11.03.1987
Sameinað þing: 62. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4034 í B-deild Alþingistíðinda. (3674)

396. mál, utanríkismál

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það eru fluttar býsna merkilegar ræður hér þó komið sé fram um lágnættið. Ég verð að segja eins og er að ég hafði gaman af að hlýða á margar vangaveltur hv. síðasta ræðumanns. Hann vék þar að hlutum sem ég reyndi reyndar að fitja upp á á hv. Alþingi fyrir einum þrem fjórum árum og hef stundum minnt á síðan. Ég er hjartanlega sammála hv. þm. Guðmundi Einarssyni að það er til skammar hversu lítið við Íslendingar höfum reynt að ræða þessa hluti. Ástæðan hefur mér virst vera sú að það er mjög lítill áhugi á því hjá ýmsum aðilum í þessu þjóðfélagi, flestöllum fjölmiðlunum og heilum stjórnmálaflokkum að opna umræðu um þessi mál.

Ég var búinn að rekast á það í ýmsum erlendum ritum, eins og síðasti hv. ræðumaður hefur greinilega gert upp á síðkastið, að það væru ýmsir merkilegir og mikilvægir hlutir að gerast í kringum okkur. Áherslur stórveldanna beggja væru að breytast þannig, hernaðarstrategía þeirra að breytast þannig að við Íslendingar þyrftum að endurmeta ýmislegt í okkar málum. En það virðist henta ýmsum betur að hafa þetta í gamla góða farinu, höfða til þess hvernig þetta var í seinna stríðinu og jafnvel fyrra stríðinu og vegna þess að svona hafi þetta gengið til þá og við höfum verið herteknir og allt hljóti þetta að vera alveg eins í dag.

Það er alveg ljóst að norðursvæðin eru miklu þýðingarmeiri í hernaðaruppbyggingu stórveldanna. Þau eru líkleg til að verða miklu meiri átakaflötur og Ísland og staðan hér kemur þar sterklega inn í myndina. Ég þóttist merkja að ýmsar breytingar sem voru að verða á búnaði og uppbyggingu herstöðvarinnar á Íslandi tengdust slíkum áformum, t.a.m. koma F15 orrustuflugsveitarinnar, sem er tæknilega miklu fullkomnari með meira flugdrægi og meiri möguleika en fyrri flugvélar, og spurði spurninga eins og þeirra: Á hvern hátt hugsanlega tengist þessi nýja flugsveit áformum Bandaríkjamanna um að mæta Sovétmönnum í átökum miklu norðar og nær þeirra heimaslóðum en áður hafði verið talað um? Þessi aðferð eða strategía hefur gengið undir ýmsum nöfnum, stundum er talað um flöskuhálsinn eða bottle-up eða defense in depth og ýmislegt fleira hefur maður séð nefnt, en allt lýtur þetta að því að færa varnarlínuna eða átakalínuna norðar en áður hefur verið talað um.

En án þess að ætla að fara mikið ítarlegar út í þetta þótti mér gaman að heyra vangaveltur hv. síðasta ræðumanns og vona að hann fylgi því eftir, sem hann talaði um, að opna um þetta umræður á réttum vettvangi. Þeir hv. ræðumenn Alþb. sem hér hafa talað á undan mér, 3. þm. Reykv. og 5. þm. Austurl., hafa vikið að fjölmörgum þáttum utanríkismálanna og ég ætla einungis að bæta þar lítillega við um tvö eða þrjú atriði.

Í fyrsta lagi ætla ég eins og venjulega og eins og reyndar nokkrir hv. ræðumenn hafa gert á undan mér að víkja örlítið að framlögum okkar Íslendinga til þróunarsamvinnu. Það blæs ekki byrlega fyrir þessum lið á íslensku fjárlögunum. Hlutfall þróunarframlaganna af þjóðarframleiðslu lækkar ar frá ári og hefur gert á hverju einasta heilu ári sem þessi ríkisstjórn hefur sett saman fjárlög. Þetta hefur gerst þrátt fyrir vaxandi þjóðarframleiðslu á hverju ári. Þessi frammistaða er íslensku þjóðinni til skammar og þó fyrst og fremst þeim ráðamönnum sem setja saman fjárlögin og gleyma sínum eigin samþykktum áður en blekið er þornað á þeim. Ýmsar þjóðir í kringum okkur hafa hægt og bítandi verið að auka sín framlög. Það eru þjóðir sem hafa mun minni þjóðartekjur en við Íslendingar, þjóðir sem glíma við mikið atvinnuleysi og ýmiss konar erfiðleika heima fyrir, en engu að síður hafa þær markvisst og jafnt og þétt aukið framlög sín á þessu sviði. Við erum komnir í algeran sérflokk hvað varðar vestrænar velmegunarþjóðir með okkar skammarlega bágu aðstöðu á þessu sviði.

Ég sé ekki annað ráð, virðulegur forseti, í þessu efni en að sett verði sérstök lög um þróunaraðstoð á Íslandi þar sem byggt verði á áætlun um að auka þessi framlög í áföngum upp í eðlilegt horf. Í slíkum lögum þurfa að vera sérstakir og markaðir tekjustofnar lagðir á almenning í landinu þannig að menn viti og skilji til hvers þær tekjur renna. Þá efast ég ekki um vilja og áhuga íslensku þjóðarinnar til að leggja sitt af mörkum í þessum efnum. Það hafa menn margoft sýnt í söfnunum, en það hefur hins vegar virst vanta kjark eða dug ráðamanna til að skila sínum hlut að þessu leyti.

Ég lýsi mig reiðubúinn að standa að gerð slíkrar áætlunar og setja sérstök lög um tekjuöflun til þróunaraðstoðar. Þetta gæti verið áætlun í líkingu við þá sem verið er að afgreiða á hv. Alþingi um uppbyggingu í flugmálum þar sem hvort tveggja er gert í senn, að undirbúa þáltill. um aukningu framlaga og að setja í lög ákvæði um tekjustofna til þessa verkefnis. Ég mun beita mér fyrir því að þessi hugmynd eða önnur af þessu tagi verði tekin upp þegar tóm gefst til á Alþingi í framtíðinni.

Þá ætla ég lítillega að víkja að veru bandaríska hersins hér og framkvæmdum og skipulagsbreytingum sem veru hans hafa tengst. Það er lítið fjallað um þessar skipulagsbreytingar eða breytingar á samskiptum við herinn í skýrslu utanrrh., en þar hefur verið ítarlegar að þessu vikið oft áður á undanförnum árum. Það má lýsa þessum breytingum í hnotskurn með því að þær geri okkur í fyrsta lagi efnahagslega mun háðari veru hersins hér en hingað til hefur verið og er þá sama hvort átt er við starfsemi opinberra aðila eins og Pósts og síma, skipafélögin, íslenska bændur eða aðra slíka. Margs konar samtvinnun efnahagslífs og atvinnulífs þjóðarinnar við veru hersins hér og stóraukin umsvif hans í efnahagslífinu leiðir öll að þessu marki. Í öðru lagi hafa þessar skipulagsbreytingar miðað að því leynt og ljóst að Ísland hefur tengst hinum hernaðarlegu stofnunum NATO og Bandaríkjanna m.a. með því að við tókum sæti í hermálanefndinni í Brussel með ráðningu ýmissa herspekinga í utanríkisráðuneytið og sérstakrar skrifstofustofnunar þar og með meiri þátttöku hersins eða herliðsins í heræfingum á vegum Atlantshafsbandalagsins og meiri tengingu við herafla einstakra bandalagsþjóða. Síðan koma hugmyndir um að við gerumst formlegir aðilar að mannvirkjasjóði NATO.

Í því sambandi hefði verið fróðlegt að fá ofurlítið ítarlegri umfjöllun um það tiltekna atriði en gefur að lesa í skýrslu hæstv. utanrrh. Satt best að segja er þar furðulega stuttaralega um hlutina fjallað. Mér er spurn: Hvað ætlar hæstv. utanrrh. að gera með þá niðurstöðu sem að sögn er fengin í því máli og er nú til athugunar í ráðuneyti hans? Telur hann ekki rétt að kynna hana fyrir Alþingi eða utanrmn. Alþingis áður en þetta þing lýkur störfum, eða er þess e.t.v. að vænta að hann taki upp á sitt eindæmi einhverjar ákvarðanir í þessum efnum þegar Alþingi hefur verið sent heim í frí? Skýrslan er á bls. 51 furðulega stuttorð. Þar eru tæpar þrjár línur sem víkja að þessu tiltekna atriði og hefði ég þó ekki talið það smámál í íslenskum stjórnmálum ef sú ákvörðun er á döfinni að Íslendingar gangi formlega inn í mannvirkjasjóð NATO, þann sjóð sem hefur það í starfsreglum sínum að fjármagna einungis framkvæmdir á sviði hermála. Það kynnu að vakna ýmsar spurningar um hvað Íslendingar þyrftu t.d. að greiða í þennan sjóð ef þeir gerðust formlegir aðilar að sjóðnum. Ég veit t.d. að Lúxemborg sem þarna er aðili, ríki á stærð við Ísland, greiðir allverulega fjárhæð á hverju ári í þennan sjóð. Ætti þá að hugsa dæmið þannig upp að Ísland hagnaðist á þessu með einhverju móti, fengi meiri framkvæmdir úr sjóðnum en það legði í hann eða hvernig hefur hæstv. utanrrh. hugsað sér að leggja dæmið fyrir?

Ég held að það liggi fyrir í tölum að framkvæmdir á vegum bandaríska hersins hér eru meiri að jafnaði s.l. ár en nokkru sinni fyrr, nema ef vera skyldi þau ár þegar herinn var að koma sér hér fyrir. Og það lítur út fyrir vaxandi umsvif Íslenskra aðalverktaka, þeirra sem mest skipta við herinn, á næsta ári ef marka má skýrslu utanrrh. Þarf þá ekki að hafa fleiri orð um það í sjálfu sér.

Um þessi samskipti að öðru leyti vil ég aðeins segja að það hefur verið athyglisvert að fylgjast með þeim geðbrigðum sem orðið hafa í brjóstum ýmissa íslenskra stjórnmálamanna og fjölmiðla á síðasta ári þegar nokkrar snurður hlupu á þráðinn, ef svo má að orði komast, og allt í einu fylltust brjóst ótrúlegustu manna af yfirdrifinni þjóðerniskennd og stolti og þá var talað illa um kanann í nokkrar vikur, en síðan hefur allt fallið í ljúfa löð. Það veldur sem sagt engum truflunum á kærleikssambandinu við Bandaríkjamenn þó að þeir geri sprengjuárásir t.d. á óbreytta borgara í Trípólí að næturlagi, að því er virðist fyrst og fremst í þeim tilgangi að myrða án dóms og laga þjóðhöfðingja viðkomandi ríkis og fjölskyldu hans. Það varð ekki vart við neina erfiðleika í samskiptum íslenska utanrrh. og íslensku ríkisstjórnarinnar við Bandaríkjamenn út af þessum atburði. Það varð heldur ekki vart við mikla samskiptaerfiðleika hjá þessum stuðningsmönnum Bandaríkjamanna hér þegar þeir lögðu tundurduflagirðingar í hafnir í Nicaragua og þverbrutu þannig alþjóðalög né heldur þegar þeir voru af Alþjóðadómstólnum í Haag fundnir sekir í því máli. Ekki hélt það andvöku fyrir stuðningsmönnum Bandaríkjamanna hér. En hitt olli miklu fjaðrafoki þegar þeim ávinningi sem nokkrar vel valdar íhaldsfjölskyldur og Samband ísl. samvinnufélaga hefur af veru Bandaríkjahers hér var stofnað í voða.

En þau mál leystust, þjóðernismetnaðurinn slokknaði eins og slökkt væri á kerti, stoltinu var stungið ofan í rassvasann og síðan segir hæstv. utanrrh. í skýrslu sinni á bls. 8, ef ég man rétt, að nú sé ekkert því til fyrirstöðu að treysta áfram varnarsamstarfið við Bandaríkin, og gætir greinilegs feginleika í textanum. Nú eru öll þessi erfiðu mál úr sögunni. Þetta með flutningana og þetta með hvalinn og kjötið og öll þessi hroðalegu vandamál sem hlóðust upp eins og óveðursský við sjóndeildarhringinn og ógnuðu þessu nána bræðralagi. Nú er þetta leyst. Bandaríkjamenn geta farið sínu fram í heiminum, rekið sína heimsvaldastefnu í sínum hluta heimsins sem þeir hafa kjörið sér að skákborði. Það veldur íslenskum utanrrh. og ríkisstjórn engum áhyggjum. Svo fremi sem hernámsöflin fá að græða í friði er ekkert því til fyrirstöðu að efla og treysta varnarsamstarfið við bræðralagsþjóðina.

Það væri fróðlegt, herra forseti, að gera ofurlítið upp við þessa ríkisstjórn af því þetta er í síðasta sinn væntanlega sem við ræðum um utanríkismál með þessum hætti í tíð þessarar ríkisstjórnar á þessu kjörtímabili. Ég hef gert mér til dundurs að taka saman það sem ég kalla annál hernaðaruppbyggingar í tíð ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar og utanríkisráðherratíð þeirra Geirs Hallgrímssonar, heiðursforseta NATO, og Matthíasar Á. Mathiesen hæstv. núv. utanrrh. Þessi annáll er býsna langur og ég held að ég tímans vegna sleppi því að lesa hann upp. Ég hef tekið saman öll árin frá miðju ári 1983 og fram á fyrstu mánuði yfirstandandi árs. Það er skemmst frá því að segja að á hverju einasta ári, í hverjum einum einasta mánuði næstum því að segja, liggja fyrir nýjar ákvarðanir og urðu einhver tíðindi í hernaðaruppbyggingunni hér á landi. Þetta er einhver dapurlegasti annáll sem ég hef nokkurn tíma tekið saman, nokkurn tíma lesið yfir liggur mér við að segja og hef ég þó lesið harðindaannála Espólíns og ýmislegt fleira sem ekki er nú beint gleðilestur. Þetta er þó miklum mun dapurlegra.

Það væri líka fróðlegt að víkja ofurlítið að Framsfl. og veru hans í þessari ríkisstjórn, sérstaklega vegna þess að nú er farið að styttast í kosningar og hin líflegu málgögn Framsfl. eru farin að skrifa í leiðurum sínum um hvað framsóknarmenn séu mikið á móti hermanginu og hvað þeir séu andstæðir stjörnustríðsáformum og þeir vilji nú helst stöðva alla hernaðaruppbyggingu. E.t.v. vilja þeir stöðva hana núna frá því um miðjan mars og fram til 26. apríl og það getur vel verið að það dugi þeim út af fyrir sig. En það er óneitanlega umhugsunarefni hvort það eiga að verða örlög okkar Íslendinga á þessu ári og e.t.v. áfram að hjól hernaðaruppbyggingarinnar snúist hraðar uppi á Íslandi á sama tíma og ýmislegt bendir til þess að þíðu og slökunar gæti úti í heimi. Tíðindi hafa stundum borist seint og illa upp á Ísland og það getur vel verið að það fari svo einnig nú, því miður, að hér haldi kalda stríðið áfram 20 árum eftir að því er lokið úti í heimi og hér haldi hernaðaruppbyggingin, sem valdataka Ronalds Reagans hefur tímasett að nokkru leyti, áfram í mörg ár enn þó að þíða og afvopnunarviðræður hefjist í alvöru úti í heimi. Mér hafa a.m.k. fundist þeir ráðamenn sem helst hafa leitt þessa þjóð í utanríkismálum furðu fastir í sama farinu og gjarnir á að skoða heiminn út um þrönga rifu beint fram undan sér og sjá ekkert til hliðanna.

Ég ætla svo að víkja að einu efni sem hér hefur verið verulega til umræðu í kvöld. Það er spurningin um kjarnorkufriðlýst svæði. M.a. vegna þess að nú liggur fyrir hv. Nd. frv. til laga frá þeim sem hér talar ásamt með fleiri flm., frv. til laga um að friðlýsa Ísland fyrir kjarnorku- og eiturefnavopnum. Þetta frv. hefur að sjálfsögðu ekki vakið neina óskapa athygli hér, enda virðast menn ekki hafa á þeim málum óskaplega mikinn áhuga nema þá rétt í sunnudagsræðum og þegar þeir eru komnir austur til Moskvu getur verið ágætt að slá um sig með þessum hlutum, en tala sem minnst um þá hér heima við. Alla vega hefur hæstv. forsrh. þjóðarinnar lítið ómakað sig og litlu eytt af sínum dýrmæta tíma í að hlusta á þessa umræðu um utanríkismál.

En mér finnst satt best að segja, virðulegur forseti, harla furðulegt hvernig ýmsir tala hér um kjarnorkuafvopnun og kjarnorkuvopnalaus svæði. Það er talað um þetta í þeim tón af hæstv. utanrrh. og fleirum rétt eins og það séu einhverjir fámennir hópar sérvitringa sem láti sér detta þá firru í hug að friðlýsa ákveðin svæði, að lýsa yfir kjarnorkufriðlýsingu og tala um kjarnorkuafvopnun. Það sé í besta falli alveg óþarft þar sem sums staðar séu ekki kjarnorkuvopn og yfirleitt heldur til bölvunar og varasamt og hættulegt að vera að ræða það að lýsa yfir kjarnorkuvopnalausum svæðum.

Staða þessara mála er sú að kjarnorkuveldin sjálf og þeir sem fylgja þeim að málum eru minni hlutinn í heiminum. Ég hef sjálfur, þó ég hafi ekki verið í förumannaflokkum fríðum sem mest þeysa á erlenda grund, upplifað það að vera á alþjóðlegum ráðstefnum og alþjóðlegum vettvangi þar sem kjarnorkuveldin mynda algeran minni hluta og þeir aftaníossar sem þeim fylgja helst, þar sem ríki eins og Bandaríkin og Frakkland beita æ ofan í æ neitunarvaldi gegn kannske 120-150 þjóðum heimsins til að verja sína kjarnorkuvígbúnaðarhagsmuni. Hin almenna regla er sú í heiminum að kjarnorkuafvopnun, að kjarnorkuvopnalaus svæði og hliðstæðar aðgerðir nýtur yfirgnæfandi meirihlutastuðnings. Það er hin almenna regla. Undantekningin er sú, sem á sér hér uppi á Íslandi býsna marga talsmenn, að þetta sé allt saman varhugavert og af hinu illa. Og ég vil eins og hv. 3. þm. Reykv. vitna í lokaályktun lokaráðstefnu á aukaþingi Sameinuðu þjóðanna 1978 þar sem án atkvæðagreiðslu náðist niðurstaða um það að Sameinuðu þjóðirnar teldu myndun kjarnorkuvopnalausra svæða eitthvert mikilvægasta einstaka atriðið sem hægt væri að beita í viðleitni til að ná fram kjarnorkuafvopnun í heiminum. Mér finnst þess vegna satt best að segja harla furðulegt í ljósi þess hver staða þessara mála er á alþjóðavettvangi, í ljósi þeirrar áratugaþróunar sem verið hefur og er að baki þessum hugmyndum, hvernig menn tala um þessa hluti hér.

Það er eins og menn gleymi því líka að það eru fjölmörg svæði og fjölmargir samningar í gildi í heiminum um kjarnorkuafvopnun, um takmörkun kjarnorkuvígbúnaðar. Ég nefni kjarnorkufriðlýsingu Suður-Ameríku, Tlatelolco-samninginn. Ég nefni friðlýsingu Antarktíku. Ég nefni bann við staðsetningu kjarnorkuvopna á hafsbotninum. Ég nefni bann við staðsetningu kjarnorkuvopna úti í geimnum. Ég nefni takmarkað tilraunabann á kjarnorkuvopnum. Ég nefni hið nýja kjarnorkuvopnalausa svæði í Suður-Kyrrahafi, Rarotonga-samninginn. Ég nefni frv. Davids Langes um kjarnorkufriðlýsingu Nýja-Sjálands sem nú bíður þriðju umræðu á nýsjálenska þinginu og verður væntanlega afgreitt sem lög þaðan fyrir lok þinghaldsins þar. Ég nefni friðun Indlandshafs og fleira og fleira mætti telja. Ég nefni hugmyndir um kjarnorkuvopnalaus svæði í Norður-Evrópu, Mið-Evrópu, á Balkanskaga, á Miðjarðarhafi, í Miðausturlöndum, í Afríku og svo mætti áfram telja. Víða á þessum svæðum er verið að vinna að framgangi þessara hugmynda og almenningsálitið í heiminum er í þessa átt, styður þessar hugmyndir og þess vegna er ég bjartsýnn og sannfærður um að misvitrir stjórnmálamenn og talsmenn vígbúnaðaraflanna munu ekki tefja framgang þessara hugmynda mjög lengi úr þessu. Það getur vel verið að ógæfa Íslands verði svo mikil að við missum af lestinni hvað varðar kjarnorkuvopnalaus Norðurlönd, en engu að síður hlýtur maður að fagna þeim skriði sem er á þessum hugmyndum víða úti í heiminum.

Ég taldi þess vegna, herra forseti, ekki eftir neinu að bíða að leggja fram frv. til laga um hvernig standa mætti að friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorku- og eiturefnavopnum, hvernig mætti koma í veg fyrir siglingu kjarnorkuknúinna skipa eða umferð kjarnorkuknúinna farartækja upp að Íslandi og þannig draga úr hættunni á óhöppum, kjarnorkuóhöppum eða eiturefnaóhöppum á og í grennd við Ísland.

Í þetta frv., sem liggur fyrir Nd. og er á þskj. 800, 413. mál, hefur farið umtalsverð vinna. Það byggir á frv. frá Nýja-Sjálandi. Það byggir einnig á öðrum friðlýstum svæðum. Það á að taka mið af fullveldis- og þjóðarrétti okkar Íslendinga samkvæmt hafréttarsáttmálanum. Og ég vil gleðja hv. formann utanrmn., vegna þess að hann sýnir þó þann áhuga að sitja í þingsalnum, með því að ég geri að sjálfsögðu ráð fyrir því að friðlýsing okkar Íslendinga mundi byggja á ýtrasta fullveldis- og þjóðarrétti okkar til að friða eftir því sem alþjóðalög heimila okkur alla sérefnahagslögsöguna og allt íslenskt yfirráðasvæði samkvæmt ýtrustu fullveldisréttindum. Það er auðvitað ljóst og er öllum ljóst að ákveðnar undanþágur verða að gilda um alþjóðlega umferð í friðsamlegum tilgangi, en ég geri þó ráð fyrir því í frv. og við flm. að aldrei mundi leyfð koma kjarnorkuvopnaðra skipa eða flugvéla inn fyrir 12 sjómílna land- eða lofthelgi Íslands og aldrei leyfðar heimsóknir slíkra farartækja til íslenskra hafna eða flugvalla. Ég held að við Íslendingar eigum að standa á því að það tilheyri fullveldisrétti okkar, þeim rétti sem við höfum samkvæmt ákvæðum hafréttarsáttmálans til að vernda og varðveita alla íslensku efnahagslögsöguna. Undir þann rétt fælist það að við gætum kjarnorkufriðlýst sama svæði og ótvíræður réttur til að friðlýsa án undantekninga 12 mílna landhelgi okkar og loftrými þar uppi yfir.

Það varðar býsna miklu í sambandi við möguleikana á því fyrir einstök ríki að stofna kjarnorkuvopnalaust svæði sem og fyrir hóp ríkja sem vill stofna stærra svæði hvernig ákvæði hafréttarsáttmálans m.a. og önnur ákvæði þjóðaréttar eru túlkuð í þessum efnum. En það er mín skoðun, það er mín tilfinning eftir nokkra skoðun á þessum málum að Ísland, hvort sem það færi eitt saman eða ekki, eða öll Norðurlöndin ættu að leggja til þá túlkun að þau hafi ótvíræðan rétt til að friðlýsa alla efnahagslögsögu sína, allt áhrifasvæði sitt samkvæmt ýtrustu fullveldisréttindum, þó þannig að þau gerðu óhjákvæmilegar undantekningar vegna umferðar eða gegnumferðar á alþjóðlegum leiðum svo fremi sem farið færi í friðsamlegum tilgangi og án óþarfa viðdvalar, sbr. ákvæði hafréttarsáttmálans þar um, ákvæði alþjóðlegra siglingalaga og fleiri slík ákvæði.

Ég hef lagt þetta frv. fram, herra forseti, fyrst og fremst til að kynna hvernig mætti standa að þeirri yfirlýstu stefnu Alþingis og ríkisstjórna að hér skuli ekki geymd, ekki staðsett og ekki meðhöndluð kjarnorkuvopn. Mér þótti rétt að láta þar einnig fylgja með sambærilegt bann við eiturefnavopnum. Það er mín skoðun að með slíkum hætti gæti Ísland lagt mikið af mörkum til batnandi sambúðar og til friðar og slökunar í heiminum. Með því móti værum við einnig að tryggja okkur sjálf og draga úr líkunum á því að við yrðum fyrir barðinu á óhöppum sem eru fjöldamörg og allt of mörg þó fæst af þeim komist nokkurn tímann upp á yfirborðið. Ég veit ekki t.d. hversu margir hv. alþm. hér inni vita að ekki færri en átta kjarnorkukafbátar hafa sokkið með manni og mús, þar af þrír eða fjórir í Atlantshafinu, og liggja þar á hafsbotninum og grotna niður með 97% kjarnorkukleyft eldsneyti sem fyrr eða síðar hlýtur að komast út úr sínum umbúðum. Þar ganga, ef svo má að orði komast, á okkur eins og aðrar þjóðir sem byggja á auðlindum hafsins tímasprengjur sem í raun og veru enginn þorir að hugsa til enda hvað gerist ef springa.

Ég vil svo að lokum vegna þeirra ummæla sem hv. þm. Eiður Guðnason hafði um Vestnorræna þingmannaráðið og samþykkt sem þar var gerð á s.l. sumri víkja þar að nokkrum orðum.

Ég harma í fyrsta lagi þau ummæli sem hv. þm. hafði um fund ráðsins á Selfossi s.l. sumar og vinnubrögð þar að lútandi í sambandi við tillögugerð. Ég lýsi því yfir fyrir mitt leyti að þar var í alla staði unnið eðlilega að hlutunum, fylgt fundarsköpum og lögum ráðsins og ekki unnið með gerræði eða ólýðræðislegum vinnubrögðum á nokkurn hátt að því að fá þar fram samþykktir. Það lá ósköp einfaldlega fyrir að yfirgnæfandi meiri hluti þingfulltrúa var á því að gera samþykkt um þetta tiltekna efni, þ.e. hvetja ríkisstjórn Íslands og landsstjórnir Færeyja og Grænlands til að beita sér fyrir útrýmingu kjarnorkuvopna úr þessum heimshluta, og þó að einn eða tveir ræðumenn legðust gegn slíkri samþykkt varð það niðurstaða þess mikla meiri hluta sem þar var á þinginu, 14 þm. af 17 sem þar eiga sæti, að gera þessa samþykkt og var hún enda samþykkt með 14 atkvæðum og 3 sátu hjá. Sambærileg tillaga hafði verið kynnt á fundi ráðsins í Nuuk á Grænlandi ári áður og það var því ekki hægt að segja að tillagan kæmi mönnum á óvart þegar hún var flutt í upphafi fundarins á Selfossi. Tillagan hljóðar svo í lauslegri þýðingu úr dönsku yfir á íslensku, með leyfi forseta:

„Vestnorræna þingmannaráðið beinir þeim tilmælum til landsstjórnar Færeyja, landsstjórnar Grænlands og ríkisstjórnar Íslands að þær hefjist óðara handa um að stuðla að því í þágu friðar og sambúðar þjóða heimsins að tryggja að kjarnorkuvopn eða farartæki sem bera slík vopn verði hvorki á stríðs- eða friðartímum á landi, í lofthelgi eða á hafsvæðum hins vestnorræna svæðis.“

Ég tel það styrk fyrir okkur Íslendinga að vita af því að nábúar okkar bæði í austri og vestri eru þessa sinnis, að það liggur fyrir stjórnarstefna heimastjórnanna bæði í Grænlandi og á Færeyjum um að þær vilja gera sín lönd að kjarnorkuvopnalausum svæðum. Fyrir því liggur einróma samþykkt á grænlenska þinginu og að því er ég best veit samþykkt yfirgnæfandi meiri hluta færeyska lögþingsins án mótatkvæða. Þessi ályktun er í fullu samræmi við það og ætti að vera okkur Íslendingum hvatning til þess enn frekar að þoka þessum málum áleiðis í rétta átt hjá okkur.

Herra forseti. Ég ætla svo ekki að hafa þessi orð fleiri. Ég vona að mér gefist tóm til þess á fundum Nd. áður en Alþingi lýkur störfum í vor að mæla fyrir frv. sem ég hef litillega leyft mér að kynna í þessum umræðum um utanríkismál þó að það sé að sjálfsögðu ekki á dagskrá þingskapanna vegna, m.a. vegna þess að mér þótti rétt að minna á það og vekja á því athygli að þetta frv. liggur nú fyrir þinginu vegna þeirrar miklu umræðu sem hér hefur farið fram um kjarnorkuvopnalaus svæði á Norðurlöndum og kjarnorkuafvopnun í heiminum.

Það er sannfæring mín, eins og ég hef reyndar þegar lýst, að almenningsálitið í heiminum er að snúast í vaxandi mæli gegn kjarnorkunni, gegn kjarnorkuvopnunum. Fólk er æ betur að gera sér grein fyrir þeirri geysilegu ógnun, þeirri vá sem hangir yfir öllu lífi á jörðinni eins og sverð sem felst í kjarnorkunni í raun og veru hvort sem heldur er beisluð til friðsamlegra nota eða í þágu stríðsafla. Því fylgja slíkar umhverfishættur, slík ógn að við það verður ekki unað til frambúðar að hafa slíkt sverð hangandi yfir. Ég held að það sé sú brýnasta og mesta aðgerð sem grípa verður til og nánast forsenda þess að friðsamleg sambúð þjóða takist að losna við kjarnorkuvopnin út úr heiminum. Þá en fyrr ekki verður e.t.v. hægt að snúa sér að áframhaldandi og víðtækari afvopnun á öðrum sviðum.