11.03.1987
Efri deild: 57. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3973 í B-deild Alþingistíðinda. (3618)

416. mál, tollskrá

Fjármálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um tollskrá á þskj. 820. Með þessu frv. er gert ráð fyrir að lækka eða fella niður tolla á ýmsum smávörum. Fyrst og fremst tekur frv. til varnings eins og úra, myndavéla, filma, hljómplatna og nokkurra fleiri vörutegunda sem handhægt er að flytja með sér á milli landa og hefur verið hagkvæmt fyrir fólk að kaupa í smásölu erlendis og flytja með sér hingað til lands. Eins og gefur að skilja hafa slík kaup farið vaxandi með auknum ferðalögum. Verslun með slíkar vörur hefur því í verulegum mæli flust úr landinu eins og innflutningstölur í verslunarskýrslum bera með sér. Samkvæmt þeim er innflutningur á þessum vörum mun minni en vænta má og þar með innlend verslun í þessum vöruflokkum. Af þeim varningi sem einstaklingar hafa með sér frá útlöndum koma í flestum tilfellum engin opinber gjöld. En með þessu frv. er stuðlað að því að verslun með þessar vörur flytjist aftur inn í landið án þess þó að tekin sé óeðlileg áhætta varðandi tekjur ríkissjóðs sem fengi söluskattstekjur af þeirri verslun sem til landsins flyst í stað þeirra takmörkuðu tolltekna sem nú er um að ræða. Um leið er minnkaður sá munur sem er á aðstöðu þeirra sem möguleika hafa á að kaupa vörur sem þessar erlendis og annarra sem ekki hafa aðstöðu til að hagnýta sér slík kaup í ferðalögum.

Um nokkurt skeið hefur verið unnið að endurskoðun tollskrárlaga, eins og kunnugt er og rætt hefur verið um, og ýmissa atriða er snerta tollframkvæmd. Í framhaldi af þeirri endurskoðun liggur nú fyrir Alþingi frv. til tollalaga og samin hafa verið drög að nýrri tollskrá sem þó var ákveðið að leggja ekki fyrir á þessu þingi fyrst og fremst af kostnaðarástæðum. Sú einföldun og lækkun á tollum sem þar er gert ráð fyrir mundi við núverandi aðstæður valda ríkissjóði of miklu óhagræði og af þeim sökum hefur ekki þótt fært að flytja það frv. í heild sinni. Þar hefur verið gert ráð fyrir breytingum í þá átt sem þetta frv. byggist á en það þótti eðlilegt að taka þessa fáu vöruflokka út úr þar sem augljóst er að verslun flyst ekki inn í landið með öðrum hætti. Það er erfitt að leggja nákvæmt mat a tekjubreytingar. Það er þó ljóst að miðað við óbreyttan innflutning í þessum vöruflokkum frá því sem verið hefur mundu tekjur af tollum og vörugjaldi lækka eitthvað en þó mjög mismikið eftir vörutegundum. Það er hins vegar meginmarkmið breytinganna að auka innlenda verslun með þessar vörur og þar með beinar skatttekjur af fyrirtækjum sem stunda verslun með þær og þó öllu fremur söluskattstekjur sem við væntum að muni aukast verulega. Þannig má búast við að tekjutapið vinnist upp að verulegu leyti. Að sjálfsögðu verður þó ekki endanlega úr því skorið fyrr en að fenginni reynslu.

Hér er um vöruflokka að ræða sem bæði snerta hag almennings og eins er um að ræða liti til listmálunar sem snerta að vísu fámennan hóp manna en hagsmuni hóps sem iðkar mikilvæg störf í okkar þjóðfélagi.

Ég vænti þess að þetta tiltölulega einfalda mál geti fengið greiða og skjóta meðferð hér í hv. deild og legg til, frú forseti, að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.