11.03.1987
Sameinað þing: 61. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3945 í B-deild Alþingistíðinda. (3599)

396. mál, utanríkismál

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. skýrslu hans og tel að það sé mikils virði að fram fari skynsamlegar umræður um utanríkismál hér á Alþingi, helst æsingalaust því að utanríkismál eru þess eðlis að mikið liggur við að ná sem víðtækastri samstöðu meðal þjóðarinnar um hvernig þau skuli rekin.

Í því sem ég mun segja hér mun ég einkum fjalla um fáeina málaþætti og þá sérstaklega þær umræður sem hafa verið í gangi um kjarnorkuvopnalaus svæði á Norðurlöndum og um öryggis- og afvopnunarmál, víkja fáeinum orðum að samskiptum okkar við fátækari hluta heimsins og einnig víkja eilítið að viðskiptahagsmunum okkar, utanríkisviðskiptum. Aðrir þm. Alþfl. munu gera öðrum málaflokkum skil og ég vænti þess að menn virði það að við skiptum með okkur verkum með þessum hætti og auðvitað verður eitthvað út undan, enda sýnist mér að tími þm. til að hlýða á umræður eða taka þátt í umræðum sé harla takmarkaður.

En áður en ég vík að þeim efnisatriðum sem ég ætla sérstaklega að reifa vil ég minna á fáein grundvallaratriði sem við Alþýðuflokksmenn leggjum sérstaka áherslu á.

Við teljum að friður, frelsi og mannréttindi eigi að vera undirstöður utanríkismálastefnu Íslendinga. Við Íslendingar höfum notið alls þessa þrenns í ríkara mæli en aðrar þjóðir og í hverju því sem við tökum okkur fyrir hendur verðum við að hafa í huga að treysta þessi þrjú grundvallaratriði, en með engu móti að draga úr mikilvægi þeirra.

Við teljum að íslenskir öryggishagsmunir séu best tryggðir í samstarfi lýðræðisþjóðanna í Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningi við Bandaríkin eins og verið hefur. Við teljum í annan stað að bræðralag Norðurlandaþjóðanna í norrænu samstarfi eigi að treysta og að þetta samstarf hafi verið og sé Íslendingum ómetanlegt og langtum meira virði en menn gera sér almennt grein fyrir og þess vegna verði að stuðla að því að það fái dafnað.

Í þriðja lagi leggjum við áherslu á samstarf og samvinnu allra þjóða heims í Sameinuðu þjóðunum og teljum að starfið þar sé vísasti vegurinn til að draga úr tortryggni og leysa deilumál í veröldinni. Þess vegna er það okkar skoðun að Íslendingar eigi að leggja sérstaka rækt við starf sitt á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Þessi eru þau grundvallaratriði, herra forseti, sem ég vildi fyrst koma að.

Þá ætla ég að víkja nokkrum orðum að þeim umræðum sem hafa verið í gangi um Norðurlönd sem kjarnorkuvopnalaust svæði og hafa staðið um nokkra hríð. Ég tel að það sé nauðsynlegt að allir átti sig á öllum hliðum þess máls og að málið sé skoðað í réttu samhengi. Á sama hátt er nauðsynlegt að afstaða Íslands til málsins komi skýrt fram, en ég held að óhætt sé að segja að á það hafi nokkuð skort.

Það verður þá fyrst fyrir að það verður að gera verulegan greinarmun á því að lönd eða svæði séu kjarnorkuvopnalaus eða að þau séu yfirlýst kjarnorkuvopnalaus. Þetta er tvennt aðgreinanlegt og við verðum að gera greinarmun þar á.

Við hér á Íslandi erum án kjarnavopna og það er staðfest að þau verði ekki flutt á íslenskt landsvæði án samþykkis okkar. Þetta vita allir sem vilja vita, þar á meðal stórveldin. Það er líka yfirlýst að við höfum ekki í hyggju að breyta afstöðu okkar í þessum efnum. Ætlun okkar og vilji er að við verðum áfram kjarnorkuvopnalaust land og til þess að það breytist þarf sérstaka ákvörðun íslenskra stjórnvalda. Þetta er það ástand sem við höfum búið við. Þetta er það ástand sem menn þekkja.

Hugmyndin um að lýsa Norðurlönd sérstaklega kjarnorkuvopnalaust svæði er hins vegar af öðrum toga. Hún tengist hugmyndum um kjarnorkuvopnalaust belti um Evrópu þvera allt frá Miðjarðarhafi til nyrstu odda álfunnar. Báðar hugmyndirnar, þ.e. þær sem varða Norðurlöndin ein og þær sem varða beltið um Evrópu þvera, eru reistar á þeirri grundvallarforsendu að takast megi samkomulag um afvopnun í Evrópu og slökun á spennu og slökun á kapphlaupi milli NATO-landanna annars vegar og Varsjárbandalagslandanna hins vegar. Það er þessi ósk og þessi von um slökun sem er forsendan undir kjarnorkuvopnalausu belti í Evrópu eða kjarnorkuvopnalausu svæði á Norðurlöndum. Án þessarar forsendu stenst svæðishugmyndin ekki.

Í öllum yfirlýsingum ábyrgra norrænna stjórnmálaafla, þar á meðal norrænna jafnaðarmanna, kemur þetta samhengi og þessi forsenda skýrt fram. Þar kemur líka skýrt fram að svæði af þessu tagi verði að ná yfir stærra landsvæði en Norðurlöndin ein. Við Íslendingar höfum látið í ljós þá skoðun að svæðið ætti að ná frá Grænlandsströndum til Úralfjalla. Í ályktun Alþingis um afvopnunarmál kemur líka fram að við skoðum slíkt svæði í samhengi við almenna kjarnavopnaafvopnun.

Auðvitað viljum við halda Íslandi áfram kjarnavopnalausu og ætlum okkur það. Auðvitað höfum við áhuga á að Ísland verði lýst kjarnavopnalaust svæði ef það eykur öryggi okkar, en einungis ef það eykur öryggi okkar. Slík yfirlýsing, ef af yrði, má einungis vera í fullvissunni um aukið öryggi. Þess vegna getur hún ekki staðið ein eða verið einhliða. Henni þarf að fylgja margt fleira. Þeir sem tala hér á Alþingi eða á Íslandi fyrir einhliða yfirlýsingu af Íslands hálfu eða Norðurlandanna horfa fram hjá þessari staðreynd, enda eru það í mörgum tilvikum sömu aðilar og hafa viljað vestrænt varnarsamstarf feigt og hafa ekki fengist til að viðurkenna kosti þess og öryggið sem því fylgir.

Fram hjá því verður ekki litið að við höfum verið og erum þátttakendur í varnarsamstarfi vestrænna lýðræðisþjóða. Fram hjá því verður heldur ekki litið að þau ár sem þetta samstarf hefur ríkt höfum við notið friðar. Sá friður hefur byggst á jafnvægi milli austurs og vesturs. Hluti af því jafnvægi hefur verið talinn til gagnkvæmrar fælingar hvort sem okkur líkar betur eða verr. Sérhver aðgerð sem hefur í för með sér röskun þessa jafnvægis eykur á ófriðarhættu. Þess vegna eru gagnkvæmni í afvopnun og jafnvægi lykilatriði sem hafa verður að leiðarljósi.

Einhliða yfirlýsing varðandi svæði sem er hluti af varnarsvæði lýðræðisþjóðanna þýddi breytingu á jafnvæginu, röskun á jafnvæginu. Og til að jafnvægi héldist þarf þá greinilega gagnkvæmni af hálfu Varsjárbandalagsins og Sovétríkjanna. Þess vegna kemur einhliða yfirlýsing ekki til greina. Hún væri til hins verra.

Í annan stað eru þrjú Norðurlandanna, þar á meðal við, hluti af varnarkeðju NATO. Yfirlýsing varðandi þessi lönd krefst vitaskuld endurmats á heildarvörnum bandalagsríkjanna. Þess vegna verður engin yfirlýsing gefin án slíks endurmats sem fram færi að sjálfsögðu meðal bandalagsríkjanna og af þeirra hálfu.

Þó ekki væru nema þessar tvær ástæður, sem ég hef hér rakið, nægja þær til að sanna að einhliða yfirlýsing kemur ekki til greina því að hún mundi skaða öryggi okkar en ekki auka það eins og hlyti þó að eiga að vera grundvallarforsenda þess að gefa yfirlýsingu af þessu tagi.

Hugsanlegar ábyrgðir stórveldanna á því að virða yfirlýsingu af þessu tagi verður á hinn bóginn að skoða í ljósi þess hversu áreiðanlegar þær séu. Sá áreiðanleiki er kominn undir því að um raunverulegan vilja beggja stórveldanna sé að ræða og að traust en ekki tortryggni ríki á milli þeirra. Tortryggi annar aðilinn hinn aðilann mun yfirlýsingin ekki gagnast í reynd. Þess vegna er forsendan sú að víðtækt samkomulag náist milli stórveldanna um slökun spennu og afvopnun þar sem eftirlit sé með þeim hætti að ekki bara við heldur ekki síður stórveldin geti treyst því.

Ég hef hér, herra forseti, rakið nokkrar forsendur þessa máls. Þótt umræða hafi verið í gangi hefur þessum forsendum að mínum dómi ekki verið haldið nægjanlega til haga og mál til komið að það sé gert. Að því er svæðið sjálft varðar er á hinn bóginn augljóst að Ísland hefur sérstakra öryggishagsmuna að gæta vegna Norður-Atlantshafsins. Íslandi ber því að halda því til haga að svæðið sjálft megi ekki taka einungis til landsvæða heldur líka til hafsins og umræðan eigi að fara fram á þeim grundvelli.

Umræða um þessi mál á Norðurlöndunum snertir okkur Íslendinga vissulega. Þess vegna er það skoðun mín að okkur beri að taka þátt í henni og þá ekki síst til að halda fram okkar sjónarmiðum.

Hér er á ferðinni hápólitískt mál. Afvopnunarmál og slökun spennu eru og eiga að vera pólitísk mál. Fáir ítrekuðu það reyndar oftar en Olof heitinn Palme, fyrrum forsætisráðherra Svíþjóðar, sem lagði jafnan á það áherslu að þessi mál, afvopnunarmálin, ættu að vera í höndum stjórnmálamanna en ekki hershöfðingja eða sérfræðinga.

Út frá því sjónarhorni, sem er sama sjónarhorn og Olof Palme hefur haft og sem ég hef talið rétt, hef ég ekki talið að fela ætti þessi mál neinum öðrum en þeim sem bera pólitíska ábyrgð. Stofnun embættismannanefndar, sem til umræðu hefur verið, án skilgreinds hlutverks eða án pólitískrar yfirstjórnar er frávik frá þessu grundvallarsjónarmiði, frávik sem ég tel varasamt og vísa þar aftur til ummæla Olofs Palme. Á hinn bóginn er fagleg rannsókn á þessu máli undir pólitískri leiðsögn, fagleg rannsókn á forsendunum fyrir og afleiðingunum af framkvæmd kjarnorkuvopnalauss svæðis á Norðurlöndum og þeim skilyrðum sem hvert ríkjanna telur að fullnægja þurfi, til þess fallin að varpa ljósi á hugmyndina.

Það er skoðun okkar Alþýðuflokksmanna að Ísland ætti að beita sér fyrir því að frekari umfjöllun um málið félli í þennan farveg. Þá hefðu þær Norðurlandaþjóðir sem aðilar eru að varnarsamstarfi lýðræðisþjóðanna samráð við bandalagsþjóðir sínar og gerðu bræðraþjóðum sínum á Norðurlöndum grein fyrir þeim viðhorfum sem þar kæmu fram.

Þetta, herra forseti, taldi ég nauðsynlegt að fram kæmi í umræðunni um utanríkismál nú og þá sérstaklega varðandi þá umræðu sem hefur verið í gangi um kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum. Svo margt hefur verið missagt í þeim efnum að ég taldi nauðsynlegt að láta þetta koma skýrt fram.

Hitt er annað mál að nú eru í burðarliðnum stóratburðir. Nú eru í burðarliðnum af hálfu stórveldanna hugmyndir um útrýmingu eða mikinn samdrátt í meðaldrægum og jafnvel skammdrægum kjarnaeldflaugum. Hér er verið að taka upp þráðinn að nýju frá því á Reykjavíkurfundinum. Þetta vekur vitaskuld vonir og allir hljóta að óska þess að hér sé á ferðinni fyrirboði nýrra tíma. Náist árangur á þessu sviði, sem stórveldin hafa nú tekið undir að rætt skuli sérstaklega, skapast vitaskuld við það algjörlega nýjar forsendur sem munu hafa víðtæk áhrif og verður nauðsynlegt fyrir okkur Íslendinga að meta sérstaklega. Við skulum vona að í þessum hugmyndum eygjum við stöðvun vígbúnaðarkapphlaupsins því að sannleikurinn er vitaskuld sá að vígbúnaðarkapphlaupið, eins og það hefur verið rekið, eykur stríðshættu en dregur ekki úr henni. Og það sem meira er, enginn vinnur þetta kapphlaup sem er knúið áfram af tortryggni og ótta.

Vitaskuld þarf að eyða þeirri tortryggni og þeim ótta. Smáþjóð eins og við Íslendingar á þar vissulega hlutverki að gegna. Smáþjóð eins og við ógnar engum. Smáþjóð, sem er vopnlaus eða vopnlítil, er ekki ógnun við neinn. Hún á því að geta haft sérstöku hlutverki að gegna. Það er skoðun okkar Alþýðuflokksmanna að smáþjóðir ættu að taka saman höndum um það verkefni að hjálpa til við að eyða tortryggni stórveldanna í milli.

Við vitum það öll að kjarnavopnin eru svo ógnvænleg að þau má aldrei nota. Til þess eru afleiðingarnar of hryllilegar. Það verkefni sem menn standa frammi fyrir í afvopnunarmálum er því í rauninni tvíþætt: Í fyrsta lagi að tryggja að aldrei verði til þessara vopna gripið og að hinu leytinu að vinna að fækkun þeirra, eyðingu og alhliða afvopnun. Þessum markmiðum verður ekki náð nema gagnkvæmni ráði í samdrætti og jafnvægi í vopnamætti. Ekkert skref í þessa átt mun heldur standast nema öruggt eftirlit sé tryggt og þannig frá því gengið að allir uni því og treysti. Einhliða afvopnun eða skyndiaðgerðir gætu aðeins aukið á ófriðarhættu. Því ber að fara varlega og því á að stefna að skipulegri afvopnun á raunhæfum tíma með öflugu eftirliti með framkvæmdinni þannig að gagnkvæmt traust geti ríkt og eflst. Takmarkið er vitaskuld að tryggja samtímis valdajafnvægi og frið við stöðugt minnkandi vopnaburð.

Alþfl. telur að Íslendingar eigi að styðja alla raunhæfa viðleitni til afvopnunar á alþjóðavettvangi og þó einkanlega og sem fyrst algjört bann við sýkla-, gas- og leisivopnum, í annan stað fækkun kjarnorkuvopna stig af stigi, í þriðja lagi viðleitni til þess að koma á gagnkvæmum samningum um stöðvun á frekari tilraunum með kjarnorkuvopn, í fjórða lagi tryggingu gegn því að fleiri þjóðir en nú afli sér kjarnorkuvopna og í fimmta lagi friðun geimsins og bann við vopnabúnaði og tilraunum í honum. Í þessu síðastnefnda felst að ABM-samningurinn frá 1972 verði haldinn og fái að haldast og þá samkvæmt hefðbundnum skilningi. Íslendingar eiga jafnframt að leggja sérstaka áherslu á að stöðva verði vígbúnaðarkapphlaupið í og á hafinu og að ógnarvopn verði ekki enn frekar en nú er orðið flutt af landi og á haf út. Jafnframt ætti það að vera sérstakt hlutverk Íslendinga að beita sér fyrir því að sett verði sams konar ákvæði varðandi hafið til að auka traust eins og ákveðin voru varðandi landsvæði á Stokkhólmsráðstefnunni.

Herra forseti. Þessi eru meginatriðin sem við Alþýðuflokksmenn leggjum áherslu á að því er varðar viðhorfin í afvopnunarmálum.

Ég vil svo víkja fáeinum orðum að bilinu milli ríkra þjóða og snauðra og hlut okkar Íslendinga í því að rétta hinum snauðu þjóðum hjálparhönd. Það er kunnara en frá þurfi að segja að í stórum hluta heims ríkir argasta fátækt og að bilið milli ríkra þjóða og snauðra fer sífellt vaxandi. Það er sagt að fimmti hver maður á jörðinni búi við hungur og næringarskort. Þetta ástand brýtur vitaskuld gegn allri réttlætisvitund og er í hróplegri andstöðu við viðhorf Íslendinga til frelsis, mannréttis og jafnaðar. En í þessari misskiptingu felst jafnframt hætta á ófriði. Þess vegna leggjum við Alþýðuflokksmenn áherslu á að allri viðleitni til þess að minnka bilið milli ríkra þjóða og snauðra verði veitt lið og að Íslendingar leggi fram sinn réttláta skerf til þróunaraðstoðar bæði í neyðarhjálp og reyndar ekki síður í því að hjálpa þróunarlöndunum til þess að bjargast á eigin spýtur.

Það verður að segjast eins og er að hlutur okkar Íslendinga í þessum efnum hefur verið smánarlega smár. Þann smánarblett þurfum við að má af íslensku þjóðinni. Það er orðið meira en mál að framkvæma þær þáltill. sem samþykktar hafa verið um aukna aðstoð Íslendinga til þróunarhjálpar. Að öðru leyti vitum við vitaskuld að til þess að bæta kjör hinna snauðu þarf mikið fé af hálfu heimsbyggðarinnar allrar. Það fé mætti finna í samdrætti í vígbúnaði.

Herra forseti. Ég vil þá fara fáeinum orðum um utanríkisviðskipti okkar. Það stendur upp úr að ákveðnar þjóðarheildir eru okkur mjög mikilvægar viðskiptalega séð. Evrópubandalagslöndin eru nú með um 54% af viðskiptaveltu Íslendinga, 54,2% af útflutningi og 52,9% af innflutningi. EFTA-löndin eru með 15% af viðskiptaveltu okkar, þ.e. 10,1% í útflutningi og 20,6% í innflutningi. Þetta er Evrópa. Evrópa er meginviðskiptaaðili okkar og hlutdeild Evrópu í viðskiptum okkar við umheiminn hefur farið vaxandi að undanförnu. Þessir markaðir a vegum Efnahagsbandalagsins og EFTA eru okkur því mjög mikilvægir.

Hins vegar höfum við þurft að upplifa það undanfarið að Evrópubandalagið er tekið að leggja tolla á útflutning okkar til þeirra landa. Fyrst á árinu 1986 var það tekið upp varðandi saltfisk, saltfiskflök og skreið og nú eru uppi sams konar áform varðandi lýsi. Með þessu hefur Evrópubandalagið komið gjörsamlega í bakið á Íslendingum. Okkur var heitið því á sínum tíma að þessir tollar á saltfiski og skreið yrðu ekki á lagðir eða upp teknir. Við höfum fellt niður tolla á innflutningi frá þessum Evrópubandalagslöndum til okkar. Við gerðum það á þeirri forsendu að ekki yrðu lagðir tollar á saltfisk og skreið. Evrópubandalagið hefur þess vegna í raun og sannleika verið að kippa forsendunum undan því samkomulagi sem gert var á sínum tíma. Ég tel að þetta sé mjög alvarlegt mál. Ég hef áður gert það hér að umtalsefni og ég vænti þess að útflutningssamtökin fari að gefa þessu máli meiri gaum en verið hefur og sömuleiðis þau ráðuneyti sem um þessi mál eiga að fjalla. Ég hef áður gert það að tillögu minni að því er þetta sérstaka mál varðar að sérstakar sendinefndir yrðu gerðar út til einstakra aðildarríkja Evrópubandalagsins til þess að tala okkar máli. Ég ítreka þá tillögu enn. Ég tel að svo alvarlegt mál sé á ferðinni að það sé nauðsynlegt að við beitum öllum ráðum til þess að hindra það að Evrópubandalagið haldi inn á þá braut sem það hefur verið að fikra sig inn á, að taka upp tolla á útflutning okkar til þeirra landa, og við verðum að leggja okkur í líma við að hnekkja þeim tollum sem þegar hafa verið upp teknir. Veit ég þó víst að þessir tollar hafa ekki bitnað á okkur í reynd vegna þess að undanþágukvótar hafa verið nýttir að því er saltfiskinn varðar til þess að við slyppum, en það er ótryggt ástand og ákvörðun sem einungis er tekin til eins árs í senn og við það getum við vitaskuld ekki unað í máli sem þessu.

Annað mál er það að það er nauðsynlegt fyrir Íslendinga að knýja á um að unnar fiskafurðir verði viðurkenndar með sama hætti og iðnaðarvörur þannig að um þær gildi fríverslun eins og um aðrar iðnaðarvörur. Menn getur vafalaust greint á um hvernig eigi að vinna þessu fylgi. Ég hef talið að ein farsælasta leiðin væri sú að vinna þessari hugmynd fyrst fylgi innan EFTA þar sem við erum aðilar og að því hefur reyndar verið unnið af hálfu þingmannanefndar EFTA og reyndar fyrir frumkvæði okkar, íslensku þingmannanna í nefndinni. Ég vænti þess að allir þeir sem nálægt þessum málum koma leggi þessari viðleitni lið því að ef okkur tekst að ná þessu fram innan EFTA er auðveldari eftirleikurinn að mínum dómi að þrýsta á um að hið sama skuli gilda í viðskiptum við Evrópubandalagið.

Ég ítreka það enn og aftur að viðskiptin við Evrópu eru stórmál sem við verðum að gefa mikinn gaum og leggja sérstaka áherslu á að ekki verði reistir tollmúrar sem geta bitnað óþyrmilega á íslensku efnahagslífi, tollmúrar sem eru í fyllsta máta ósanngjarnir. Við verðum á hinn bóginn að leggja okkur fram um að brjóta þá múra niður sem eru fyrir hendi. Því var reyndar heitið, bæði þegar við gengum til þessa samstarfs og í ýmsum yfirlýsingum sem hafa verið gefnar síðar, sbr. Lúxemborgaryfirlýsinguna sem hæstv. utanrrh. vitnaði til hér í sínu máli.

Herra forseti. Ég hef valið að takmarka mál mitt við fáeina málaflokka. Það er vitaskuld margt fleira sem væri ástæða til að ræða. Sumu af því munu aðrir þm. Alþfl. gera grein fyrir og viðhorfunum til þess hér síðar í þessum umræðum en annað verður að liggja á milli hluta í þeirri tímaþröng sem hér er.

Að lokum vil ég aðeins árétta og leggja áherslu á þá hornsteina íslenskrar utanríkisstefnu sem við Alþýðuflokksmenn teljum að aldrei verði of oft minnt á.

Það er þá í fyrsta lagi hið norræna samstarf. Þetta samstarf hefur verið okkur alveg ómetanlegt og af því hafa Íslendingar haft mjög mikinn hag, langtum meiri hag en flestir gera sér yfirleitt grein fyrir. Þess vegna ber okkur að efla tengsl okkar við Norðurlöndin, efla norrænt samstarf.

Í annan stað er það þátttaka Íslands í varnarsamstarfi lýðræðisþjóðanna og varnarsamningurinn við Bandaríkin. Þetta fyrirkomulag hefur tryggt okkur frið, við höfum notið friðar og menn skyldu ekki raska því jafnvægi sem ríkt hefur hér um slóðir.

Í þriðja lagi er það þátttaka Íslands í starfi Sameinuðu þjóðanna. Við það eigum við sem smáþjóð að leggja alveg sérstaka rækt.

Í fjórða lagi er stuðningur Íslendinga við raunhæfa og skynsamlega viðleitni til afvopnunar, sbr. ályktun Alþingis frá 23. maí 1985, og þá ályktun ber að skoða í heild en ekki tæta í samhengislausa parta eins og ýmsir virðast hafa tilhneigingu til.

Og að lokum, herra forseti, aðeins þetta. Utanríkismál þjóðarinnar eru svo mikilvæg að í þeim verður vitaskuld að fara fram með gát. Óskynsamlegar uppákomur geta valdið skaða. Slíkt ber vitaskuld að forðast. En jafnframt lít ég svo á að það sé hlutverk okkar alþm. að leita eftir því af fremsta megni að sem víðtækust og breiðust samstaða takist um utanríkisstefnu Íslendinga, svo mikilvægur sem þessi málaflokkur er fyrir okkur, smáþjóðina nyrst í Ballarhafi. Á það leggja líka aðrar þjóðir sérstaka áherslu að ná sem víðtækastri samstöðu um utanríkisstefnu sína og það verðum við ætíð og ævinlega að hafa að leiðarljósi og þess vegna skulum við gæta þess að í umræðum um þessi mál höldum við uppi skynsamlegu viti.