopna undir traustu eftirliti, svo og stöðvun á framleiðslu kjarnakleyfra efna í hernaðarskyni, jafnframt því að hvetja til alþjóðlegra samninga um að árlega verði reglubundið dregið úr birgðum kjarnorkuvopna. Þessu banni og samningum um niðurskurð kjarnorkuvopna verði framfylgt á gagnkvæman hátt þannig að málsaðilar uni því og treysti, enda verði það gert í samvinnu við alþjóðlega eftirlitsstofnun. Leita verður allra leiða til að draga úr spennu og tortryggni milli þjóða heims og þá einkum stórveldanna. Telur Alþingi að Íslendingar hljóti ætíð og hvarvetna að leggja slíkri viðleitni lið.

Um leið og Alþingi áréttar þá stefnu Íslendinga að á Íslandi verði ekki staðsett kjarnorkuvopn hvetur það til þess að könnuð verði samstaða um og grundvöllur fyrir samningum um kjarnorkuvopnalaust svæði í Norður-Evrópu jafnt á landi, í lofti sem á hafinu eða í því sem liður í samkomulagi til að draga úr vígbúnaði og minnka spennu. Því felur Alþingi utanrmn. að kanna í samráði við utanrrh. hugsanlega þátttöku Íslands í frekari umræðum um kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum og skili nefndin um það áliti til Alþingis fyrir 15. nóv. 1985.

Jafnframt ályktar Alþingi að fela öryggismálanefnd í samráði við utanrrh. að taka saman skýrslu um þær hugmyndir sem nú eru uppi um afvopnun og takmörkun vígbúnaðar, einkum þær sem máli skipta fyrir Ísland með hliðsjón af legu landsins og aðild þjóðarinnar að alþjóðlegu samstarfi. Á grundvelli slíkrar skýrslu verði síðan leitað samstöðu meðal stjórnmálaflokkanna um frekari sameiginlega stefnumörkun í þessum málum.“

Þannig hljóðaði, herra forseti, ályktun Alþingis. Á bls. 15 í skýrslunni fer hæstv. utanrrh. hins vegar að vitna í ræðu sem hv. þm. Eyjólfur Konráð flutti á Alþingi og segir þar, með leyfi forseta:

„Í ræðu sinni sagði Eyjólfur Konráð m.a. að sá „landfræðilegi skilningur væri réttur, að Norður-Evrópa næði a.m.k. yfir Norðurlönd, eyjarnar á norðanverðu Atlantshafi og Norður-Þýskaland, þ.e. Norður-Evrópusléttuna, og allt frá Grænlandi til Úralfjalla“. Það kom einnig fram í máli Eyjólfs Konráðs, þegar hann flutti skýringar utanrmn. við till., að það svæði, sem um væri að ræða, næði til aðildarríkja Norður-Atlantshafsbandalagsins, Varsjárbandalagsins og hlutlausra ríkja.“

Og svo segir hér áfram: „Af framansögðu er ljóst að ályktun Alþingis tekur til mun víðtækara svæðis og samninga heldur en þær hugmyndir um kjarnavopnalaust svæði á Norðurlöndum sem aðrir hafa rætt á vettvangi Norðurlandaráðs.“

Við þetta er margt að athuga. Í fyrsta lagi: Umræður um kjarnorkuvopnalaus svæði á Norðurlöndum fara ekki fram á vettvangi Norðurlandaráðs. Þetta ætti utanrrh. þjóðarinnar að vita. Umræður um kjarnorkuvopnalaus svæði fara alls ekki fram á vettvangi Norðurlandaráðs. Þær fara fram á vegum stjórnmálaflokka á Norðurlöndum og í engum tengslum við Norðurlandaráð.

Ég vil þar að auki fullyrða að orð hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar hafa ekki lagagildi. Hv. þm. er vænn maður, en orð hans eru ekki lög. Ég hef eins og aðrir oft heyrt þennan ágæta þm. segja ýmislegt viturlegt, en líka ýmsa vitleysu, bæði í þessum ræðustól og öðrum, og það er fjarri því að ég viðurkenni að orð hans hafi lagagildi. Hvorki Napóleon mikli né Hitler komust einu sinni til Moskvu. Svo lætur Eyjólfur Konráð eins og hann muni komast til Úralfjalla og þetta setur hæstv. utanrrh. í skýrslu sína án þess að honum stökkvi bros.

Ályktun Alþingis frá 23. maí 1985 er alveg skýr. Ég var tillögumaður að meginefni ályktunarinnar og veit vel hvað í henni stendur og það þreytir mig þegar hæstv. utanrrh. er að snúa út úr þessari ályktun.

Þá kemst ég ekki hjá því að benda á að ákvörðunin um hvernig Ísland greiddi atkvæði um frystingartillögu Svíþjóðar og Mexíkó og fleiri ríkja var ekki tekin í samráði við framsóknarmenn né að neinu leyti á ábyrgð þeirra. Ég tel að Íslandi hefði verið sómi að því að standa með öðrum Norðurlöndum. Ég nota þetta tækifæri til að skýra þingheimi frá því hver er stefna framsóknarmanna í utanríkis- og öryggismálum og les samþykkt síðasta flokksþings framsóknarmanna. Þessi ályktun markar Framsfl. stefnu til næstu ára og les ég nú, með leyfi forseta:

„Flokksþingið ítrekar þá grundvallarstefnu Framsfl. í utanríkismálum að treysta stjórnarfarslegt og efnahagslegt sjálfstæði landsins með virkri þátttöku í starfsemi Sameinuðu þjóðanna og norrænu samstarfi, stuðla að vinsamlegum samskiptum þjóða og auðvelda þannig samninga um afvopnun og varðveislu friðar. Flokkurinn leggur áherslu á sjálfstæða utanríkisstefnu þar sem ofangreind markmið eru lögð til grundvallar. Vegna legu landsins, menningar og sögu er Íslendingum nauðsynlegt að gæta þess að hafa sem best tengsl við þjóðir í austri og vestri. Flokkurinn vekur sérstaka athygli á þeim breytingum sem eru að gerast í Evrópu og að Íslendingum er nauðsyn að fylgjast náið með þeirri þróun. Innganga í Efnahagsbandalag Evrópu kemur þó ekki til greina. Viðskiptahagsmuni þjóðarinnar ber að tryggja með víðtækum samningum.

Framsfl. er fylgjandi aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu og leggur áherslu á þá meginstefnu að hér verði ekki erlendur her á friðartímum. Hvað varðar framkvæmd varnarsamningsins við Bandaríkin telur flokkurinn á það skorta“ - og nú bið ég hæstv. utanrrh. að taka eftir - „Hvað varðar framkvæmd varnarsamningsins við Bandaríkin telur flokkurinn á það skorta að haldið hafi verið á málum af nægjanlegri festu og í samræmi við öryggishagsmuni Íslands. Flokkurinn leggur áherslu á að starfsemi að hernaðarframkvæmdum á vegum varnarliðsins eða Atlantshafsbandalagsins verði að engu leyti aukin frá því sem leyft hefur verið, hvort sem um er að ræða ratsjárstöðvar, birgðageymslur eða flugvelli.

Íslendingum ber að fylgjast náið með þróun öryggis- og varnarmála á öllu Norður-Atlantshafi þannig að út frá hagsmunum Íslendinga sjálfra sé ætíð hægt að leggja mat á stöðu mála og framtíðarhorfur og móta öryggisstefnu landsins í samræmi við það. Flokksþingið telur eðlilegt að staða og starfssvið varnarmáladeildar verði endurskoðað. Framsfl. leggur áherslu á að Ísland vinni eftir megni, m.a. í samvinnu við hin Norðurlöndin, gegn ofsóknum stjórnvalda á hendur þegnum sínum hvar sem slíkt viðgengst og sömuleiðis gegn kynþáttamisrétti.

Flokksþingið leggur áherslu á að Ísland beiti sér fyrir samstarfi þjóða við Norður-Atlantshaf í sameiginlegum hagsmunamálum er varða nýtingu auðlinda hafsins og verndun fiskistofna og hafsvæða fyrir ofveiði og mengun, þar á meðal hugsanlegri mengun vegna kjarnorkuslysa á láði og legi.

Framsfl. fagnar því að Ísland varð vettvangur opnunarviðræðna stórveldanna. Með þeim hætti fékk þjóðin tækifæri til þess að leggja sitt lóð á vogarskálina til varðveislu friðar. Þegar þjóðir heims verja æ hærri fjárhæðum til vígbúnaðar og stórveldi heimsins framleiða sífellt stórvirkari gereyðingarvopn er það orðið eitt brýnasta verkefni mannkyns að bindast samtökum um útrýmingu kjarnorkuvopna. Ber að harma ef geimvarnaáætlun Bandaríkjanna leggur stein í götu þess markmiðs, enda óverjandi að himingeimurinn sé notaður í hernaðarskyni.

Íslendingum er skylt að taka þátt í þeirri viðleitni að eyða kjarnavopnum hvar sem því verður við komið á alþjóðavettvangi.“

Herra forseti. Þannig hljóðaði utanríkismálaályktun Framsfl. og þessi er stefna Framsfl. (SvG: Hvenær var hún samþykkt, þessi stefna?) Þetta var samþykkt á síðasta flokksþingi sem haldið var í nóvember s.l. og ætti hæstv. utanrrh. að vera hún kunnug og hefði betur starfað í samræmi við það.

Ég vil fara nokkrum orðum um samstarf þingmanna a Íslandi, Grænlandi og í Færeyjum. Það hefur á liðnu ári þróast og fengið mótaðra form. Á fundi á Selfossi s.l. haust urðu mjög gagnlegar umræður í þingmannaráðinu og samþykktar voru nokkrar merkar ályktanir þar sem tilmælum var beint til stjórna landanna. Ályktanir þessar fjölluðu um menntun fiskimanna, íþróttasamstarf, upplýsingaherferð í Bandaríkjunum og Vestur-Evrópu, um nauðsyn þess fyrir Grænlendinga, Íslendinga og Færeyinga að fá að nýta auðlindir hafsins. Þá var ályktað um sjónvarpssamvinnu, kjarnorkuvopnalaus svæði og síðast en ekki síst voru samþykkt mjög kröftug mótmæli gegn byggingu kjarnorkuversins í Dounreay í Skotlandi.

Herra forseti. Ég læt máli mínu lokið í þeirri von að yfir næstu utanríkismálaskýrslu verði þjóðleg reisn.