11.03.1987
Sameinað þing: 62. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4028 í B-deild Alþingistíðinda. (3673)

396. mál, utanríkismál

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Mig langaði að gera hér nokkur atriði að umræðuefni. Fyrst langar mig aðeins til að tala um kjarnorkuvopnalaus Norðurlönd sem hafa mikið verið rædd hér í kvöld.

Eins og tekið hefur verið fram hér var hugmyndin með kjarnorkuvopnalausum Norðurlöndum sú að þannig væri hægt að slaka á spennu þannig að kjarnorkuvopnalaus Norðurlönd yrðu orsök þess að friðvænlegar horfði í heiminum, spenna slaknaði á milli stórveldanna og menn gætu farið að tala saman eins og menn. Nú sýnist mér hins vegar horfa þannig að ef af þessari hugmynd verður þá verði hún kannske frekar afleiðing þess að friðvænlegar horfi, afleiðing þess að hindrunum sé rutt úr vegi þannig að hún, eins og ég ætla að leitast við að skýra hérna á eftir, ef af henni verður, þá verði allt öðruvísi til hennar stofnað heldur en hugmyndin var í upphafi.

Þótt Norðurlandaþjóðir ræki frændsemi sína vel í alþjóðlegu samstarfi og hafi mikil og góð samskipti og hafi haft það bæði að fornu og nýju og eigi sameiginlegan arf, bæði í fólki og menningu, þá haga þau utanríkis-, varnar- og öryggismálum sínum á afar ólíkan hátt. Í Finnlandi er hlutleysisstefna og þar hefur legu landsins vegna verið sérstakt samband við Sovétríkin eftir vináttusamningi. Þar hefur verið lögð áhersla á sjálfstæða utanríkisstefnu við hlið þessa mikla stórveldis. Svíþjóð hefur rekið mjög virka hlutleysisstefnu, hefur ekki neitt sérstakt samband við stórveldin, er reyndar tortryggin gagnvart báðum og leggur mikla áherslu á sjálfstæði og öflugar varnir. Noregur og Danmörk eru hins vegar allt öðruvísi sett. Þar eru bæði ríkin í NATO, þó með ákveðnum takmörkunum um staðsetningu erlendra herja og kjarnorkuvopna, og þessi ríki reka eigin heri og eigin varnir. Af þessum tveimur er Noregur reyndar með nokkuð sérstaka varnarhagsmuni á norðurslóðum þar sem landið á sameiginleg landamæri við Sovétríkin og er næsti nágranni við Kólaskagann og liggur að Noregshafi þar sem allar horfur eru á að verði eitthvert líflegasta eða virkasta hafsvæði varðandi umferð hertækja á næstu misserum. Að síðustu er Ísland sem hefur engar varnir sjálft en er í NATO og hefur varnarsamning við Bandaríkin.

Þannig er ljóst af þessari upptalningu að aðstaða Norðurlandanna er afar misjöfn. Tengsl Norðurlandanna við hin ýmsu stórveldi eru mjög ólík, allt frá hinum sterku tengslum Finnlands við Sovétríkin og til varnartengslanna sem Ísland hefur við Bandaríkin. Við höfum tvær þjóðir, Dani og Norðmenn, í NATO með eigin heri, síðan höfum við Svía sem reka öfluga hlutleysispólitík og hafa sterka varnarpólitík á eigin fótum. Þannig tel ég að þessi mikli mismunur sem er á afstöðu og aðstöðu Norðurlandaþjóðanna fimm í alþjóða varnar- og öryggismálum sé verulegur fjötur um fót þeirri hugmynd að þau geti sameinast sem kjarnorkuvopnalaust svæði.

Ef við lítum síðan nánar á ýmislegt sem ég tel að sé að gerast hjá þessum þjóðum innanlands samkvæmt blaðafregnum þá hefur í Finnlandi og Svíþjóð gætt nokkurs ótta við það að samkomulag af þessu tagi mundi veikja stöðu þessara þjóða á alþjóðavettvangi því að þá nytu þau ekki eins sterkt þeirrar sérstöðu sem hlutleysisstefnan hefur tryggt þeim á meðal þjóða heimsins. Þeirra sjónarmiða hefur einnig orðið vart í þessum löndum að samkomulag um kjarnorkuvopnalaus svæði mundi á vissan hátt veikja stöðu þeirra í Norðurlandapólitíkinni af sömu ástæðu, þ.e. að sérstaða þeirra minnkaði undir einhvers konar sameiginlegu eftirlitskerfi um sameiginlegt kjarnorkuvopnalaust svæði.

Í Svíþjóð virðast verulegir bakþankar vera fyrir hendi um kjarnorkuvopnalaus svæði. Svíar beita sér ekki lengur fyrir tillögunni á þann hátt sem þeir gerðu. Þar eru uppi bakþankar eins og t.d. þeir að eftirlit með kjarnorkuvopnaleysinu mundi hleypa eftirlitsmönnum stórveldanna inn á gafl og ógna hlutleysisstefnu Svía. Svíar hafa líka á seinni misserum talið að þeim stafi í raun meiri hætta af SS-20 flaugum við Úralfjöll heldur en skammdrægari flaugum á Kólaskaga, við Leningrad eða í Eystrasaltslöndum, en kröfur hafa verið uppi um brottflutning þeirra í sambandi við þessar hugmyndir um kjarnorkuvopnalaus Norðurlönd. Einnig hefur meintur hroki Rússa við kvörtunum Svía vegna dvergkafbátaumferðar Rússa inni í skerjagarði haft þó nokkur áhrif. Þess hefur gætt í pólitík þar að menn efast um styrk hlutleysisstefnunnar, efast um að hún dugi Svíum þegar í harðbakkann slær.

Norðmenn eru einnig með ákaflega sérstaka hagsmuni. Þeir verja núna mjög miklu fé til eigin hervarna. Fjárveiting þeirra til hervarna fyrir þetta ár er 3% hærri en á s.l. ári, það er einhver mesti vöxtur á fjárveitingum til hervarna innan NATO. Þetta er einkum og sér í lagi vegna þess að Norðmenn hafa vaxandi áhyggjur af varnarstöðunni í Norður-Noregi þar sem þeir, eins og ég sagði áðan, eru næstu nágrannar við einhverja öflugustu herstöð í heimi sem er Kólaskagi. Norðmenn hafa sótt það nokkuð hart innan NATO að styrkja þessar norðurvarnir sínar eða norðurvænginn. Umsvif sovéska flotans út frá höfnunum á Kólaskaga fara mjög vaxandi þannig að bæði stöðvarnar á Kólaskaga og umferð sovéskra herskipa á Noregshafi hefur valdið Norðmönnum verulegum áhyggjum. Varnir Norðmanna þarna fyrir norðan byggjast á um 6000 manna sveit sem þar er staðsett og síðan möguleikum á umtalsverðum aðflutningi hermanna, bæði frá Suður-Noregi og öðrum NATO-ríkjum, t.d. Kanada, ef til átaka kemur.

Þetta varnarfyrirkomulag verður allt saman miklu veiklulegra í ljósi aukinna umsvifa sovéska flotans sem virðist hafa orðið getu til þess að ráðast inn á þessi svæði í Norður-Noregi og hindra aðflutning til þeirra. Þarna eru Norðmenn, að því að talið er, í talsverðum vanda. Þörf er aukinna fjárveitinga til þess að styrkja þennan norðurvæng varnanna. Sjálfir eiga þeir hins vegar við vaxandi efnahagsörðugleika að stríða vegna þess að olíuævintýrið er að bregðast þeim. Þannig standa Norðmenn frammi fyrir því að þeir eru í raun að reyna að sækja innan NATO á auknar hervarnir á norðursvæðinu og þess vegna mjög ólíklegt að þeir muni beita sér fyrir hugmyndinni um kjarnorkuvopnalaust svæði sem er óvinsæl innan NATO og brýtur á ýmsan hátt í bága við fælingarstefnu þess.

Ef ég lít á þessi tvö meginsjónarmið, sem ég hérna hef talað um, í fyrsta lagi hina gífurlega ólíku stöðu hinna ýmsu Norðurlanda og það hversu mikill munur er á sambandi ríkja á Norðurlöndum við stórveldin, og svo sérstakar hugmyndir og kröfur um aukna uppbyggingu á vegum Atlantshafsbandalagsins á norðurslóð, þá tel ég að hugmyndin um kjarnorkuvopnalaust svæði verði ekki að veruleika nema aðrir hlutir breytist, þ.e. að spenna minnki milli austurs og vesturs og að almennari skriður komist á afvopnun, t.d. vegna Úralfjallaflauganna, sem reyndar eru komnar í umræðu núna, og kjarnorkuvopnalaust svæði gæti þannig komist á sem þáttur í gagnkvæmum afvopnunaraðgerðum. En þetta er alls ekki það sem menn hugsuðu sér með kjarnorkuvopnalausu svæðunum í upphafi eða kjarnorkuvopnalausu svæði á norðurslóð. Upphaflega ætlunin var sú að kjarnorkuvopnalaus svæði á Norðurlöndum mundu leiða til slökunar. Mér sýnist hins vegar ýmislegt benda til að slökunin verði að vera til komin áður, til þess að kjarnorkuvopnalaustsvæði verði að veruleika. Og þá kemur að því sem menn hafa stundum sagt, að það sem skipti kannske mestu máli í þessum efnum sé hvernig hinum tveimur stóru herrum eða valdamönnum þessara tveggja stóru þjóða, Sovétríkjanna og Bandaríkjanna, komi saman á hverjum tíma.

Ef við víkjum þá aðeins að sambúð þeirra þá eru þar augljóslega tveir mjög mikilvægir þættir. Í fyrsta lagi ný stefna Gorbatsjoffs og í öðru lagi Íransklúður Reagans forseta.

Ef við tökum fyrst Gorbatsjoff-málið þá er það alveg klárt, hvort sem ástæðan fyrir tillögum Gorbatsjoffs að undanförnu er raunverulegur friðarvilji eða efnahagsleg nauðsyn Rússa að slaka á í vopnakapphlaupi, þá er það staðreynd að Gorbatsjoff hefur breytt ásýnd Sovétríkjanna í augum almennings í Evrópu og hann hefur náð þeirri stöðu að Sovétríkin virðast hafa frumkvæði að friðarumleitunum, og það er hlutskipti Reagans og Bandaríkjanna að leika haukinn.

Á sama tíma hafa erfiðleikar Reagans og klúður í Íransmálinu veikt stöðu Bandaríkjanna mjög meðal almennings, bæði austan hafs og vestan, og þannig hafa Bandaríkjamenn tapað í því stríðinu sem er kannske það mikilvægasta, sem er hið stöðuga stríð þeirra um almenningsálitið á Vesturlöndum.

Ég tel að þessar forsendur, þ.e. áróðursstaða Gorbatsjoffs og Reagans, muni hafa mjög margvísleg áhrif á alþjóðapólitík núna á næstu misserum.

Í fyrsta lagi þarf Reagan að beina kastljósi frá klaufaskapnum heima fyrir. Í öðru lagi eru uppi raddir um það að hann eða a.m.k. frúin vilji tryggja honum ákveðinn sess í amerískri sögu, og annan sess en hefur blasað við honum að undanförnu. Það er gömul saga og ný að þau hjón hafi haft á því nokkurn áhuga að hann yrði settur á stall sem sá bandarískra forseta sem hafi tekið afdrifaríkust skref í áttina til afvopnunar. Það er því nokkuð ljóst að sá skriður sem er á afvopnunarumræðunum núna, er að komast af stað, er vegna breyttra aðstæðna í Bandaríkjunum og Rússlandi og hefur ekkert með kjarnorkuvopnalaus svæði að gera.

Í öðru lagi hefur þessi breytta áróðursstaða að mínu mati mjög mikil áhrif á NATO á næstu misserum. Málið er einfaldlega þannig að það að minnkandi ógn virðist stafa af Sovétríkjunum í augum evrópsks almennings mun leiða til þess að það verður erfiðara pólitískt að afla fjár til varnarmála og til uppbyggingar venjulegra vopna, sem hefur verið mjög hörð krafa innan NATO á undanförnum misserum. Ég tel því að í hönd fari mjög afdrifaríkar pólitískar breytingar innan NATO vegna þess að „threat-persepsjónin“ eða ógnunarskynjunin, sem almenningur í Evrópu hefur, mun fara minnkandi ef svo fer sem horfir.

Ég held að Íslendingar ættu að fylgjast mjög vel með þessu á næstu misserum vegna þess að Atlantshafsbandalagið, sem þeir eru og vilja vera mjög virkur hluti af, kemur að mínu mati til með að standa á þröskuldi núna á næstu mánuðum og misserum, ekki vegna einhverra breytinga í hernaðarlegum efnum eða hertækni, heldur vegna breytinga á almenningsáliti og pólitík í aðildarlöndunum.

Af því að ég er að tala um NATO vildi ég að lokum taka upp sérstakt mál sem ég tel að Íslendingar verði að kappkosta að fylgjast með innan NATO, en það er herbúnaður á Noregshafi.

Allt frá því 1980 eða 1981 þegar Lehman, sem var þáverandi flotamálaráðherra í Bandaríkjunum og var það þangað til fyrir örfáum vikum, lýsti áformum þeirra um 600 skipa flota, hefur verið í umræðu og verið að þróast hugmynd sem þeir hafa kallað Forward Maritime Strategy sem mætti eiginlega kalla framsóknarflotastefnu eða sóknarflotastefnu. Um þessa flotastefnu hafa orðið mjög miklar umræður bæði í bandaríska stjórnkerfinu og NATO og á Norðurlöndum vegna þess að framsóknarflotastefnan eða framsækna flotastefnan kemur beint inn á hernaðarumsvif á Noregshafi, hernaðarumsvif í kringum þennan norðurvæng, norðurflankann sem Norðmenn hafa nú svo miklar áhyggjur af.

Íslendingar verða að spyrja spurninga og fá svör við spurningum vegna þess að það eru breyttar áherslur á norðurslóðum. Það má kannske skipta þessum spurningum upp í tvennt. Það er í fyrsta lagi: Hver er hættan á stríði? Hefur breyst eitthvað hættan á stríði? Og hver er hættan í stríði? Hver er hættan á stríði og hver er hættan í stríði vegna þessara breytinga?

Það er mjög erfitt að svara þessum spurningum vegna þess að menn eru út og suður í þessu, en það eru ákveðnir hlutir sem við komumst ekki hjá að taka afstöðu til. Ég get tekið dæmi: Haustið 1985 skrifa tveir Bandaríkjamenn sem heita Robert Wood og John Hanley og þessi Robert Wood er prófessor í flotaskólanum í Newport á Rhode Ísland: „Sóknarflotastefnan er að breyta hlutverki flotans á Norður-Atlantshafi. Í stað setninga eins og „verjum samgönguleiðirnar milli Bandaríkjanna og Evrópu“ eru komnar setningar eins og „sökkvum sovéska flotanum“. Þetta veldur grundvallarbreytingum í flotahernaði“, segja þessir menn. Þeir eru að tala um gjörbreytt viðhorf og breytta umræðu um hlutverk skipanna og hernaðarstefnuna, fælinguna og hernaðarátökin á þessu svæði. Frá sama tíma er hægt að taka dæmi úr orðræðum í ameríska þinginu milli Lehmans þáverandi flotamálaráðherra og Nunn öldungadeildarþingmanns. Í þeim orðaskiptum kemur fram að Nunn ásakar flotaráðherrann fyrir að hafa verið talsmaður þess að bandaríski flotinn færi með flugvélamóðurskip langt norður í Noregshaf til þess að ráðast gegn Sovétmönnum í höfnum þeirra á Kólaskaga, þ.e. við erum að tala um allt annars konar flotapólitík en menn hafa rætt um í sambandi við það að verja GIUK-hliðið til að geta haft stjórn á samgönguleiðum á sjó milli Evrópu og Bandaríkjanna. Það sem máli skiptir fyrir okkur Íslendinga er einmitt að í stað þess að tala um að verja GIUK-hliðið eða GIN-hliðið, allt eftir því hvort hliðið menn vilja tala um, er umræðan orðin um miklu harðari flotaaðgerðir og miklu norðar en áður. Þá verða menn að spyrja: Hvert á að verða hlutverk Íslands? Ég rakst á bók sem heitir Northern Waters og er gefin út af konunglega alþjóðamála-„institútinu“ í London. Þar er nýleg grein eftir mann sem heitir Nigel de Lea. Greinin fjallar um Ísland frá sjónarhóli varna- og öryggismála. Þar er raunar ýmislegt skondið, en þar er lýst hernaðarlegu mikilvægi landsins. Þar segir að landið sé nauðsynlegt fyrir NATO til að fylgjast með skipum og flugvélum Varsjárbandalagsins á norðurslóðum. Ef stríð brjótist út geti NATO treyst á stöðvar á Íslandi til að hamla för sovéska flotans suður á Atlantshaf og tryggja samgönguleiðir á sjó milli Ameríku og Evrópu og halda loftbrú opinni, t.d. til að styrkja Norður-Noreg.

Síðan segir: „If NATO were to adopt a more forward defense in the North-Atlantic, Iceland would be an exellent base from wich to mount attacks on soviet installations in the Kola peninsula.“ Ef NATO tæki upp framsæknari eða framsóknarlegri varnir á Norður-Atlantshafi gæti Ísland verið ágætis staður til að leggja upp í árásarleiðangra á virki Sovétmanna á Kólaskaga. Ég hugsa þetta ekki sem nein dæmi um stríðsæsingar. Þetta er einfaldlega dæmi um að aðstæður og hugmyndir eru mjög að breytast um varnir og vígbúnað á höfunum fyrir austan og norðan Ísland og ég held að við verðum að vera með í þessari umræðu. Ég held að mál eins og þessi eigi að takast upp í utanrmn. af hálfu ríkisstjórnarinnar sem hefur aðstöðu til að vinna svona hluti. Mál eins og þessi vinna þm. ekki á hnjánum á sér. Og ég spyr: Hvers vegna hefur ekki verið opin og virk umræða um þessi efni í íslenskri pólitík eins og hún hefur verið t.d. í norskri pólitík?

Á síðasta ári kom út bók sem heitir The Military Build-up in the High North, uppbygging hernaðar á norðurslóð, og hún ber undirtitilinn Amerísk og norræn sjónarmið. Í þessari bók eru ræður og greinar sem voru fluttar um þetta mál á málþingi í Harvard-háskóla haustið 1985. Þarna eru 16 þátttakendur og það eru þátttakendur frá öllum Norðurlöndum nema Íslandi. Og ég spyr: Af hverju eru engir frá Íslandi? Hafa Íslendingar engan áhuga á The Military Build-up in the High North? Í formála bókarinnar skrifar maður sem mig minnir að heiti Huntington og þar lýsir hann breytingum á hernaðarstöðunni í norðurhöfum á undanförnum árum og segir að 1985 hafi augljóslega verið kominn tími til að endurmeta hernaðarjafnvægið á norðurslóð og leiðir til að tryggja öryggi Norðurlandanna í ljósi breyttra aðstæðna. Til að tryggja öryggi Norðurlandanna. Við erum eitt af þeim. Og þá má spyrja: Höfum við enga skoðun á þessu? Ef allt í kringum okkur eru menn að rífast um breytta strategíu á þessu hersvæði. Menn boða til stórra málþinga vegna þess að þeim þykir tími til kominn að endurmeta hernaðarjafnvægið. Og ég spyr: Vildi enginn fara á þetta þing frá Íslandi eða gleymdu þeir okkur kannske? Þeir hafa kannske litið svo á að við hefðum enga skoðun á þessu og að okkar skoðum væri NATO-skoðun eða einhver önnur viðtekin skoðun. Ég tel að við eigum að hafa á þessu skoðun. Við eigum að skilgreina öryggishagsmuni okkar og síðan eigum við að taka þátt í umræðum um vígbúnað af þessu tagi.

Nú hefur þessi framsóknarflotastefna verið til umræðu í fimm til sex ár og hún hefur verið tilefni til mjög mikilla umræðna bæði austan hafs og vestan. Menn eru enn þá að deila um hvað hún í raun og veru sé, hvort hún sé kannske dulbúningur til að gera auðveldara fyrir um að sækja til fjárveitingarvaldsins í Bandaríkjunum til að byggja upp sterkari flota. Menn hafa ýmsar skoðanir á því um hvað þessi stefna snýst. En við erum í NATO og við eigum að taka þátt í þessari umræðu. Leikurinn snýst um líf okkar og limi ekkert síður en hinna þjóðanna sem þarna eru. Við eigum að spyrja aftur um þessa hættu, um hættuna á stríði og hættuna í stríði. Það er e.t.v. miklu minni hætta á stríði ef gagnaðilinn veit að varnarviðbrögðin verða grimmileg og það verður reynt að grípa hann í bólinu á Kólaskaga og það er e.t.v. minni hætta í stríði á Íslandi ef víglínan færist langt norður í haf í stað þess að vera í kringum Ísland eins og gæti gerst við átök í GIUK-hliðinu. En hver veit. Þessara spurninga höfum við ekki spurt og þess vegna höfum við ekki svarað þeim. Ég tel að það hljóti að verða verkefni næsta Alþingis að fara mjög gaumgæfilega ofan í saumana á þessum hlutum vegna þess að eins og þeir segja „Where there is smoke there is fire.“ Allar þessar umræður um breyttar aðstæður á hafinu fyrir austan okkur og norðan hljóta að koma okkur við.