29.10.1986
Efri deild: 7. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 402 í B-deild Alþingistíðinda. (364)

85. mál, sveitarstjórnarlög

Flm. (María Jóhanna Lárusdóttir):

Virðulegi forseti. Mig langar til að þakka þeim hv. þm. sem hér hafa tekið til máls og fjallað um frv. sem ég flutti áðan og þann jákvæða hug sem mér finnst hafa einkennt þessa umræðu, með einstaka undantekningum þó. Ætla ég nú að reyna að fjalla aðeins um þessar umræður og það sem hefur komið fram í þeim sem ég get kannske leiðrétt eða fært til betri vegar vegna vanþekkingar viðkomandi þm., eitthvað sem ég er búin að hugsa um en þeir hafa e.t.v. ekki tekið með í reikninginn.

Hv. þm. Karl Steinar Guðnason, 6. landsk. þm., fjallaði um þetta frv. og var dálítið illa við að ég tók fyrir Svisslendinga og taldi hann að þeir væru ekki lýðræðisþjóð vegna þess að þeir hefðu ekki veitt konum kosningarrétt. Ég verð að telja vafasamt að ég geti varið svissneska karlmenn. Ég tel mér annað skyldara á hv. Alþingi en gera það og verð að segja alveg eins og Karl Steinar að það má telja vafasamt að það sé fullkomið lýðræði í Sviss. En hitt er annað mál að það er margt sem við getum lært af Svisslendingum annað en viðhorf þeirra til kvenna.

Það kom fram í máli þó nokkurra þm., bæði Karls Steinars og annarra, þar á meðal hv. þm. Skúla Alexanderssonar, að þeir teldu þetta frv. hamlandi fyrir sveitarstjórn. Það væri óþægilegt, jafnvel leiðinlegt að standa í svona atkvæðagreiðslu fram og til baka. Það vill svo til að ég bjóst við þessum viðbrögðum hjá nokkrum hv. þm. Mér varð litið á um daginn gömul ummæli Tryggva Gunnarssonar í umræðum um það á Alþingi árið 1907 hvort lausamenn og hjú ættu að öðlast kosningarrétt til bæjarstjórnar. „Það er heppilegt," sagði Tryggvi við það tækifæri, „að bændur reyni þetta fyrst heima hjá sér. Þeir geta þá reynt, hve vel þeim líkar, þegar vinnufólk þeirra fer að ríða á hreppamót til þess að bera þá ofurliði með atkvæðum um sveitarmálin.“ Þarna kemur aftur þessi rótgróna hugsun hjá fólki að vera hrætt við nýjungar og breytingar og telja þær af hinu illa og að þær muni jafnvel skaða hagsmuni þeirra þegar frá líður. Ég hafði gaman af þessum ummælum vegna þess að Tryggvi var einmitt talinn maður nýjunganna fremur en hitt. Samt var hann svona skelfdur við þessar breytingar.

Hv. þm. Davíð Aðalsteinsson tók fram að kosningar færu fram á fjögurra ára fresti til sveitarstjórnar. Þá væri kosið um þau mál sem viðkomandi sveitarstjórn tæki fyrir á næsta kjörtímabili. Þetta er alveg hárrétt. Hins vegar er á það að líta að almennur kjósandi getur mjög lítil áhrif haft á einstök málefni sem kosið er um. Þetta er viðurkennd staðreynd og það er þess vegna sem þetta frv. er flutt. Það er kosið um fjölmörg mál í kosningum en ekki einstök málefni.

Einstaka hv. þm. tóku fram að þeir teldu að það væri ólíklegt, ef fram kæmi ósk í sveitarfélagi um almennar kosningar um eitthvert ákveðið mál, að sveitarstjórn færi ekki eftir því. Það vill svo til að ég hef tínt til nokkrar undirskriftasafnanir sem hafa gengið hér í Reykjavík á undanförnum árum og þær sýna þveröfugt, að það hefur ekki verið efnt til almennra kosninga um einstakt mál jafnvel þó svo að þúsundir undirskrifta liggi fyrir.

Árið 1969 var mótmælt niðurrifi á Fríkirkjuvegi 11 og 3855 manns skrifuðu undir þau mótmæli. Um seðlabankabygginguna var líka þrefað í eina tíð og rúmlega 6000 undirskriftum var þá safnað saman. Um næg og góð dagvistarrými var árið 1979 safnað undirskriftum og voru þær allt að 11 þús. Engin atkvæðagreiðsla fór þá fram. Árið 1981, svo að ég beri einhvers staðar niður, var undirskriftasöfnun gegn skerðingu á opnu svæði í Laugardal og það voru um 9 þús. íbúar sem þá skrifuðu undir. Þetta eru einstök dæmi.

Ég sé ekkert sem mæli gegn því að festa í lög að ef tiltekinn hluti íbúanna, það má alltaf deila um hversu stór hann eigi að vera, fer fram á atkvæðagreiðslu um einstakt mál verði sveitarstjórnin að verða við þeirri ósk. Það er meginefni þessa frv.

Hv. þm. Ragnar Arnalds gerði að umræðuefni að þessi brtt. við sveitarstjórnarlögin hefði komið fram í stjórnarskrárbreytingum Gunnars Thoroddsens, fyrrv. hæstv. forsrh., og það er alveg hárrétt. Ég tek það fram í grg. minni um þetta mál að hér sé ekki um nýjung að ræða heldur hafi þetta verið flutt áður á hinu háa Alþingi, í breyttu formi þó.

Ég þakka hv. þm. fyrir góðar undirtektir og bið um að málinu sé vísað til 2. umr. og félmn.