11.03.1987
Sameinað þing: 62. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4013 í B-deild Alþingistíðinda. (3670)

396. mál, utanríkismál

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Herra forseti. Hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir hefur rætt um meginefni þessarar skýrslu hæstv. utanrrh. um utanríkismál og ég kem hér til að ræða sérstaklega um málefni þróunarsamvinnu. Um þróunarsamvinnu er einn lítinn kafla að finna í þessari skýrslu og er hann svo knappur að hann nær ekki yfir nema eina síðu. Má með sanni segja að lengd kaflans sé nokkuð í samræmi við þau fjárframlög sem við höfum á undanförnum árum lagt til þessa mikilvæga málaflokks.

Eins og alla hv. þm. rekur vafalítið minni til var samþykkt hér á Alþingi í maí 1985 ályktun um að auka reglubundið framlög hins opinbera til þróunarsamvinnu þannig að því marki yrði náð að veita 0,7% af þjóðarframleiðslu til þróunaraðstoðar á næstu sjö árum. Það hvarflar stundum að mér að þeir sem þar halda um stjórnartaumana á hæstv. Alþingi taki ekki eftir því hvað þeir eru að samþykkja því að þessi ályktun hefur verið margbrotin og þverbrotin síðan hún hlaut hér einróma samþykki.

Í upphafi þessa kafla um þróunarsamvinnu kemur fram að framlag af ríkisfé til þessara mála var á árinu 1986 um 0,058% af vergri þjóðarframleiðslu. Á fjárlögum yfirstandandi árs er gert ráð fyrir að framlögin verði 0,054% og síðan kemur ansi árans skondin setning. Hér segir: „Íslendinga vantar því jafnmikið og áður á að ná því marki sem velmegunarríki Sameinuðu þjóðanna hafa sett sér“ o.s.frv. Ég get ekki séð að 0,058% sé jafnmikið og 0,054%. Það vantar ekki jafnmikið, það vantar meira en áður upp á það að við náum því marki að verja 0,7% af þjóðarframleiðslu okkar til þróunarsamvinnu.

Við erum fjarri því að ná þessu marki og er skemmst frá því að segja að frá því að ályktun Alþingis var samþykkt á vordögum 1985 hafa framlögin til þessara mála markvisst farið hríðlækkandi. Á árinu 1985 lögðum við 0,087% af þjóðarframleiðslu til þessara hluta, á árinu 1986 lækkaði framlagið niður í 0,063% og eins og kom fram áðan erum við rétt um 0,05% á þessu ári. Ályktun Alþingis er sem sagt þverbrotin og það undrar mig a.m.k. ekki þótt almenningur hér á landi beri ekki virðingu fyrir störfum og ályktunum Alþingis á meðan Alþingi sjálft gerir það ekki.

Síðan segir hér í þessum kafla: „Áhugi er fyrir því að vaxandi framlög renni í ríkari mæli til tvíhliða verkefna.“ Þetta er heldur undarlega sagt þar sem það er yfirlýstur vilji Alþingis að framlögin renni í ríkari mæli til tvíhliða verkefna. Það var skýrt tekið fram í þeirri grg. sem með þál. fylgdi á sínum tíma að áherslu bæri að leggja einkum og sér í lagi á tvíhliða verkefni. Vandinn með tvíhliða verkefni er sá að til þess að hægt sé að framkvæma þau þannig að eitthvert lag sé á þurfa upplýsingar um fjárveitingar að liggja fyrir með einhverjum fyrirvara og framkvæmdaraðilinn, sem í þessu tilviki er Þróunarsamvinnustofnun Íslands, þarf að vita hversu mikið fé hún fær á fjárlögum ár hvert með góðum fyrirvara. Einnig þarf hún að geta treyst á ríflegar fjárveitingar til þessara mála ef hún á með nokkru móti að geta framkvæmt þann vilja Alþingis að leggja áherslu á tvíhliða þróunarverkefni. En hver er reyndin? Alþingi hefur frá ári til árs skorið Þróunarsamvinnustofnun Íslands stakkinn ákaflega þröngt. Þróunarsamvinnustofnunin hefur ekki vitað hvaða fé hún hefur yfir að ráða fyrr en í lok hvers árs þá er fjárlög eru samþykkt og það fé sem henni er nú skammtað er svo naumt að við liggur að verið sé að leggja stofnunina niður með þeim fjárframlögum sem henni eru ætluð á fjárlögum þessa árs.

Í sameinuðu þingi þann 25. nóvember s.l. spurði ég hæstv. utanrrh. í fyrirspurnatíma um málefni Þróunarsamvinnustofnunar Íslands. Í svari ráðherra þá kom fram að hann hefði mikinn hug á því að auka framlög til þessara mála. Fjárlög voru þá nokkuð á veg komin og eins og fram kemur hér í skýrslunni hefur enginn mælt á móti því í þeim umræðum sem fram hafa farið á Alþingi um það að auka beri verulega framlög ríkisins til þróunarsamvinnu.

Nú vil ég spyrja hæstv. utanrrh. fyrst hann lýsti yfir vilja sínum á Alþingi þann 25. nóvember í þessu efni og tekur það fram í sinni skýrslu að enginn mæli á móti því að það þurfi að auka fé til þessara mála: Hvers vegna hefur fé þá ekki verið aukið til þróunarsamvinnu? Fyrst það er vilji ráðherra samkvæmt því sem hann sagði hér í Sþ. í nóvember og fyrst allir eru sammála honum, hvernig stendur þá á því að fé hefur ekki verið aukið til þessara mála? Hvernig stendur á því að Þróunarsamvinnustofnun Íslands eru skammtaðar 30 millj. kr. á fjárlögum þessa árs á meðan fram kemur í gögnum frá stofnuninni að ef vel á að vera þurfi hún 229 840 000 kr. til að sinna verkefnum sínum? Hvernig má á þessu standa, hæstv. utanrrh.?

Hvað varðar fjárlagagerðina nú á lokadögum síðasta árs finnst mér það einnig harla kúnstugt, ef vilji hæstv. ráðh. er jafnmikill á borði og hann er í orði í þessum málum, að hæstv. ráðh. virðist ekki hafa lagt mjög að fjvn. Alþingis að hækka framlög til Þróunarsamvinnustofnunar Íslands. Þann 13. nóv. á s.l. ári skrifaði hann fjvn. bréf og fór þess á leit við nefndina að hún tæki málefni Þróunarsamvinnustofnunar til endurskoðunar en síðan mun hann ekkert samband hafa haft við fjvn. fyrr en þá er kom að 3. umr. fjárlaga.

Og nú vil ég spyrja hæstv. utanrrh. að því hvort hann telji að hér sé nógu fast um mal haldið og hvort ekki hefði verið viturlegra að knýja fastar á dyr fjvn. í þessum málum en augljóst er að ráðherra hefur gert.

Niðurstaðan varð sú að Þróunarsamvinnustofnun hlaut 30 millj. kr. á síðustu fjárlögum. Eins og ég sagði þarf hún nærfellt 1000% meira til að standa straum af þeim verkefnum sem hún hefur á sinni könnu. Þessi verkefni eru sundurliðuð í erindi til stjórnar Þróunarsamvinnustofnunar frá framkvæmdastjóra hennar, en slík sundurliðun mun aldrei hafa komið inn á borð fjvn. Það er auðvitað viðbúið að þegar fjvn. veit ekki í hvað peningarnir eiga að fara sýni hún málinu e.t.v. ekki þann sama skilning og ella hefði verið. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. ráðh.: Hvers vegna var fjvn. ekki gerð gleggri grein en raun ber vitni fyrir því í hvað þeir fjármunir áttu að fara sem Þróunarsamvinnustofnunin fór fram á?

Það er alveg augljóst að stofnunin getur engan veginn starfað með þeim 30 millj. kr. sem henni eru ætlaðar og eins og segir réttilega í skýrslu ráðherra, með leyfi forseta:

„Það sem veldur mestum erfiðleikum þegar slíkar athuganir eiga sér stað“ - hér er verið að tala um þróunarsamstarf sem Íslendingar gerðust aðili að og kennt er við Harare, höfuðborg Zimbabwe - „er að hafa enga hugmynd um hvaða fjármunum er úr að spila.“ Það er einmitt mergurinn málsins. Vandinn er að hafa enga hugmynd um slíkt og síðan að hafa þar að auki ekki nokkra einustu fjármuni til þess.

Síðan er hér smákafli í skýrslu hæstv. utanrrh. um verkefnið á Grænhöfðaeyjum sem hefur fram til þessa verið meginverkefni Þróunarsamvinnustofnunar á sviði tvíhliða aðstoðar. Það kemur fram í þessari sundurliðun, sem ég gat um áðan, að verkefnið á Grænhöfðaeyjum eitt og sér kostar á næsta ári 49 900 000 kr., nærfellt 50 milljónir. Hvernig á að standa við það verkefni með 30 milljónum? Og þegar stofnunin þarf þar að auki að sinna öðrum verkefnum með þessum 30 milljónum? Það er ekki nokkur einasta leið. Nú vil ég spyrja hæstv. utanrrh. að því hvernig hann hyggist standa við verkefnið á Grænhöfðaeyjum. Hvernig ætlar hann sér að framkvæma þá aðstoð sem við höfum skuldbundið okkur til að veita þar? Hvernig ætlar hann að framkvæma aðstoð upp á 50 milljónir með innan við 30 milljónir til þessara hluta? Hæstv. utanrrh. verður að vera mikill kraftaverkamaður ef honum á að takast það. Og ég bíð spennt eftir að heyra hvernig það á ganga fyrir sig.

Ég vil einnig nefna það sérstaklega og taka undir það sem fram kemur í skýrslunni að áhersla verði lögð á stuðning við smábátaútgerð heimamanna á Grænhöfðaeyjum. Þetta er áhersluatriði af hálfu Grænhöfðaeyjamanna sjálfra og eftir því sem best verður séð af skýrslunni hafa Íslendingar fallist á það. Ég vil taka það hér fram að þar tel ég vera vel borið niður því að það er einmitt á sviði smábátaútgerðar sem aðstoðar er þörf og þessi útgerð skiptir afskaplega miklu máli fyrir daglega afkomu manna á eyjunum. Ég vil því láta í ljós að ég er mjög sammála þessu atriði.

Hitt er aftur annað mál að hæstv. utanrrh. lét þess getið þegar hann svaraði fsp. minni í Sþ. 25. nóv. s.l. að nú stæði til að undirbúa betur þau verkefni sem Þróunarsamvinnustofnun legði út í á sviði tvíhliða aðstoðar, m.a. með forkönnunum á menningu. Og samfélagsháttum á þeim stöðum þar sem verkefnin eiga að vera og það á vitaskuld jafnframt við um Grænhöfðaeyjaverkefnið því að samkvæmt því sem hér segir og áður hefur komið fram stendur til að færa þar út kvíarnar yfir á önnur svið og það þarf þá vitaskuld að gera ýmsar athuganir áður. Ég hef ekki orðið vör við að slíkar athuganir séu á döfinni hjá Þróunarsamvinnustofnun. Ég vil spyrja hæstv. utanrrh. hvort það standi til að standa við þetta stefnumið ráðherrans eða hvort þetta voru orð og orð ein.

Ég get ekki nógsamlega ítrekað mikilvægi þessa vegna þess að staðreyndin er sú að við höfum lagt út í meiri háttar þróunarverkefni án þess að vinna nægilega vel að undirbúningi og forvinnu. Við höfum aðallega flutt út tækniþekkingu og íslenskt brjóstvit og við höfum haft heppnina með okkur. Þetta hefur lukkast vegna þess að við höfum verið heppin, ekki vegna þess að við höfum undirbúið okkur vel eða vandað okkur vel. Hversu hliðholl sem heppnin kann að vera okkur í framtíðinni held ég að það sé óvarlegt að treysta á hana. Staðreyndin er einnig sú að í raun er engin stefna til, hvorki í þessari skýrslu né hjá Þróunarsamvinnustofnun, um það hvernig haga skuli þróunaraðstoð Íslendinga. Hér er engin fastmótuð stefna um slíkt, enda má ef til vill segja að stofnuninni sé óhægt um vik í því efni þar sem hún hefur nánast engum fjármunum úr að spila. En það er auðvitað ein grundvallarforsenda vel heppnaðrar þróunaraðstoðar að hún fylgi mótaðri stefnu og sé ekki bara fálm út í loftið, hipsum hapsum hingað og þangað. Þetta vil ég taka sérstaklega fram.

Hvað varðar framlög okkar til þróunarsamvinnu og þróunaraðstoðar yfirleitt eru þau vitaskuld til skammar fyrir sjöttu ríkustu þjóð í heimi. Það er til skammar að við skulum ekki veita meiru af þeim allsnægtum sem við höfum til þessara hluta á meðan við vitum, og komumst ekki hjá að vita á þeirri upplýsingaöld sem við lifum nú á, hvernig ástandið er í stórum hluta heimsins. Við vitum að verkefnin eru óþrjótandi og þau eru tímafrek og fjárfrek en þau miða að því og eiga að miða að því að hjálpa fólki til sjálfshjálpar því aðeins þannig getum við vonast til þess að lifa í heimi sem er réttlátari en sá sem við lifum í núna. Til þess að nefna nokkrar staðreyndir þessara mála vil ég taka fram að nú eru í heiminum tvær milljónir manna sem ekki eiga kost á hreinu drykkjarvatni og við vitum að sýkingar af völdum mengaðs drykkjarvatns eru tíðasta dánarorsök ungbarna. Menn vita ekki hversu margar milljónir ungbarna deyja vegna þessa á hverju ári en við vitum að þau skipta milljónum. Við vitum líka að það eru 900 milljónir manna í heiminum ólæsar í dag. Við vitum að það eru 600 milljónir manna atvinnulausar og aðrar 600 milljónir manna sem eru vannærðar eða líða hungur.

Við erum hér að fjalla um skýrslu um utanríkismál og hér er fjallað um afvopnun og vígbúnað. Því er rétt að geta þess að það er jafnvirði þriggja vikna hernaðarútgjalda að útvega öllum jarðarbúum heilnæmt drykkjarvatn. Með því að eyða þeim fjármunum sem ríki heimsins eyða á þremur vikum til hernaðarútgjalda gætum við komið í veg fyrir dauða þessara milljóna barna sem við vitum ekki einu sinni hversu mörg eru. Ef allur heimurinn er hafður í huga er 450 dollurum að jafnaði varið til menntunar hvers barns. Kostnaðurinn við hvern hermann er aftur á móti 25 000 dollarar. Þetta eru ógnvekjandi staðreyndir. Með veru okkar í Atlantshafsbandalaginu erum við auðvitað aðili að þessum hernaðarútgjöldum, þó að þau kosti okkur vitaskuld ekki neitt. Og það kastar tólfunum þegar við stöndum okkur með þeim hætti hér heima hjá okkur að veita aðeins brotabrotabroti af því sem höfum yfir að ráða til þessara mála.

Ég skora á ríkisstjórn Íslands og þá einkum og sér í lagi hæstv. utanrrh., sem hlýtur að vera í fararbroddi í þessum málum, að láta nú til skarar skríða og hreinsa þessa vansæmd af íslenskri þjóð, þá vansæmd að veita ekki meiru en nokkrum milljónum til þessara hluta. Ég skora á hæstv. ráðh. að taka til hendinni í þessum málum og verð að trúa því og treysta að orð hans séu ekki orðin tóm, þau orð sem hann hefur viðhaft hér á þessu þingi, bæði í þeim fyrirspurnatíma sem ég gat um áðan og eins í umræðum um fjárlög, og að eitthvað gangi eftir. Gjörðirnar hingað til vísa á allt annað og það er til vansæmdar bæði fyrir þing og þjóð að áfram sé staðið að þessum málum svo sem greint er frá í þessari skýrslu um utanríkismál.