11.03.1987
Sameinað þing: 61. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3953 í B-deild Alþingistíðinda. (3600)

396. mál, utanríkismál

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þessa skýrslu hæstv. utanrrh. um utanríkismál sem lögð hefur verið fram hér á þinginu að venju. Ég vil þó endurtaka það, sem ég hef áður sagt og lagt til, að þessi mál sem hún fjallar um eru svo mikilvæg að það sæmir ekki að menn þurfi að kynna sér skýrsluna og ræða hana í þeim flýti og því annríki sem hér dynur yfir síðustu daga þingsins. Ég verð að viðurkenna að mér hefur einungis gefist lítið tóm til að gaumgæfa skýrsluna, hefði kosið að hafa mun betri tíma, hefði líka kosið að hafa mun lengri tíma til að undirbúa vandaða umfjöllun, því að það eiga þessi mál og þessi málaflokkur skilið.

Ég mun að meginefni til fjalla um þessa skýrslu sem hér liggur fyrir og þau atriði í henni sem síðan gefa tilefni til umfjöllunar um hina ýmsu málaflokka. Ég mun tæpa á mörgum málaflokkum en hv. þm. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir mun fjalla um kaflann um þróunarsamvinnu sérstaklega og mun ég því sleppa honum.

Ég minnist þess þegar fjallað var um skýrslu utanrrh. á s.l. ári að þá stóð ég hér ein í salnum utan forseta sem stóð að baki mér eða sat. Allir aðrir voru gengnir úr salnum. Klukkan var á slaginu sjö þegar ég hóf mál mitt, mér var meinað að fresta umræðunni. Allir höfðu farið til þess að hlýða á fréttir Ríkisútvarpsins af árás Bandaríkjamanna á Líbýu og hér stóð ég ein og þrumaði mína ræðu yfir tómum sal á meðan allir aðrir þm. hlustuðu á Ríkisútvarpið og fréttir þess af þessum atburði.

Ég nefni þetta nú vegna þess að ástandið í alþjóðamálum hefur breyst mjög mikið á því ári sem nýliðið er. Þá sáum við ekki fyrir og vissum ekki að hér yrði haldinn fundur leiðtoga stórveldanna eins og varð. Þá sáum við heldur ekki fyrir þann árangur sem virðist þrátt fyrir allt vera að koma í ljós af þeim fundi. Það hafa orðið miklar breytingar á þessum tíma eins og ég sagði og þegar maður lítur á efnisyfirlit þessarar skýrslu upp á 63 síður má glögglega sjá hversu margþætt samskipti okkar Íslendinga við umheiminn eru, hversu marga málaflokka þau varða, bæði sem varða viðskipti, menningarsamskipti, ýmis friðsamleg samskipti og samstarf sem að sjálfsögðu hlýtur að vera lykillinn að því að ná friði og skilningi milli þjóða. Hér er auðvitað líka fjallað um afvopnunarmál og mun ég víkja að þeim.

Mig langar nú til þess að fara lauslega yfir skýrsluna. Ég mun einungis tæpa á nokkrum atriðum og alls ekki gera neina tæmandi úttekt á henni, en ég mun nota skýrsluna fyrst og fremst sem viðmiðunarpunkt.

Í innganginum er talað um að hefja átak í sölu- og markaðsmálum með hliðsjón af þeim breytingum sem eru að eiga sér stað í íslensku atvinnulífi með tilkomu nýrra atvinnugreina. Ég vil minna á þáltill. sem Kvennalistinn flutti hér á þingi, að vísu endurflutti, og er 331. mál þessa þings og fjallar um upplýsingaöflun um markaðsaðstæður erlendis en hún er til umfjöllunar í utanrmn. nú. Í innganginum er líka vikið að því sem er lykilatriði til þess að við getum staðið okkur í samkeppni við aðrar þjóðir og ég vil vitna, með leyfi forseta: „Hráefniskostnaður og frumvinnsla verður sífellt minna hlutfall framleiðsluverðs, nýjar aðferðir draga úr kostnaði við vinnuafl og aukin eftirspurn er eftir menntuðu starfsfólki“ og ég legg áherslu á „menntuðu starfsfólki“. Og þá vil ég biðja hæstv. utanrrh. og þá þm. sem hér eru staddir að fletta á bls. 44 í þessari skýrslu en þar er einmitt fjallað um skýrslu sem nefnd á vegum Efnahags- og framfarastofnunarinnar í París vann eftir könnun á íslenskri menntastefnu og þar er nú ástandið ekki burðugt. Ég er hrædd um að það verði lítið af vel menntuðu starfsfólki til þess að sjá Íslandi farborða í framtíðinni ef ekki verður tekið föstum tökum og bætt úr hvað varðar íslenska menntastefnu. Þessi tvö atriði hanga saman og eru mjög nátengd og ég vildi undirstrika það því að lestur þessarar skýrslu er ekki til þess að efla trú okkar á framtíðina nema við tökum föstum tökum þann vanda sem þar er greint frá.

Síðan kemur hér einnig atriði sem ég vil gera athugasemd við. Hér stendur með leyfi forseta: „Farsæld íslensku þjóðarinnar hvílir sem fyrr á undirstöðu traustra varna.“ Ég er ansi hrædd um það að farsæld íslensku þjóðarinnar hvíli á talsvert öðru en undirstöðu traustra varna og varna gegn hverju, mætti ég spyrja hæstv. utanrrh.? Hvað er það sem steðjar að íslenskri þjóð sem krefst traustra varna til þess að farsæld hennar verði borgið? Ég mundi veðja fremur á menntað starfsfólk til þess að farsæld íslensku þjóðarinnar yrði borgið en traustar varnir.

Það er talað um íslenskt frumkvæði í öryggis- og varnarmálum á bls. 6 í 3. kafla inngangsins og ég mun víkja að því örlítið nánar seinna. Þar er sagt frá því að ráðnir hafi verið tveir varnarmálafulltrúar og að ráðning þeirra hafi skapað skilyrði þess að unnt verði að leggja hlutlægt íslenskt mat á varnarstöðu landsins og fyrirkomulag varnanna. Þeir hljóta að hafa mikið að gera þessir tveir menn. Má ég spyrja hverjir þeir eru, hvaða menntun þeir hafa og hvenær þeir voru ráðnir? Var staða þeirra auglýst þegar þeir voru ráðnir? Síðan stendur líka að Íslendingar hafi tekið virkari þátt í umræðum um öryggismál Norður-Atlantshafssvæðisins og bætt tengsl sín við hermálayfirvöld Atlantshafsbandalagsins. Á hvern hátt hafa þeir gert það? Það stendur enn fremur á bls. 7: „Mörkuð hefur verið ný stefna varðandi upplýsingar til almennings um framtíðaráætlanir, bæði hvað snertir búnað og mannvirki varnarliðsins og er einmitt ratsjárstöðvamálið gott dæmi þar um.“ Hvernig stefna er þetta sem mörkuð hefur verið, hvernig hefur verið staðið að upplýsingum til almennings? Má ég spyrja hæstv. utanrrh. um það?

Síðan er vikið að einstökum alþjóðamálum. Ég las þessa skýrslu yfir með hraði og þegar ég hafði lokið lestri hennar hugsaði ég: Mér hlýtur að hafa yfirsést. Getur það verið. Og ég aðgætti aftur og mér hafði ekki yfirsést. Ég gætti vel í kaflanum um einstök alþjóðamál, síðan fletti ég á bls. 31 og þar gætti ég líka að því sem sagt var um Nicaragua, um contraskæruliðana en þar fann ég ekki það sem ég leitaði að. Þá fletti ég á bls. 32 og ég aðgætti hvað stóð um styrjöld Írana og Íraka og ég fann það ekki heldur þar.

Það sem ég var að leita að var frásögn af þeim atburðum sem orðið hafa í Bandaríkjunum þar sem upp hefur komist um vafasamt athæfi Bandaríkjaforseta í sambandi við vopnasölu til Írans og ég var einmitt stödd á þingi Sameinuðu þjóðanna s.l. nóvember þar sem frásögn af þessum atburðum kom daglega í bandarísku sjónvarpi. Þessir atburðir og athæfi aðstoðarmanna Bandaríkjaforseta hafa vakið slíka tortryggni með bandarískri þjóð að fylgishrun forsetans hefur verið mikið á undanförnum mánuðum og vikum og fer vaxandi nema hvað það sveiflast um 10% til eða frá. Fólk er jafnvel uggandi um að hann geti enst út það kjörtímabil sem hann hefur verið kosinn til starfa. Ég nefni þetta hér nú vegna þess að hér situr bandarískur her á landinu. Ég nefni þetta einnig vegna þess að fáir eru dyggari stuðningsmenn utanríkisstefnu Bandaríkjaforseta en einmitt stjórnvöld á Íslandi. Og ég gætti að því, e.t.v. var þessi skýrsla skrifuð svo snemma að það var ekki hægt að taka tillit til þessa atburðar, en þá sá ég að greint var frá þeim breytingum sem orðið hafa í Sovétríkjunum upp á síðkastið þar sem andófsmönnum, eins og t.d. Andrei Sakharoff, hefur verið sleppt úr haldi. Þar ríkir þíðutímabil sem stendur. Hversu langt það verður veit maður ekki, hversu langt það nær í að breyta því þjóðfélagi veit maður ekki heldur.

En meðan ritstjóri Morgunblaðsins, Björn Bjarnason, tifar með tilhlökkun í hjarta upp forugan, fölgrænan stigaganginn í fjölbýlishúsi í Moskvu er verið að hreinsa út úr kjallaranum í Hvíta húsinu. Það er verið að hreinsa út kjallarameistarana með einkautanríkisstefnuna sem enginn fylgir dyggar en íslensk stjórnvöld og ég minnist þess að ég spurði hæstv. utanrrh., þegar hér varð umræða utan dagskrár um tilraunasprengingar Bandaríkjamanna, hversu margar sprengingar þeir mættu framkvæma án þess að íslensk stjórnvöld hreyfðu nokkrum andmælum. En hann vildi ekki segja mér neitt um það mál þó svo að hann hefði vitað og ég mun víkja að því síðar.

Mér finnst þetta mjög alvarlegt. Ég tek þetta sérstaklega fram vegna þess að sú staðreynd að umfjöllun um þessa alvarlegu atburði, sem eru að verða með Bandaríkjamönnum, hefur verið sleppt hér. Það er ekkert minnst á þetta. Í umfjöllun um Íran og Írak eru bókstaflega ein, tvær, þrjár, fjórar og hálf lína. Það er ekkert annað tekið til. Í umfjöllun um Nicaragua er ekkert sagt um það hvernig contra-skæruliðar hafi fengið sitt fé, heldur er sagt frá því að sandinistar hafi fengið 400 millj. dollara í efnahagsaðstoð frá Líbýumönnum á laun. Þarna finnst mér fjarskalega lituð frásögn. Það er mjög nauðsynlegt að frásögn af alþjóðaatburðum sé eins hlutlaus og nokkur kostur er á. Mér finnst þessi umfjöllun benda einmitt til þess að hér sé á ferðinni mjög lituð frásögn, a.m.k. hvað varðar suma atburði.

Í umfjöllun um einstök alþjóðamál er að sjálfsögðu fjallað um leiðtogafundinn, hinn mikilvæga leiðtogafund sem hér var haldinn í Reykjavík og um niðurstöður hans. Þar er að sjálfsögðu minnst á geimvarnarannsóknirnar eða stjörnustríðsáætlun Reagans Bandaríkjaforseta sem var einn stærsti þrándur í götu þess að samningar næðust um afvopnunarmál eins og vænst hafði verið á fundinum hér. Ég bendi hæstv. utanrrh. á skoðun Andrei Sakharoffs á geimvarnaráætlun Bandaríkjaforseta. Því hér stendur, með leyfi forseta:

„Ég vil bæta því við“, segir hæstv. utanrrh., „líkt og ég gerði í síðustu skýrslu að bendi niðurstöður geimvarnarannsókna til að geimvarnakerfi geti stefnt heimsfriðnum í hættu ber risaveldunum að sjá til þess að slík kerfi verði aldrei að veruleika. Sýni þær á hinn bóginn að geimvarnakerfi muni stuðla að friði og öryggi er eðlilegt að risaveldin geri samkomulag um framkvæmd slíkra áætlana.“

Þetta er að sjálfsögðu tiltölulega hlutlaust orðalag, en ég bendi hæstv. ráðh. á að hafi hann kynnt sér þó ekki væri nema smáatriði í sambandi við þessa stjörnustríðsáætlun hlýtur hann að sjá að rannsóknir og tilraunir í tengslum við geimvarnarannsóknir eða stjörnustríðsáætlun valda geysilegri stigmögnun í vígbúnaði. Þær krefjast aukinna tilrauna með kjarnorkuvopn eins og dæmin hafa sannað. Það er ekki að ástæðulausu sem þessar síendurteknu tilraunir með kjarnorkusprengjur í eyðimörkinni í Nevada eru framkvæmdar. Þær eru framkvæmdar fyrst og fremst í tengslum við stjörnustríðsáætlunina. Það verður gífurlegt fjármagn sem verður látið renna til rannsókna í sambandi við hernað ef þessi áætlun nær fram að ganga. Við skulum ekki gleyma því að það er ekki nema stutt síðan það var samþykkt á Bandaríkjaþingi að veita hundrað milljón dollara, ég man ekki hvaða upphæð það var, en það var einhver stór upphæð sem var veitt til að sjá fátæku fólki í Bandaríkjunum farborða. Veit ekki hæstv. utanrrh. um hallann á bandarískum fjárlögum? Hvaðan skyldi hann helst vera runninn? Auðvitað hangir þetta allt saman. Vaxandi fátækt í Bandaríkjunum, skuldastaða í þriðja heiminum, fjárlagahalli hjá flestum þjóðum vestrænna ríkja og m.a. Bandaríkjunum sem hafa einn hæsta fjárlagahalla í heimi, allt hangir þetta saman við það gífurlega fjármagn sem rennur til vígbúnaðar. Og stjörnustríðsáætlunin er ekki bara eitt skref upp á við. Hún er mörg skref sem stigmagnar þetta vígbúnaðarkapphlaup sem allir lýsa þó í fögru máli andstyggð sinni á.

Hér stendur einnig að vissulega skipti afstaða okkar ekki sköpum, og er þá átt við Íslendinga, varðandi frið í heiminum. En við megum aldrei liggja á liði okkar í þessum mikilvægustu málum mannkyns. Ég er innilega sammála þessu en það sem hefur kannske vantað fyrst og fremst í afstöðu okkar Íslendinga og aðgerðum á alþjóðavettvangi er frumkvæði, frumkvæði sjálfstæðrar þjóðar. Við höfum ævinlega haft tilhneigingu fremur til að hengja okkur aftan í þá sem sinna hernaði en að sýna sjálfstætt frumkvæði á alþjóðavettvangi og vísa ég t.d. til þeirrar samstöðu sem við ættum að sýna Norðurlandaþjóðunum í þeirri viðleitni þeirra að hafa frumkvæði um afvopnun í myndun kjarnorkuvopnalauss svæðis á Norðurlöndum.

Í tengslum við umfjöllun um Sameinuðu þjóðirnar er vikið að þeirri tillögu sem þar hefur ítrekað verið flutt og reyndar samþykkt um frystingu og hefur verið kennd við Svíþjóð og Mexíkó. Næstum orðrétta þýðingu þessarar tillögu hafa Kvennalistakonur flutt á Alþingi þrásinnis á þessu kjörtímabili, en hún hefur aldrei fengist útrædd hvað þá heldur samþykkt. Hér stendur um þá tillögu:

„Í henni voru enn sem fyrr vafasamar fullyrðingar, t.d. um að jöfnuður væri með risaveldunum í hernaðarmætti, og þá á þann hátt horft fram hjá gífurlegum yfirburðum Sovétmanna í hefðbundnum vígbúnaði.“

Nú vil ég benda hæstv. utanrrh. á að tillagan fjallar um kjarnorkuvopn. Hún fjallar um frystingu kjarnorkuvopna sem kölluð hefur verið, þ.e. að stöðva þegar í stað tilraunir með hönnun og smíði og dreifingu kjarnorkuvopna. Hún fjallar ekki um hefðbundinn vígbúnað. Þegar tekið er tillit til hernaðarmáttar er vitanlega átt við að stórveldin tvö þau eiga slíkar umframbirgðir af kjarnorkuvopnum að nægir til að drepa hvert mannsbarn fjórum sinnum ef það væri hægt. Hernaðarmáttur þeirra, ef mældur er í mannslátum en ekki mannslífum, í dauðu fólki, það er út á það sem hernaður gengur, ekki satt, að drepa fólk, er því sambærilegur.

Utanrrh. segist einnig hafa bent á að menn væru farnir að færast smátt og smátt frá hugmyndum um frystingu kjarnorkuvígbúnaðar því að slíkri frystingu yrði að fylgja eftir með tímafrekum og flóknum viðræðum um niðurskurð. Síðan segir hann: „Eðlilegra væri að ræða fyrst um afvopnun og svo um traustvekjandi aðgerðir til að tryggja öryggi til langs tíma.“ En þá vil ég benda honum á þar sem hann gagnrýnir tillöguna að 118 ríki sáu ástæðu til að samþykkja þessa tillögu. Þeim fannst ekkert óeðlilegt við að fara þessa leið. Það voru bara 12 ríki sem greiddu atkvæði gegn henni, en það voru fjögur sem sátu hjá og í þessum hópi fjögurra ríkja var einmitt Ísland, því miður. Ég vil meina að það hafi verið fyrst og fremst vegna hugleysis, dáðleysis og skorts á þori. Mér dettur oft í hug, og ég man ekki hvaðan vísan kemur eða hendingarnar, þær koma úr kvæði og ég man það ekki núna hvaðan þær koma, en þær hljóða eitthvað á þessa leið: „Hálsliðamjúkir að hofmanna sið“, að þora ekki að fara úr hópi þessara fjögurra sem sátu hjá. Mér finnst það skammarlegt þegar slíkt mál er á ferðinni.

Ef ég man rétt var einu sinni einmitt talað um að eitt af því sem slíkum hugmyndum um frystingu væri fundið til foráttu varðandi tilraunirnar með kjarnorkuvopn væri að það væri svo erfitt að hafa eftirlit með því hvort tilraunirnar eru gerðar. En ég tek eftir því að sú röksemd er ekki þarna lengur. Kannske er hún ekki þarna lengur vegna þess að Sovétmenn hafa einmitt fallist á það núna að þeir muni beygja sig undir slíkt eftirlit. Þeir sem fengu Sovétmenn til þess að fallast á það eru einmitt samtök alþjóðasambands þingmanna, Parliamentarians for Global Action, sem hafa haft viðræður við fulltrúa beggja stórvelda, boðið þeim upp á vísindamenn sem eru reiðubúnir til að sinna þessu. Það eru jarðfræðingar og eðlisfræðingar sem eru reiðubúnir til að sinna marktæku eftirliti hjá báðum stórveldunum. Þar munu vera bæði bandarískir og sovéskir vísindamenn. Sovétmenn hafa samþykkt slíkt eftirlit. En það er einmitt ekki tekið með sem ástæða nú, þegar þessari tillögu er fundið allt til foráttu, heldur er talað um vafasamar fullyrðingar, en ekki fleira að gert. Þetta þykja mér vera undanbrögð vegna skorts á pólitískum vilja fyrst og fremst.

Ég vil enn fremur ítreka að þegar umræðan um frystingu kjarnorkuvopna fór fram hér á þinginu í nóvemberbyrjun 1986 vék ég að því að þetta eftirlit hefði verið samþykkt og ég sendi hæstv. utanrrh. afrit af upplýsingum frá alþjóðasambandi þingmanna, Parliamentarians for Global Action. Ég sendi honum einnig á þeim tíma álit vísindaráðstefnu sem hafði rannsakað afleiðingar kjarnorkusprenginga hvað varðar kulda, þann kulda sem mun fylgja í kjölfar aðeins örfárra kjarnorkusprenginga, og fleiri gögn sem ég sendi honum afrit af svo hann mætti kynna sér þá umræðu sem er í gangi meðal vísindamanna um þessi mál.

Á bls. 15 er vikið að vorfundi utanríkisráðherra Atlantshafsbandalagsins sem haldinn var í Halifax í maímánuði s.l. Langar mig að taka sérstaklega fram eða leggja áherslu á það sem þar er sagt og ég vitna, með leyfi forseta:

„Á vorfundi utanríkisráðherra Atlantshafsbandalagsins í Halifax, 29.-30. maí s.l. var samþykkt stutt yfirlýsing um nauðsyn takmörkunar hefðbundinna vopna í Evrópu. Jafnframt“ - og ég legg áherslu á - „var settur á laggirnar vinnuhópur háttsettra embættismanna.“

Vinnuhópur háttsettra embættismanna, á enskunni High level task force. Og hvað áttu þeir að gera? Þeir áttu að benda á leiðir til að koma hreyfingu á það mál. Þarna er verið að skipa nefnd embættismanna til að fjalla um afvopnunarmál og það eru utanríkisráðherrarnir sem skipa þessa nefnd. Ég vek athygli á því vegna þess að næsti kafli í skýrslunni fjallar um kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum.

Um það var flutt till. á þessu þingi, hún er 138. mál þessa þings, og hún fjallar einmitt um skipun embættismannanefndar til að fjalla um kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndunum. Meðflutningsmenn á þessari till. auk mín eru Haraldur Ólafsson og Svavar Gestsson og hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Um leið og Alþingi áréttar þá stefnu íslenskra stjórnvalda að kjarnorkuvopn skuli aldrei leyfð í íslenskri lögsögu felur það utanrrh. að beita sér fyrir því á fundi utanrrh. Norðurlanda að sett verði á laggirnar embættismannanefnd á vegum Norðurlanda sem kanni möguleika á og geri tillögur um kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum.“

Það fóru fram talsverðar umræður um þessa till. á þinginu þann 28. janúar s.l. Þar kom í ljós, því miður, að hæstv. utanrrh. vildi ekki gefa neina yfirlýsingu um þetta efni vegna þess að embættismenn frá utanrrn. og reyndar utanríkisráðuneytum hinna Norðurlandanna væru að kanna möguleika á skipun þessarar nefndar. Það er meirihlutavilji á þjóðþingum Norðurlandanna annarra en þessu fyrir því að shk embættismannanefnd verði skipuð. Fyrir því liggja yfirlýsingar utanríkis- og forsætisráðherra landanna.

Það væri hreinlega glapræði og það væri skammarlegt ef Íslendingar einir þjóða ætluðu að sitja út undan þegar aðrar þjóðir Norðurlandanna standa saman um að halda uppi umræðum um þessi mál. Það er dæmalaust hugleysi og vandræðagangur þessara hálsliðamjúku manna að geta ekki staðið með þeirri menningarheild sem þeir eiga nánastan skyldleika við og sem íslenska þjóðin hefur lýst sig fúsasta til að hafa samskipti við af öllum öðrum þjóðum í skoðanakönnunum. Ég trúi því tæpast fyrr en ég tek á því ef hæstv. utanrrh. ætlar þarna að skorast undan og læðupokast af hugleysi sínu til að gera Ísland eitt Norðurlandanna viðskila við þessa umræðu.

Þann 25. mars n.k. verður haldinn hér utanríkisráðherrafundur Norðurlandanna og þá verða þessi mál tekin til umfjöllunar, um skipun embættismannanefndarinnar. Þessi mál hafa verið mikið rædd á þinginu. Það er vilji fyrir því hjá þingflokkum sem hér sitja á Alþingi, þó ekki sé vitað hver vilji þingsins í heild er fyrir því, að Ísland verði gert að kjarnorkuvopnalausu svæði. Ég skora á hæstv. utanrrh. að hafa hugrekki í sér til að láta reyna á það. (Utanrrh.: Ísland er kjarnorkuvopnalaust.) Já, Ísland er kjarnorkuvopnalaust. Norðurlöndin eru kjarnorkuvopnalaus. Spurningin er hvort við viljum lýsa því yfir eða hvort við viljum, eins og stendur á bls. 11, „reka varnarstefnu sem hvílir á ógn kjarnorkusprengjunnar.“ Það er það í hnotskurn. Ég hef svo oft rakið forsendurnar að mér finnst það vera slík endurtekning að taka upp þessar forsendur eina ferðina enn. Það er ekki hægt að nota kjarnorkuvopn til varnar. Sá sem skýtur kjarnorkuvopni skýtur því að sjálfum sér. Það getur enginn varist. Þess vegna er ekki um að ræða að farsæld Íslendinga byggist á traustum vörnum. Það er ekki hægt að verjast með þessum vopnum. Röksemdafærslan sem liggur til grundvallar og forsendurnar eru gagnslausar. Þær eru ónothæfar.

Áður en ég yfirgef þessi afvopnunarmál vil ég geta þess að ég bar fram spurningar til hæstv. utanrrh. í umræðum utan dagskrár þann 5. febrúar. Svör hans við spurningum mínum, sem voru reyndar engin, voru á þann veg að þegar ég las þau núna aftur skynjaði ég hversu ómöguleg skilgreiningin a hlutverki utanríkisráðherra er í raun og veru. Hv. 5. þm. Austurl. minntist á þá leynd sem fylgdi samningagerðinni þegar varnarsamningurinn var gerður og hann talaði um það hugleysi ráðamanna þá að þora ekki að setja þetta mál fram fyrir þingið eða þjóðina. Það hefur ekkert breyst. Leyndin er sú sama. Og ég ætla að vitna, með leyfi forseta: Þá spyr ég hæstv. utanrrh. eftir að hafa tilkynnt honum að Kvennalistinn sé mótfallinn þeim ítrekuðu tilraunasprengingum sem Bandaríkjamenn hafa gert í Nevada-eyðimörkinni. Ég tilkynnti enn fremur að við styddum þann hóp bandarískra þingmanna og annarra Bandaríkjamanna sem mótmæltu þessum tilraunasprengingum og hefðum sjálfar sent mótmæli til Bandaríkjaforseta. Ég spurði hann í fyrsta lagi hvort hann vissi hve margar tilraunasprengingar væri áætlað að gera á þessu ári í tengslum við geimvarnaáætlunina. Hafa bandarísk stjórnvöld upplýst hann um þetta? Ég spyr vegna þess að nú er hæstv. utanrrh. búinn að fá tvo varnarmálasérfræðinga sem eiga einmitt að leggja hlutlægt mat á varnarmálin. Í öðru lagi spurði ég hann: Hve margar sprengjur mættu Bandaríkjamenn sprengja neðanjarðar áður en íslensk stjórnvöld mundu hreyfa fingur til mótmæla? Eru einhver mörk fyrir þessari hegðun? Og í þriðja lagi spurði ég hann hvernig honum litist á ef það hlé á sprengingum Sovétmanna yrði nú rofið, þ.e. að Sovétmenn mundu nú sjálfir hefja tilraunasprengingar eftir að Bandaríkjamenn hefðu aukið við sínar. Og hverju svaraði hæstv. utanrrh., einráður og alvaldur um utanríkismál á Íslandi? Hann sagði, með leyfi forseta:

„Herra forseti. Vegna fyrirspurna hv. 3. landsk. þm. mundi ég ekki upplýsa ef ég vissi í sambandi við þá fsp."

Hann mundi ekki upplýsa ef hann vissi! Hann mundi ekki segja mér það, þingmanni. Hann mundi ekki segja hinum þingmönnunum það. Hverjum mundi hann segja það? Íslensku þjóðinni? Nei, hann mundi ekki upplýsa ef hann vissi. Þetta einræði utanrrh. í utanríkismálum og varnarmálum Íslendinga finnst mér óhugnanlegt. Mér finnst það vægast sagt óhugnanlegt. Mundi hann upplýsa hina í ríkisstjórninni? Ég mundi vilja spyrja hann að því. Mundi hann segja hinum í ríkisstjórninni frá því? (HG: Þeir spyrja ekki.) Og hvaðan hefur hann fengið að vita þetta? Hvaðan fær hann upplýsingar sínar um þetta ef hann mundi nú vita eitthvað? Hvaðan hefði hann fengið upplýsingarnar?

Ég gagnrýni hvert vald utanrrh. Íslendinga er í þessum efnum, að hann skuli hafa nánast einræði til að taka ákvarðanir og halda upplýsingum leyndum fyrir bæði þingi og þjóð eins og honum hentar. Og ég bendi á það sem segir í þessari skýrslu um hlutverk Norðurlandanna einmitt í tengslum við þetta mál sem fjallar um kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndunum, þ.e. að lýsa því yfir að Norðurlöndin séu kjarnorkuvopnalaus. Þar stendur nefnilega á bls. 25 svo fallega um Norðurlandasamvinnuna:

„Hið margslungna og nána samstarf Norðurlanda er á alþjóðlegum vettvangi oft nefnt sem dæmi um hvernig nágrannasamskipti ríkja geta best orðið. Til þess er gjarnan vitnað sem hvatningar til þjóða um að búa saman í sátt og samlyndi.“

Síðan segir hæstv. utanrrh. okkur frá því hvað það er sem bindur Norðurlöndin traustum böndum. Þau tala lík tungumál, menning og saga hefur um aldir verið samofin og norræn samvinna hefur þróast með þeim hætti sem við þekkjum. Hann talar um Norðurlandaráð. Og síðan segir hann, með leyfi forseta:

„Náið samstarf milli embættismanna norrænu utanríkisráðuneytanna, milli fastanefnda þeirra hjá alþjóðastofnunum og starfsmanna norrænna sendiráða gera hinni fámennu íslensku utanríkisþjónustu kleift að sinna mikilvægum verkefnum sínum betur en ella.“

Og þetta varð ég sannarlega vör við á þingi Sameinuðu þjóðanna á s.l. hausti, hversu náin samvinna var milli Norðurlandaþjóðanna, hversu mikinn hag Íslendingar höfðu af því að nýta sér upplýsingar og samvinnu við þjóðir sem hafa mun fleiri starfsmenn og fulltrúa á þingi Sameinuðu þjóðanna, sem hafa mun stærri og virkari deildir heima fyrir sem vinna verk upp í hendur fulltrúanna á þingi Sameinuðu þjóðanna og var sannarlega allt gott um það að segja.

Ef Norðurlöndin, önnur en Ísland, sameinast um bæði umræður og jafnvel ákvarðanatöku um kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndunum og Ísland verður eitt skilið eftir út undan takmarkast að sjálfsögðu þetta kjarnorkuvopnalausa svæði við yfirráðasvæði Íslands. Þar verða takmörkin. Ísland eitt verður skilið eftir sem land eða landsvæði, yfirráðasvæði þar sem mögulega verður hægt að finna kjarnorkuvopn eða þar sem sú varnarstefna verður rekin „sem byggir á ógn kjarnorkusprengjunnar“, eins og segir í skýrslunni.

Það eru mörg mál sem vert væri að ræða hér ítarlega, t.d. samstarf Evrópuþjóðanna á sviði vísinda og tækni, auk samskipta Íslendinga við Evrópuþjóðir hvað varðar viðskipti í vaxandi mæli, en ég mun ekki víkja mörgum orðum að því. Ég fagna samskiptunum, ég fagna þeirri samvinnu sem við höfum við EUREKA-áætlunina. Ég vil sömuleiðis lýsa yfir stuðningi við viðskiptasambönd okkar við Efnahagsbandalagið og ég vil leggja áherslu á að við höfum vaxandi tengsl við Evrópu. Við höfum vaxandi viðskipta-, vísinda- og menningartengsl við Evrópu. Okkur er nauðsyn að halda Evrópu óskemmdri og lifandi. Við þurfum að gæta að Evrópu hvað varðar varnir, hvað varðar vígbúnað. Við verðum að koma í veg fyrir það ásamt öðrum þjóðum Evrópu og þar með töldum Norðurlandaþjóðunum að Evrópa verði gerð að vígvelli fyrir stórveldin og þangað verði safnað saman ógrynni vopna sem þeir vilja ekki hafa í sínum eigin löndum.

(Forseti: Ég vildi mega spyrja hv. þm. hvort gert sé ráð fyrir löngu framhaldi á ræðunni. Spurningin var af því að við þurfum að fresta umræðunni, hvort það væri hægt að hafa kaflaskipti á ræðunni og halda henni áfram síðar, hvers forseti mætti vænta.)

Já, herra forseti. Ég vissi ekki að fundi ætti að ljúka kl. 6. Mér var ekki tilkynnt það áðan þegar hlé var gert á þingfundi til þingflokksfunda. Vanalega halda fundir hér áfram a.m.k. fram að kvöldmat þannig að ég hélt ekki að ég væri að ganga freklega á tíma þingsins.

(Forseti: Hv. þm. er ekki að ganga freklega á tíma þingsins og ástæðulaust að gera forseta slíkar meiningar. Það er ekki gert ráð fyrir að slíta fundinum núna heldur að fresta umræðu og taka fyrir önnur þýðingarmikil mál. Það er aðeins spurning hvers forseti má vænta. )

Já, ég skil. Þetta vissi ég ekki fyrir fram. Ég á enn eftir eitthvað af máli mínu. Ég vil ekki hraða mér í gegnum það. Ég hef ekki lagt í vana minn að tala langt mál á þingi. Þessi mál standa hjarta mínu nær og ég vil helst ekki þurfa að takmarka mig í þeim málum. Þess vegna mun ég fresta máli mínu núna.