29.10.1986
Neðri deild: 7. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 404 í B-deild Alþingistíðinda. (367)

92. mál, Landhelgisgæsla Íslands

Landbúnaðarráðherra (Jón Helgason):

Herra forseti. Ég fylgi hér úr hlaði frv. til l. um breytingu á lögum um Landhelgisgæslu Íslands á þskj. 93 og varðar það ákvæði laganna er fjallar um skiptingu björgunarlauna er falla í hlut Landhelgisgæslunnar þegar skip eða flugvél stofnunarinnar á aðild að björgun.

Hjálpar- og björgunarstörf eru veigamikill þáttur í starfsemi Landhelgisgæslunnar og í lögum þeim sem um stofnunina gilda er talið meðal verkefna annars vegar að veita hjálp við björgun manna úr sjávarháska eða á landi og að annast aðkallandi sjúkraflutninga. Hins vegar að aðstoða eða bjarga bátum eða skipum sem kunna að vera strönduð eða eiga í erfiðleikum á sjó.

Á 60 ára starfstíma Landhelgisgæslunnar hafa skip og loftför gæslunnar ótal sinnum veitt hjálp við björgun manna og skipa úr sjávarháska. Er þá oft starfað við hin erfiðustu skilyrði og tæki og starfsmenn lögð í hættu. Eiga starfsmenn lof og heiður skilin fyrir þeirra þátt.

Að því leyti sem um björgun skipa og loftfara er að ræða eru í siglinga- og loftferðalögum ákvæði um hvenær skuli greiða björgunarlaun og hvernig þau skuli ákveða. Gilda þau ákvæði jafnt um tæki Landhelgisgæslunnar sem annarra. Er ekki ástæða til að rekja það hér. Hins vegar gilda sérákvæði um skiptingu þessara björgunarlauna þegar Landhelgisgæslan stendur að björgun. Samkvæmt lögum um Landhelgisgæsluna fellur 1/4 hluti nú til áhafnar en 3/4 til útgerðar. Þegar önnur skip standa að björgun er hlutur áhafnar 2/5 og útgerðar 3/5 og var hlutur áhafnar aukinn úr 1/3 þegar siglingalögum var breytt á síðasta ári. Við endurskoðun siglingalaga mun hafa verið talið að breyta ætti ákvæðum að því er varðar Landhelgisgæsluna til samræmis við aðrar útgerðir, er nefnd er endurskoðaði ákvæði siglingalaganna um björgun skv. þál. 1981 skilaði sínum tillögum, en tillögur þar að lútandi komust ekki til ráðuneytisins. Fjallar frv. þetta um þá samræmingu og má að öðru leyti vísa til athugasemda með frv. Rétt er að taka fram að sérstakar reglur gilda um björgun skipa sem tryggð eru hjá Samábyrgð Íslands á fiskiskipum og bótaábyrgðarfélögum.

Á undanförnum árum hefur verið í undirbúningi að gera sameiginlega gjaldskrá um þóknun til varðskipa og fiskiskipa fyrir björgun fiskiskipa 100 rúmlesta og stærri miðað við að ekki sé um yfirstandandi hættu að ræða. Hafa viðkomandi aðilar nýlega undirritað samkomulag um slíka gjaldskrá sem gildir til reynslu í eitt ár. Að þessu samkomulagi standa annars vegar Samsteypa íslenskra fiskiskipatrygginga og hins vegar Landhelgisgæslan og Landssamband íslenskra útvegsmanna svo og Farmanna- og fiskimannasamband Íslands og Sjómannasamband Íslands.

Í umræðum um þessa gjaldskrá þótti rétt að miða við að hlutur áhafnar í björgunarlaunum yrði sá sami hver sem að björgun stæði. Þótti því rétt að ákvæðum í lögum um Landhelgisgæsluna yrði breytt til samræmis við ákvæði siglingalaganna að þessu leyti. Er frv. þetta flutt til að koma á slíkri samræmingu. Rétt er þó að taka fram að ekki er gert ráð fyrir breytingu á innbyrðis skiptingu björgunarlauna milli áhafnar varðskips eða loftfars, en þar skiptast björgunarlaunin í réttu hlutfalli við föst mánaðarlaun en almenna regla siglingalaganna miðar við þriðjung af hluta áhafnar til skipstjóra.

Herra forseti. Ég tel eigi þörf að skýra efni þessa frv. nánar og legg til að að lokinni þessari umræðu verði því vísað til 2. umr. og allshn.