11.03.1987
Sameinað þing: 62. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4042 í B-deild Alþingistíðinda. (3675)

396. mál, utanríkismál

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég skal reyna að stytta mjög mál mitt þar sem nú er svo liðið á kvöld og raunar runninn nýr dagur. Félagar mínir hafa hér sagt margt af því sem ég vildi sagt hafa svo ég sé ekki ástæðu til að endurtaka það, en það eru örfá atriði sem ég hlýt að gera hér að umræðuefni.

Ég vil fyrst víkja almennt að þeirri skýrslu um utanríkismál sem hér liggur fyrir. Ég efast ekki um að hæstv. utanrrh. og starfsmenn hans eru fjölfróðir um utanríkismál. Við skyldum halda að skýrsla sem þessi ætti að vera þingheimi til upplýsingar um þau hin sömu mál. Mér finnst hins vegar þessi skýrsla bera öll merki þess að utanrrn. telji ekki að þingheimi komi mikið við hver staðan er í utanríkismálum. Skýrslan er bæði stutt, yfirborðsleg og kaflar í henni nálgast að mínu viti að vera móðgun við þingheim, en það er kaflinn sem fjallar um almennt ástand í alþjóðamálum. Ég bendi hæstv. utanrrh. á að engin skylda er fyrir íslenskan þm. að vera læs á erlendar tungur. Skýrsla sem þessi gæti verið mjög upplýsandi væri hún vel og samviskusamlega unnin fyrir þá þm. sem eiga erfitt með að lesa sér til um alþjóðamál á erlendum tungum. Ég held að sú skýrsla sem hér liggur fyrir komi þar að litlu gagni og skal ég víkja að einstökum köflum seinna í máli mínu.

En svo ég minnist á þau örfáu atriði sem ég ætlaði að gera hér að umræðuefni vil ég geta þess að strax í inngangi er lögð aukin áhersla á þann þátt utanríkismála er lýtur að kynningu íslenskrar framleiðsluvöru og þjónustu á erlendri grund, eins og þar segir. Þetta finnst mér af hinu góða. Raunar mætti kaflinn um þann þátt utanríkismála vera ærið miklu ítarlegri en hann er.

Á bls. 6 er kafli um íslenskt frumkvæði í öryggis- og varnarmálum. Þar er ýmislegt skrýtið að finna. Í lið 6 stendur um íslenskt frumkvæði:

„Loks hefur öll aðstaða varnarliðsins, húsakostur og tækjabúnaður verið bætt til mikilla muna.“

Ég leyfi mér að draga í efa að hér sé um að ræða íslenskt frumkvæði. Ég held heldur ekki að bygging nýrrar flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli sé íslenskt frumkvæði. En varðandi þann lið vil ég leggja mjög mikilvæga spurningu fyrir hæstv. utanrrh. - hlýðir hann mál mitt? (Utanrrh.: Hann er hér.) Hefur verið tekin um það ákvörðun - nú er mér ekki kunnugt um hvort einhver annar hefur spurt að því hér í kvöld því að ég varð að víkja mér frá vegna annars fundar - undir hvaða ráðuneyti hin nýja flugstöð á Keflavíkurflugvelli á að heyra? Það liggur í hlutarins eðli að samgöngutæki eins og flugstöðin á Keflavíkurflugvelli er ætti eðlilega að heyra undir samgrn. Nú hef ég ákveðinn grun um að það standi ekki til, en sá grunur er einungis óstaðfestur og þess vegna hlýt ég að spyrja hæstv. utanrrh. hvaða ákvörðun hefur verið tekin um þetta mál.

Ég held að það sé vísvitandi tilraun til að blekkja íslenskan þingheim að halda því fram að íslenskt frumkvæði ráði framkvæmdum á Keflavíkurflugvelli. Svo miklir einfeldningar erum við ekki hér í salnum að við tökum slíkar yfirlýsingar alvarlega.

Síðan er á bls. 7 kafli sem heitir „Samskiptin við varnarliðið“. Þar er því lýst hvað þau séu mikil og ágæt. Varnarliðið er ekki lítill þáttur þjóðmála. Það hljóta allir að vita. Samskipti Íslendinga við varnarliðið taka hér eina og hálfa blaðsíðu og tæplega þó.

Hér eru engar upplýsingar um áhrif veru varnarliðsins á efnahagslíf þjóðarinnar. Því síður nokkuð um kjör og réttindi íslenskra starfsmanna á Keflavíkurflugvelli. Við skulum gera okkur grein fyrir því að nú eru að fara á eftirlaun menn sem enga aðra starfsævi hafa átt en vinnu í þágu bandaríska hersins í Keflavík. Við erum ákaflega fáfróð um hver eru raunverulega kjör þessa fólks. Engar tölur er hér að finna um efnahagsleg áhrif varnarliðsins hér á landi. Þetta er auðvitað gjörsamlega fáránlegt í árlegri skýrslu hæstv. utanrrh. um þessi mál.

Þessi kafli endar á svofelldum orðum, með leyfi forseta: „Það hefur reynst heilladrýgst í samskiptum okkar við Bandaríkjamenn að skilja greinilega á milli varnarhagsmuna þjóðarinnar og fjárhagslegs ábata af veru varnarliðsins.“

Það væri gaman að vita hvað þetta þýðir í raun og veru, hvað þessi setning þýðir. Ég held að hæstv. utanrrh. verði að viðurkenna, a.m.k. með sjálfum sér, að sú tíð er löngu, löngu liðin að um sé að ræða varnarhagsmuni íslensku þjóðarinnar sem orsök fyrir veru bandaríska herliðsins í Keflavík. Þetta er eins og tekið út úr Morgunblaðinu fyrir 30 árum eða svo.

En þá komum við að kaflanum um alþjóðamál. Þar er ýmislegt merkilegt að finna. Á bls. 11 stendur hér: „Með þátttöku okkar í Atlantshafsbandalaginu erum við Íslendingar beint og óbeint þátttakendur í ýmsum afvopnunarviðræðum.“

Hér er talað eins og við séum nýlenduríki undir stjórn æðri máttarvalda. Undirlægjuhátturinn í öllum þessum kafla er svo yfirgengilegur að þegar maður hefur lesið nokkra stund fer maður að efast um að Íslendingar séu yfir höfuð sjálfstæð þjóð.

Á bls. 13, og ég tala í símskeytastíl vegna þess að ég skil mjög vel að þreyta sé farin að sækja að mönnum, er kafli um Sameinuðu þjóðirnar. Stundum er erfitt að sjá heila brú í íslenskri utanríkisstefnu. Ég er hér með í höndunum skýrslu um þátttöku Íslands í 41. allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í september til desember 1986. Þar segir á bls. 59 frá tillögu um efna- og sýklavopn og taldir upp flytjendur, fjölmörg ríki, og þar á meðal Ísland. Efni, segir hér í stuttu máli, með leyfi forseta:

„Áréttuð er nauðsyn þess að ríki virði til hins ýtrasta gildandi alþjóðasamninga um bann við efna- og sýklavopnum og fordæmd eru hvers kyns brot gegn þeim.“ - Fordæmd. - „Skorað er á afvopnunarnefndina að hraða samningum í átt til fjölþjóðasamnings um algjört bann við þróun, framleiðslu og birgðasöfnun efnavopna og um útrýmingu núverandi birgða.“

Þetta er ánægjuleg stefnubreyting frá því í maí í vor. Þá lýsti Matthías Mathiesen hæstv. utanrrh. því yfir með tilkynningu sem hann sendi frá sér að Íslendingar muni ekki mótmæla staðsetningu tvíþátta eiturvopna í Evrópulöndum sem Bandaríkjamenn hafa beðið NATO-ríkin að samþykkja, svo fremi þau verði ekki staðsett á Íslandi.

Ég hlýt að spyrja hæstv. ráðh.: Hefur orðið algjör stefnubreyting frá því í maí í vor og þangað til í september til desember eða er þetta bara eitthvað sem menn taka þátt í án þess að meina nokkuð með því?

Ég átta mig ekki á samhengi þessara tveggja mála. Það verður að segjast eins og er að ég las það í dönskum blöðum í maí s.l. vor að fyrirhugaður væri fundur fastanefndar NATO innan tveggja daga sem átti að fjalla um staðsetningu tvíþátta eiturefnavopna í Evrópu sem Bandaríkjamenn höfðu beðið NATO að samþykkja. Ég hringdi í utanrrn. og spurðist fyrir um hver mundi verða afstaða Íslendinga. Einhver mannaskipti höfðu orðið í ráðuneytinu eða einhverjar slíkar skýringar fékk ég, nema mér var vísað frá manni til manns, en eftir stóð að augljóst var að það vissi enginn um að það átti að taka þetta mál fyrir. Það kom í ljós að fastafulltrúinn ætlaði ekki að sækja fundinn heldur einhver staðgengill hans og svo var að skilja að menn hefðu ekki mikinn áhuga á að hafa mótaða stefnu í þessu máli á þessum umrædda fundi. Að honum loknum gaf svo hæstv. utanrrh. út þá yfirlýsingu, að Íslendingum væri nokkuð sama þótt þetta væri sett niður í Evrópu, bara ef það væri ekki á Íslandi. Það hjákátlega í því máli var reyndar að þessi efni, þessi tvíþátta eiturefni, eru nefnilega hættuleg öllum öðrum en þeim þjóðum eða þeim löndum þar sem þau eru staðsett vegna þess að þau gera engan skaða fyrr en þau eru send af stað. Þannig er lítið hald í því og lítil hjálp fyrir Íslendinga þó þau væru ekki á Íslandi. Það hefði næstum því verið betra að hafa þau hér ef menn eru fyrst og fremst að hugsa um að verða öllum öðrum til skaða en sjálfum sér.

Þannig er stundum erfitt að átta sig á hvernig mótun utanríkisstefnu Íslendinga fer fram og hvernig hún er framkvæmd.

Í sambandi við skýrslu fastanefndar Sameinuðu þjóðanna vil ég líka gagnrýna að hér eru ávarp og ræður Péturs Thorsteinssonar og hæstv. utanrrh. á enskri tungu. Það getur ekki verið ofverkið utanrrn. að láta a.m.k. fylgja þýðingu með fyrir þær dauðlegar verur sem ekki eru mjög vel læsar á flóknar ræður á enskri tungu. Ég vil því mælast til þess að næst þegar þessi skýrsla kemur út verði hún á móðurmálinu.

Ég ætla ekki að gera hér að umræðuefni kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum. Það hefur þegar verið gert á mjög viðunandi hátt í dag og ég ætla ekki að tefja menn á að endurtaka það.

Ég ætla að víkja síðast að Norðurlandasamvinnu, en vil gera aðeins að umræðuefni málefni fjarlægra heimshluta. Þessi kafli er satt að segja ekki boðlegur nokkru þjóðþingi. Það hvarflar ekki að mér að starfsmenn utanrrn. viti ekki meira um meginvandamál hinna ýmsu þjóða heimsins en hér kemur fram, því að af þessum sex eða átta síðum er ekki að sjá að þeir sem þennan kafla sömdu hafi lesið svo mikið sem Newsweek eða Time. Hér eru setningar sem minna mann á, ja, ég veit ekki hvað.

Svo ég vitni í einstakar setningar um Austurlönd fjær. Hér segir, með leyfi forseta: „Í styrjöld Írana og Íraka gengur á ýmsu.“ - Mig minnir að hún amma mín segði einhvern tímann um heimsstyrjöldina síðari: „Óskapleg læti eru þetta í mönnunum.“ Þetta er setning á borð við það. Þetta er ekki hægt að bjóða í alvarlegri skýrslu til Alþingis um utanríkismál.

Hér segir enn fremur á bls. 32: „Ekki bólar enn á stjórnmálalegri lausn þeirrar ömurlegu stöðu sem nú er í Líbanon og ræðast deiluaðilar varla við.“ Þetta er ekki mikið upplýsandi skýrslugerð.

Það sem kannske verra er, það er mikill munur gerður á þjóðum. Öll umræða um þriðja heiminn er miklu stuttaralegri, litið sem ekkert vikið að raunverulegri pólitískri stöðu þannig að mér finnst skína í gegn ákaflega óskemmtileg fyrirlitning og fordómar gagnvart þeim þjóðum sem eru ólíkastar okkur. En í stuttu máli: Það er ekkert gagn að þessum upplýsingum. Svona lítið vitum við ekki á Alþingi Íslendinga um gang heimsmála.

Ég má til að lesa eina setningu enn á bls. 33 um Kína þar sem býr milljarður manna:

„Aðalritari Kommúnistaflokksins, Hu Yaobang, sagði af sér og játaði ýmiss konar mistök. En hinn aldni leiðtogi Deng Xiaoping er enn valdamesti maður landsins, og hefur hann lýst yfir því, að „opnunarstefnan“ í efnahagsmálum verði óbreytt.“ - Frásögnin um ástandið í stjórnmálum Kína er hér í átta setningum.

Ég vil spyrja þá góðu menn í utanrrn.: Hvað haldið þið að við séum? Ég er næstum því viss um að það er jafnstór kafli um íslensk utanríkismál í sams konar skýrslu í Kína.

Herra forseti. Ég skal nú mjög reyna að stytta mál mitt. Ég ætla heldur ekki að gera að umræðuefni smánarlega frammistöðu Íslendinga varðandi þróunaraðstoð, það er óþarfi að endurtaka það. Ég ítreka hins vegar aðeins skoðanir mínar á hvalveiðimálum Íslendinga sem ég tel að hafi orðið okkur til lítils sóma. Við, sem höfum dregið í efa gildi hinna vísindalegu hvalarannsókna og sannsögli hæstv. sjútvrh. varðandi sölu hvalafurða sem enginn hefur fengið að vita hverjar eru, hvert þær eiga að fara eða hvenær, bíðum auðvitað eftir að fá upplýsingar um það. En mikilvægt er fyrir Íslendinga að halda þá alþjóðlegu samninga sem við erum að gera. Við höfum öll haft mikið traust á hafréttarsáttmálanum og reynum að fara að honum nema í þessum málum þar sem ég tel að viss ákvæði í honum hafi verið brotin. En það er enginn tími til að ræða það mál hér, enda ævinlega erfitt vegna þess að þetta hvalveiðimál og hvalveiðibann virðist vera meira tilfinningalegs eðlis heldur en vitsmunalegs og hefur þess vegna verið nokkuð erfitt að ræða það af einhverju viti.

Varðandi samskipti annarra þjóða við Ísland um fiskveiðiréttindi vil ég leggja áherslu á, sem ég og gerði á þingi Norðurlandaráðs sem nýlega var haldið í Helsinki, að Íslendingar verða að krefjast þess að norrænar þjóðir hafi raunverulegt samstarf við Íslendinga um nýtingu sameiginlegra fiskistofna. Við höfum gagnrýnt hér á Alþingi nokkur veiðiheimildir Norðmanna til Sovétríkjanna í lögsögu sinni fyrir norðan Noreg án þess að Íslendingar væru þar hið minnsta hafðir með í ráðum, þó að enginn deili um að þarna séu sameiginlegir fiskstofnar, og við eigum heldur ekki að taka á Grænlendingum með neinum silkihönskum varðandi veiðiheimildir þeirra til Efnahagsbandalagsins. Þarna verður að ríkja gagnkvæmur heiðarleiki. Ég er ekki að segja að neitt ólöglegt hafi farið fram, en ef norræn samvinna á að vera einhvers virði þá er ekki síst ástæða til þeirrar samvinnu varðandi nýtingu auðlinda hafsins og verndun stofna.

Ég ætla þá að lokum, herra forseti, aðeins að víkja að skýrslu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs. Ég vil taka undir það sem hér hefur fram komið áður í dag að ég tel skýrslugerð um norrænt samstarf afar ófullkomna. Hér liggur fyrir skýrsla okkar þm. Norðurlandaráðs. Frá ráðherranefndinni er hins vegar svo til ekkert að finna, örstuttur kafli í skýrslu hæstv. utanrrh. og það sem mér finnst nú kannske enn þá verra er að hæstv. samstarfsráðherra, Halldór Ásgrímsson, hefur ekki svo ég viti haft tíma til að vera hér í dag til að hlýða á umræður um norræna samvinnu. Ég tel þetta gjörsamlega óviðunandi og vil fara fram á það að á næsta þingi fái skýrsla um norrænt samstarf, bæði um þingmannasamstarfið og ekki síður um það sem snýr að norrænum ríkisstjórnum, og þá ekki síst hinni íslensku, að vera sérstakt mál hér á þingi svo að fram geti farið alvarlegar umræður um norræna samvinnu.

Sannleikurinn er sá að sú starfsemi þingsins, þ.e. norræn samvinna, hefur í raun og veru verið einkamál okkar sem erum fulltrúar á þingi Norðurlandaráðs. Ég vil hins vegar taka fram að hún er ekkert illa komin í okkar höndum. En það er fráleitt að alþm. aðrir geti þar með nokkurn veginn tekið sér frí frá því að hugsa um norræna samvinnu og treysti okkur sjömenningunum til þess að sjá um hana alfarið. Þessi starfsemi er miklu merkari en svo að Alþingi eigi ekki að vita hvað þar fer fram.

Ég vil taka undir orð hv. 3. þm. Reykn. Kjartans Jóhannssonar sem orðaði gildi norrænnar samvinnu betur en ég geri á þessum tíma sólarhrings. Ég held hins vegar að norræn samvinna standi á nokkrum tímamótum og ég vék að því í ræðu minni í almennu umræðunum á þinginu í Helsinki. Við getum litið nokkuð ánægð yfir farinn veg varðandi samstarf Norðurlandaþjóða. En heimurinn breytist og þess vegna held ég að Norðurlandasamvinna verði líka að breytast.

Ég lagði á það áherslu í ræðu minni að í æ meira mæli eru alþjóðasamtök að taka ákvarðanir sem snerta líf norrænna þjóða ekki síður en annarra, innan Efnahagsbandalagsins, innan EFTA, innan Evrópuráðsins, hvar sem er. Danir eru eins og kunnugt er þegar aðilar að Efnahagsbandalaginu, stór spurning hvort Noregur er ekki á leiðinni þangað líka, og það er auðvitað tómt mál að ímynda sér að við getum haft nokkur minnstu áhrif á þróun mála nema við styrkjum norrænt samstarf, komum okkur upp skrifstofu eða ráði, þar sem Norðurlandaráð hefði á sínum snærum færustu menn í alþjóðapólitík, í alþjóðlegum efnahagsmálum, sem bókstaflega hefðu það embætti að fylgjast með þróun alþjóðamála. Ef Norðurlandaráð breytir ekki starfsemi sinni að þessu leyti en vill samt vera afl sem hefur einhver áhrif á gang alþjóðamála, þá held ég, hvort sem okkur líkar betur eða verr, að við verðum gjörsamlega máttvana og allt aðrar þjóðir taki fyrir okkur ákvarðanir.

Ég held að það sé mjög mikilvægt að norrænar þjóðir geri sér ljóst hvaða hlutverk þær geta haft. Það er vitað að í dag eru Bandaríkin miklu lengra komin en Evrópa og Japan í tæknilegum efnum. Mikill kraftur hefur farið í landbúnaðarmál innan Efnahagsbandalagsins. Þar hefur 2/3 af þessum 2%, sem rannsóknarhliðin hefur fengið, verið eytt í þann málaflokk. Ég velti upp þeirri spurningu hvort Norðurlöndin gætu ekki einmitt einbeitt sér að því sem vantar í tæknirannsóknir í Evrópu og lagt á það höfuðáherslu. En til þess þarf mótaða stefnu.

Sjálf tel ég norræna samvinnu mjög mikilvæga og hafa sýnt það hvert gagn er að henni. En við getum ekki haldið áfram eins og við höfum gert hingað til. Það hefur sýnt sig að þrátt fyrir sáttmála um að utanríkismál skuli ekki rædd innan ráðsins, þá hafa þau náttúrlega beint og óbeint bókstaflega orðið umræðuefni ef ekki í ráðinu þá til hliðar við það og raunar innan ráðsins sjálfs.

Eitt er það atriði sem mér þykir mikilvægt ef við eigum að taka norræna samvinnu alvarlega. Það er að öll löndin hafi sendiráð hvert hjá öðru. Þau hafa það með einni undantekningu. Það er ekkert íslenskt sendiráð í Helsinki. Þetta þykir mér gjörsamlega óhæft. Vissulega hef ég séð þau rök að vegna mikilla viðskipta væri Íslandi nauðsynlegra að setja ný sendiráð niður annars staðar. Ég held þó að rekstur eins sendiráðs geti varla sett íslenskan efnahag úr skorðum. Það er með öllu ósæmandi að Íslendingar hafi ekki sendiráð í löndunum innan Norðurlandaráðs og ég skora á hæstv. utanrrh. að taka það mál til rækilegrar endurskoðunar.

Herra forseti. Ég skal ljúka máli mínu. Ég geri ráð fyrir að þeir félagar mínir í Íslandsdeild Norðurlandaráðs, hv. þm. Eiður Guðnason og Páll Pétursson, hafi gert grein fyrir flestum þeim málum sem við höfum verið að fást við á liðnu ári og ætla þess vegna ekki að fara út í þá sálma, en legg áherslu á að Íslendingar sýni þann kjark og þor að geta staðið við hliðina á öðrum Norðurlandaþjóðum í þeim málum sem skipta nú hvað mestu máli, sem eru afvopnunarmálin, og hugi vendilega að því á hvern hátt Íslendingar geta verið hvatar að því að efla norræna samvinnu og breyta stefnu norrænna þjóða varðandi samskipti við umheiminn, bæði pólitískt og efnahagslega.

Ég hef lokið máli mínu, herra forseti.