29.10.1986
Efri deild: 7. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 400 í B-deild Alþingistíðinda. (361)

85. mál, sveitarstjórnarlög

Stefán Benediktsson:

Frú forseti. Ég er í þeirri nefnd sem fjalla mun um þetta frv. og ég get lýst afstöðu minni til þess strax með þeim orðum að ég tel þetta gott mál og ég tel að þetta mál beinist til þeirrar áttar sem ég tel lýðræðinu hagstæða, þ.e. opnara og beinna lýðræði.

Menn hafa haft ýmsa fyrirvara uppi um málið af ótta við að það verði svo leiðinlegt að sinna lýðræðinu þegar menn verða farnir að greiða atkvæði um alla mögulega og ómögulega hluti. Mér sýnist að í þessu frv. sé nú þegar búið að slá alla þá varnagla sem slá þarf til þess að lýðræðið verði ekki allt of leiðinlegt að því leyti að þar er gert ráð fyrir ákveðnum fjölda íbúa sem til þurfi til að knýja fram annars vegar sveitarfundi eða hins vegar atkvæðagreiðslur.

Ég veit að eins og hv. 3. þm. Suðurl. minntist aðeins á er þessi tegund lýðræðis þegar stunduð sums staðar. Ég ólst upp að nokkru leyti í sveitarfélagi á suðausturhorni landsins þar sem þessi tegund lýðræðis var stunduð og er stunduð enn þann dag í dag. Þar er aldrei lagt út í nokkra framkvæmd öðruvísi en allir íbúar sveitarfélagsins séu kallaðir saman og málið rætt og síðan tekin ákvörðun sem allir eru sáttir við. Ég hef aldrei heyrt þá gagnrýni í þeirri sveit að fólki þættu þetta leiðinleg vinnubrögð, þvert á móti. Því finnst þessi vinnubrögð svo sjálfsögð að annað komi ekki til greina.

Auðvitað gerum við okkur grein fyrir því að það er erfiðara að fást við svona hluti þegar maður er kominn í stórt sveitarfélag eins og Reykjavík. En það þarf líka nokkuð til að fá uppáskrift og kröfu 89 þúsund manns í Reykjavík til að fram fari atkvæðagreiðsla. Þannig séð hef ég ekki áhyggjur af því að menn verði hlaupandi upp við hvert einasta smátilefni til að láta fara fram atkvæðagreiðslu heldur þurfi þar mjög stór og knýjandi mál til. Aftur á móti gæti vel verið hugsanlegt að það ætti ekki að þurfa jafnmarga íbúa og hér er gert ráð fyrir til að knýja fram almenna fundi því að ég held að allt það sem knýr stjórnvöld til að halda uppi mjög góðri upplýsingastarfsemi sé af hinu góða fyrir lýðræðið.

Ég býst við að við munum skoða þessa hluti nánar þegar málið kemur í nefnd, en heiti því að ég skal ljá því mitt liðsinni.