11.03.1987
Sameinað þing: 62. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3994 í B-deild Alþingistíðinda. (3667)

396. mál, utanríkismál

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Að gefnu tilefni vil ég í upphafi láta þess getið, að það er fyrirhugaður fundur í hv. utanrmn. n.k. mánudag. Þar verður að sjálfsögðu fjallað um þau mál sem fyrir nefndinni liggja. Þau eru allmörg og m.a.s. nú í dag bættist eitt mál við svo að við höfum þar ærið verkefni.

Auðvitað munum við reyna að ræða tillögurnar allar og leitast við að afgreiða þær með einhverjum hætti hvernig svo sem það nú gengur, en eins og menn muna var sett á laggirnar, það var víst 1984 fyrst, nokkurs konar undirnefnd eða starfsnefnd hv. utanrmn. til að fjalla um ýmiss konar afvopnunarmál og þá sérstaklega um kjarnorkuvopnalaus svæði á Norðurlöndum og á ég von á að hún verði búin að hittast fyrir þennan fund í utanrmn.

Hv. þm. Páll Pétursson flutti hér að ýmsu leyti skemmtilega ræðu. Hann las upp ályktun Alþingis, þá merku ályktun Alþingis frá 23. maí 1985. Hann gat þess að ekki væri nú allt mikil viska eða staðreyndir sem ég flytti hér og jafnvel úr öðrum ræðustólum líka, orð mín væru ekki lög. Var ekki nema gaman að því öllu saman sem hann sagði um það. En hins vegar var náttúrlega ræða hans ekki efnislega rétt, því að þetta voru ekki mín orð sem hann var að segja að væru svona vitlaus, heldur talaði ég í nafni allrar utanrmn. þann 23. maí 1985. Og af þessu tilefni held ég að ég komist ekki hjá því að lesa hér upp örlítinn kafla úr umræðunni, þar sem ég flyt framsögu fyrir tillögunni, með leyfi forseta, en þar segir:

„Ekki var í lítið ráðist þegar allir stjórnmálaflokkar sem fulltrúa eiga á Alþingi Íslendinga ákváðu í fyrravetur að freista þess að nefna til fulltrúa sem könnuðu hvort þess kynni að vera kostur að ná sameiginlegri niðurstöðu um eina ályktunartillögu er varðaði afvopnunar- og kjarnorkumál í stað þess að bitist yrði um þær margar. Þingi lauk þó án þess að þessar tilraunir bæru fullan árangur. Nú á þessu þingi var talið rétt að skipuð yrði undirnefnd til að fjalla um afvopnunarmálin og skilaði hún áliti í tillöguformi til hv. utanrmn. 6. þ.m. Þar hefur tillaga þessi verið samþykkt óbreytt eftir nokkrar umræður, en þó með skýringum sem mér er falið að greina hér frá, svo að forðast megi allan hugsanlegan misskilning.“ - Ég endurtek: „með skýringum sem mér er falið að greina hér frá, svo að forðast megi allan hugsanlegan misskilning.“

„Allmiklar umræður urðu í utanrmn. um fyrri málslið 6. mgr. ályktunartillögunnar og skilning á honum. Ýmsum hugmyndum var varpað fram um orðalagsbreytingar en á það var fallist að halda orðalagi undirnefndarinnar óbreyttu, en formanni falið að koma á framfæri fyrir hönd nefndarinnar eftirfarandi skýringum er hann mælti fyrir tillögunni:" - Ég endurtek: „en formanni falið að koma á framfæri fyrir hönd nefndarinnar eftirfarandi skýringum er hann mælti fyrir tillögunni.“

„1. Sá landfræðilegi skilningur væri réttur að Norður-Evrópa næði a.m.k. yfir Norðurlönd, eyjar á norðanverðu Atlantshafi og Norður-Þýskaland, þ.e. Norður-Evrópusléttuna, og allt frá Grænlandi til Úralfjalla.

2. Sá skilningur sem fram kom í eftirfarandi hugmynd um breytingar á upphafi 6. mgr. væri réttur:

„Um leið og Alþingi áréttar þá stefnu Íslendinga að á Íslandi verði ekki staðsett kjarnorkuvopn hvetur það til þess að könnuð verði samstaða um og grundvöllur fyrir samningum um kjarnorkuvopnalaust svæði í Norður-Evrópu sem nái til aðildarríkja Norður-Atlantshafsbandalagsins, Varsjárbandalagsins og hlutlausra ríkja jafnt á landi, í lofti sem á hafinu eða í því. Samningur þessi verði liður í samkomulagi til að draga úr vígbúnaði og minnka spennu.“

Samkomulag er um það í utanrmn. að með tillögunni sem hér er lögð fram sé lokið afgreiðslu fjögurra tillagna um afvopnunar- og kjarnorkumál sem fyrir nefndinni hafa legið, en þær tillögur þekkja allir hv. þm."

Ég læt nægja að lesa þetta hér upp. Menn muna þetta kannske, sumir hverjir a.m.k., en það er alveg ljóst hvað þessi tillaga þýðir. Þetta er grg. með henni sem formanni var falið að flytja fyrir hönd nefndarinnar allrar og það er ekki hægt að gera sér það upp að menn skilji ekki hvað þarna er um að ræða. Það skilja það allir sem skilja vilja. En nóg um það.

Við þurfum enn að fást við þessi mikilvægustu málefni mannkyns kannske, og áreiðanlega, eins og raunar aðrar þjóðir og munum gera það, m.a. á komandi fundi í nefndinni. Þar verður sérstaklega fjallað um embættismannanefnd sem hugmyndir hafa verið um að setja á laggirnar. Einmitt það mál verður kannske aðalmál eða eitt af aðalmálum utanríkisráðherrafundarins 25. mars og hæstv. utanrrh. hefur einmitt bæði nú og áður greint frá því að hann muni hafa samráð við nefndina um það hver yrði afstaða Íslands þá.

Það er auðvitað álitamál hvort skynsamlegt er að setja embættismannanefnd. Ég mælti heldur á móti því í fyrra og ég man að það gerði hv. þm. Páll Pétursson líka. Ég held að við höfum báðir sagt að verið væri að dreifa ábyrgðinni af stjórnmálamönnum til embættismanna og það kynni eins að fara svo að málið drægist lengur og yrði tekið lausari tökum en ekki fastari. En ég sagði hér fyrir skömmu síðan að ég og kannske við báðir gætum auðvitað breytt okkar afstöðu ef við sannfærðumst um að embættismannanefnd væri skynsamlegur og æskilegur kostur. Um það er einmitt sjálfsagt að ræða algjörlega öfgalaust.

Ég vil skjóta því hér inn í að þegar verið er að ræða um utanríkismál kann ég ekki við orðalag eins og hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir hafði um hæstv. utanrrh., að hann væri að „læðupokast af hugleysi sínu“. Hvaða tilgangi þjóna svona ummæli hér á hinu háa Alþingi þegar við erum að ræða um mikilvægustu mál mannkyns og sjálfstæðis- og öryggismál okkar eigin þjóðar? Ég skil það ekki. Mér er alveg lífsins ómögulegt að skilja hvaða tilgangi það getur þjónað.

Hv. þm. Kjartan Jóhannsson flutti hér mjög athyglisverða ræðu og lagði á það mjög mikla áherslu að einhliða yfirlýsingar um kjarnorkuvopnalaus Norðurlönd kæmu alls ekki til greina. Slíkar yfirlýsingar væru til hins verra og um það er ég honum sammála. Það yrði að vera um miklu víðtækari yfirlýsingar að ræða sem bæði tækju yfir miklu stærra svæði og eins að það væri um tryggingar að ræða af hálfu stórveldanna, samningsgerð o.s.frv., eins og hæstv. utanrrh. hefur svo rækilega rakið hér í ágætri framsögu sinni.

En hitt er annað mál að það er mikið rætt um norrænt samstarf og ágæti þess og ekki skal ég lasta það. Ég hef kannske ekki verið neinn sérstakur baráttumaður fyrir því. Stundum hér áður fyrrum þótti manni lítið koma út úr þessum fundum. En ef það hefur verið mikilvægt þá, þá er það lífsnauðsyn nú, einmitt í þessum málum sem hér eru til umfjöllunar. Ég held að við megum og verðum að teygja okkur langt í umræðum, t.d. á utanríkisráðherrafundinum 25. mars, til þess að þar náist eining. Það held ég að væri það versta sem fyrir okkur Íslendinga gæti komið að við yrðum einangraðir hér úti í Norður-Atlantshafi og kannske væri svo og svo mikið af ógnarvopnunum einmitt flutt á sjó út eins og hér hefur einnig verið um rætt.

Ég held að Norðurlöndin verði að vera samstiga í þessum mikilvægustu málum. Hvort sem það er gert með því að næsta skrefið sé embættismannanefnd eða með einhverjum öðrum hætti, þá held ég að við eigum að haga öllum okkar málflutningi þannig, bæði auðvitað í utanríkismálanefndinni og af hálfu ráðherra, að við einangrumst ekki í þessum málum. Mér segir svo hugur um að frændþjóðir okkar skilji það og vilji ekki að við einangrumst. Fyrir nokkrum árum voru þessar umræður án þess að Íslendingar hefðu nokkra hlutdeild í þeim. Það hefur breyst. Við erum orðnir þátttakendur í þessum umræðum og höldum því að sjálfsögðu áfram. Annað kemur ekki til greina að mínu mati.

Það er eitt mál sem mig langar að víkja hér aðeins að úr því að tækifæri gefst, en það er það samkomulag sem gert var í Kaupmannahöfn nú fyrir nokkrum dögum út af Rockall-svæði. Það fólst í því að ákveðið var að hrinda í framkvæmd vísindalegri rannsóknaáætlun, það var sameiginlega af þjóðunum ákveðið að hrinda slíkri rannsóknaáætlun í framkvæmd á þeim svæðum sem danska og íslenska ríkisstjórnin gera tilkall til á Rockall-svæðinu. Þessi áætlun er unnin af vísindamönnum af beggja hálfu. Á þessum tveggja daga fundum var farið mjög rækilega ofan í þá áætlun, en það var kannske ekki mikilvægast, heldur hitt að það var algjör samstaða um sameiginlega afstöðu Færeyinga og Dana annars vegar og Íslendinga hins vegar í réttindakröfum okkar, en fram til þessa hefur, eins og menn rekur kannske minni til, verið nokkur ágreiningur um réttindin. En við höfum nú snúið bökum saman, enda er það alveg ljóst að væru Færeyjar og Ísland eitt ríki, þá ætti það ríki allt þetta gífurlega hafsbotnssvæði og hið sama ætti að gilda ef ríkin gera sameiginlega hagsmunakröfu.

Við vorum einnig sammála um það að senda Bretum og Írum samhljóða tilkynningar um þessar fyrirætlanir og bjóða þeim þátttöku í rannsóknastörfunum, en ekki að bíða neitt eftir því lengi að fá svör. Áætlunin yrði framkvæmd og kostuð af þessum tveim aðilum, Íslendingum annars vegar og Dönum hins vegar, en ef Bretar og Írar vildu taka þátt í þessum athugunum þá væri það auðvitað vel þegið. Málið er auðvitað það að skv. 83. gr. hafréttarsáttmálans ber þjóðum, þar sem ágreiningur er um afmörkun hafsbotnssvæða, að ræða málin og leitast við að ná samkomulagi. Ef samkomulag næst ekki, þá að fara dómstólaleið með einhverjum hætti, gerðardóm eða alþjóðadóm. Bretar og Írar geta þess vegna ekki með nokkru móti lengur skotið sér undan því að mæta við borð með okkur og Dönum og Færeyingum. Það hljóta þeir að verða að gera. Þeir geta auðvitað haldið fram sínum sjónarmiðum og rökum, en ég vil geta þess hér að t.d. prófessor við háskólann í Bristol, Simmon, hefur nýlega ritað mjög athyglisverða grein þar sem hann kemst að sömu niðurstöðu og við höfum alltaf haldið fram, allt frá árinu 1978 þegar fyrsta tillagan var hér samþykkt á Alþingi, að ríkjunum bæri að setjast niður. Það hlytu að verða fjögurra ríkja viðræður og málin ættu að leysast með þeim hætti, þannig að ég held að við séum að ná tilætluðum árangri í þessu mikla máli.

Menn gera sér kannske ekki grein fyrir því, eða hafa ekki gert fram undir þetta, að hafsbotninum fylgja allar lífverur sem ekki hreyfast öðruvísi en með snertingu við hann, þ.e. öll skeldýr og krabbadýr og þróunin verður vafalaust sú, það hygg ég a.m.k., að sá sem eignast hafsbotninn muni líka eignast hafið yfir honum.

Þegar Truman Bandaríkjaforseti gerði tilkall til 200 mílna hafsbotnsréttinda árið 1945 varð strax ljóst hver þróunin mundi verða. New York Times skrifaði einhverju sinni ritstjórnargrein um það að augljóst væri að þegar tímar liðu mundi sá eignast hafið yfir hafsbotninum sem botninn ætti. Það liðu að vísu tveir til þrír áratugir þangað til það varð raunveruleiki, en þó var sá tími miklu styttri en menn höfðu ætlað. Það er rétt að hafa það hugfast að 3/4 þjóða heims, eða eitthvað um það bil, eru strandþjóðir, strandríki. Og það eru strandríkin sem hafa markað allan hafréttinn. Allur hafrétturinn hefur orðið réttur „de facto“ löngu áður en hann var réttur „de jure“ - eða var réttur í raun löngu áður en það voru skrásett lög, og m.a.s. eru nú víst ekki nægilega margir búnir að fullgilda hafréttarsáttmálann enn þann dag í dag, en engu að síður höfum við unnið alla okkar sigra í hálfan annan áratug á grundvelli þess samnings.

Þegar menn líta svo á landabréfið og skoða hin nyrstu höf, þá er þetta ekki lítið áhugamál, og ætti að vera allra þessara þjóða, að tengjast nánar saman og hafa samvinnu um ræktun og nýtingu þessara gífurlegu hafsvæða. Efnahagslögsagan, hin sameiginlega efnahagslögsaga Íslendinga og Norðmanna umhverfis Jan Mayen, nær langt austur og norður í höf. - Ég sagði vísvitandi hin sameiginlega efnahagslögsaga. Við höfum samningsbundinn rétt um sameiginlega nýtingu þessa gífurlega hafsvæðis, ekki bara að því er loðnu varðar heldur alla aðra hagnýtingu lífveranna og þess vegna er þetta a.m.k. sameiginlegur afnotaréttur, hagnýtingarréttur og þar með vil ég telja að það sé sameiginlegur eignarréttur þó svo að formið sé norsk efnahagslögsaga. En frá þessari efnahagslögsögu og yfir til norsku efnahagslögsögunnar er örlítið sund á þessu mikla hafi, þegar miðað er við allt þetta gífurlega úthaf, sem enginn hefur enn þá gert tilkall til. En það er e.t.v. á fernan hátt hægt að gera tilkall til hafsbotnssvæðisins eftir núgildandi lögum, eftir 76. gr. hafréttarsáttmálans, til þessa hafsbotnssvæðis. Bæði er hægt að gera það að einhverju leyti frá Noregi, frá sameiginlegu efnahagslögsögunni umhverfis Jan Mayen, og eins frá Íslandsströndum og Færeyjaströndum. Þetta er mál sem ekki hefur verið rannsakað nægilega vel og enginn hefur gert tilkall til svæðisins. En lokaðist þetta svæði með þessum hætti og yrði samkomulag um Rockall-svæðið, þá yrði hvorki meira né minna um að ræða en að hægt er að loka þessum nyrstu höfum, allt frá Skotlands- og Noregsströndum til Kanada, og samnýta og samrækta, því að auðvitað verður ræktun sjávarins alveg nákvæmlega jafnmikilvæg og miklu mikilvægari kannske heldur en ræktun landsins. Það er framtíðarsýn sem er ekkert fjarri. Auðvitað eiga þessar þjóðir að starfa enn þá nánar saman og það er líka þá önnur hliðin á Norðurlandasamstarfi að þessir draumar rætist nægilega fljótlega.

Hin miklu mál verða eins og ég sagði til umræðu í hv. utanrmn. og ég vil ekki fara að kýta um þau hér á þessu stigi a.m.k., og finnst líka óþarfi að menn séu mikið að æsa sig upp eins og að fara aftur í 1951 og tala þar um mútufé og Marshall-fé o.s.frv. eins og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson gerði. Ég held að Marshall-áætlunin hafi verið mikilvæg - a.m.k. af Bandaríkja hálfu var hún gífurlega merkilegt framlag til þess að hjálpa hinum hrjáðu þjóðum þar sem allt lá í rúst eftir styrjöldina. Það vorum ekki við Íslendingar einir sem fengum aðstoð þarna frá. Ég hugsa að þetta sé nærri einsdæmi í veraldarsögunni að ein þjóð, þótt rík væri, sendi svo gífurlega fjármuni til þess að byggja upp hjá fyrrv. andstæðingum, sem þeir höfðu nokkrum árum áður verið í blóðugri styrjöld við, svo að það var nú ekki um neitt mútufé að ræða.

Hæstv. viðskrh. greip hér fram í fyrir ræðumanni og spurði hvort kommarnir hefðu látið múta sér. Þeir gerðu það nú ekki þá, en örfáum árum seinna þá voru þeir nú í ríkisstjórn og árið 1956 held ég að það hafi nú verið sem 30 silfurpeningarnir komu í dagsljósið. Það voru peningar sem sú ríkisstjórn fékk frá öryggissjóði Bandaríkjanna til þess að tryggja sérstaklega öryggi sitt og forseti einn mátti ráðstafa. Það er líklega einhvers konar Íranssjóður eða eitthvað slíkt. Og þeir sátu tvö ár í ríkisstjórn eftir það, kommarnir. Létu þeir þá múta sér, mætti spyrja? Og svarið er auðvitað augljóst. Það er já. Þeir gerðu það.

Það er liðið á kvöld og ég er ekki að eyða hér lengri tíma nema tilefni gefist til. Ég vona að okkur miði áfram á mánudaginn og hér í næstu viku getum við náð einhvers konar samkomulagi um lausn í þessum mikilvægustu málum.