12.03.1987
Sameinað þing: 63. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4054 í B-deild Alþingistíðinda. (3680)

Almennar stjórnmálaumræður

Félagsmálaráðherra (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Góðir tilheyrendur. Þegar gengið var til kosninga fyrir réttum fjórum árum var við mikla erfiðleika að glíma í íslensku þjóðlífi. Aflasamdráttur og verðfall á erlendum mörkuðum á árinu 1982 mögnuðu verðbólguna. Samstaða náðist ekki í þeirri ríkisstjórn sem þá sat um nauðsynlegar aðgerðir. Hraði verðbólgunnar mældist rúmlega 130% á tímabilinu febrúar til apríl 1983. Úrslit kosninganna voru þau að Framsfl. tapaði nokkru fylgi. Forustumenn flokksins drógu þá ályktun af úrslitunum að flokkurinn ætti að halda sig utan ríkisstjórnar. Þegar stjórnarmyndunarviðræður höfðu staðið í nær tvo mánuði varð öllum ljóst að Alþb. og Alþfl. höfðu ekki þann pólitíska kjark sem þurfti til að takast á við og leysa þau vandamál sem þjóðin glímdi við.

Þótt samstjórnir Sjálfstfl. og Framsfl. hafi ekki verið óskastaða Framsfl. voru hagsmunir þjóðarheildarinnar settir ofar. Ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar tók við valdataumum og setti sér það markmið að kveða verðbólguna í kútinn án þess að stofna atvinnuöryggi í hættu eða draga úr félagslegu öryggi í þjóðfélaginu. Ríkisstjórnin einsetti sér að ná tökum á efnahagsmálum í góðri samvinnu við aðila vinnumarkaðarins og bæta kjörin án þess að allt færi úr böndum að nýju. Ábyrgir kjarasamningar hafa skilað okkur fram á veginn, verðbólgan á síðasta ári reyndist 13% og atvinnuleysi nær óþekkt.

Á árinu 1986 var mikil aukning á þjóðarframleiðslunni á Íslandi og meiri en í nokkru öðru vestrænu ríki. Ráðstöfunartekjur launafólks hafa aukist verulega s.l. tvö ár. Framsfl. biður um umboð kjósenda til að halda þessari traustu uppbyggingu áfram.

Einn þeirra málaflokka sem mikið hafa verið til umræðu á kjörtímabilinu eru húsnæðismálin. Á því hefur verið klifað að ekkert hafi verið gert og ríkisstjórnin látið reka á reiðanum. Þess vegna er ekki úr vegi við lok kjörtímabilsins að rifja upp hvaða bylting hafi átt sér stað í þessum málaflokki, en ástand húsnæðismála eftir stjórn Alþb. og Alþfl. var vægast sagt hörmuleg. Í september 1983 ákvað ríkisstjórnin 50% hækkun á lánum byggingarsjóðs frá og með janúar 1984. Lánshlutfallið var hækkað úr 15% í 30% af verði staðalíbúðar. Frá nóvember 1983 og fram í janúar 1984 voru veitt tæplega 5000 sérstök viðbótarlán til að létta greiðslubyrði húsbyggjenda. Í maí 1984 voru samþykkt ný lög um Húsnæðisstofnun ríkisins. Með þessum nýju lögum var lánstími lengdur úr 26 í 31 ár, og lán til kaupa á eldra húsnæði úr 16 í 21 ár. Margar aðrar mikilvægar breytingar voru gerðar ekki síst til að auðvelda byggingu á húsnæði fyrir aldraða og öryrkja. Á árinu 1984 jukust heildarútlán Húsnæðisstofnunar ríkisins um 46% að raungildi miðað við árið 1983. Í júní 1985 afgreiddi Alþingi svo lög um greiðslujöfnun fasteignalána.

Mikilvægasta aðgerðin í húsnæðismálum er tvímælalaust samkomulag aðila vinnumarkaðarins og ríkisstjórnarinnar í sambandi við kjarasamningana í febrúar 1986. Í kjölfar þeirra voru sett lög um nýtt húsnæðislánakerfi sem tók gildi 1. sept. s.l. Þetta nýja kerfi byggir á samræmdri þátttöku lífeyrissjóðanna. Með nýja kerfinu tvöfaldaðist fjárhæð almennra byggingarlána. Lánstíminn lengdist úr 31 í 40 ár og greiðslubyrði lána lækkar. Lán til kaupa á notuðu íbúðarhúsnæði þrefaldaðist miðað við það sem áður var. Í fyrirkomulaginu felst verulegt hagræði því nú fæst um 70% af verði staðalóúðar lánað á einum stað og unga fólkið sem er að koma inn á húsnæðismarkaðinn hefur nú meiri möguleika á að eignast eigið húsnæði.

Staðreyndirnar í húsnæðismálum eru þessar:

Á valdatíma núverandi ríkisstjórnar hafa útlán Húsnæðisstofnunar ríkisins hækkað að raunvirði úr 2 milljörðum kr. 1982 í 5,5 milljarða kr. 1987. Hæstu nýbyggingarlán hafa hækkað úr 15% í 70% af verði staðalíbúðar. Lán til kaupa á notaðri íbúð hafa hækkað úr rúmlega 500 þús. kr. í um 1700 þús. kr., eða þrefaldast til þeirra sem eru að kaupa í fyrsta sinn.

Við upphaf kjörtímabilsins átti fjöldi íbúðareigenda í greiðsluvandræðum vegna misgengis launa og lánskjara. Ríkisstjórnin greip til margvíslegra aðgerða til að koma til móts við þennan hóp.

Ráðgjafarstöð Húsnæðisstofnunar hefur afgreitt um 7000 lánsumsóknir og samkvæmt upplýsingum hennar hefur u.þ.b. 2 milljörðum kr. á núverandi verðlagi verið varið með einum eða öðrum hætti til aðstoðar þessum hópi húseigenda. Ekki til að auka við greiðslubyrðina heldur til að létta hana eins og margoft hefur verið sýnt fram á.

Það er óhætt að fullyrða að aldrei áður hefur verið gert jafnstórt átak í eflingu upplýsingamiðlunar um húsnæðis- og byggingamál og í tíð núverandi ríkisstjórnar. Því starfi er haldið áfram og verður aukið. Mikilvæg breyting á húsnæðiskerfinu felst þó í gjörbreyttri aðstöðu lántakenda. Nýja fyrirkomulagið felur í sér að fólk á fyrst að sækja um lán og gera grein fyrir áformum sínum og greiðslugetu, áður en það hefst handa að öðru leyti. Þegar það hefur fengið skriflegt lánsloforð frá Húsnæðisstofnun þar sem tekið er fram hver sé upphæð lánsins og hvenær það komi til útborgunar er hægt að hefja framkvæmdir. Með þessum hætti á fólk að geta stillt saman útborganir lána og innborganir samkvæmt kaup- og sölusamningum og gert samning við viðskiptabanka.

Ég hef orðið þess áskynja að þessi breyting fellur flestum vel í geð, ekki síst unga fólkinu. Það vill geta gert áætlanir fram í tímann og treyst því að þær standist, en lánsloforðin eru verðtryggð. Stjórnarandstaðan, sérstaklega Alþfl., hefur haft allt á hornum sér varðandi nýja húsnæðiskerfið. Hlutdeild aðila vinnumarkaðarins er gagnrýnd og gerð tortryggileg. Látið er í það skína að umsóknir séu það margar að lánakerfið sé sprungið vegna þess að byggingarsjóðirnir hafi ekki fjármagn til að sinna öllum umsóknum og biðtími eftir láni sé óeðlilega langur. Flumbrugangurinn í málflutningi og skilningsleysið á nýja lánakerfinu og niðurrifsaðgerðir eru sérstaklega áberandi hjá forustumönnum Alþfl. Þeir telja að auka verði lánveitingar byggingarsjóðanna t.d. í 8 milljarða kr. á ári. Hver skyldi þróun fasteignaverðs verða ef 8 milljörðum kr. verður dælt inn á fasteignamarkaðinn á ári? Og hvernig ætli ástandið í byggingariðnaðinum verði sem nú þegar annar ekki eftirspurn vegna nýbygginga? Hvaðan ætla þeir Alþýðuflokksmenn að taka fjármagnið? Það koma engin svör. Og hvernig á að koma í veg fyrir allt of mikla þenslu? Engin svör.

Nei, góðir áheyrendur. Málflutningur af þessu tagi er ómerkilegur og óábyrgur kosningaáróður. Kjarni málsins er sá að núverandi ríkisstjórn hefur gjörbylt húsnæðislánakerfinu í samvinnu við og fyrir fólkið í landinu. Það er ljóst að með því samkomulagi sem gert hefur verið við aðila vinnumarkaðarins og lífeyrissjóðina hefur fjárhagsaðstaða byggingarsjóðanna verið tryggð. Tal um annað er út í hött. Unnið er að því að tengja banka og sparisjóði húsnæðislánakerfinu. Þær breytingar, sem við erum að gera á þessum málum þjóðarinnar, eru mjög róttækar. Þegar þær eru um garð gengnar með nauðsynlegum reynslutíma og lagfæringum getur Ísland talist til þeirra þjóða þar sem þegnum er gert það fært að eignast þak yfir höfuðið án þess að leggja lífshamingjuna að veði.

Næsta verkefni í húsnæðismálum verður heildarendurskoðun félagslega hluta íbúðarlánakerfisins í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins, eins og samkomulagið frá 1986 gerði ráð fyrir.

Góðir tilheyrendur. Ég hef af augljósum ástæðum helgað húsnæðismálum verulegan hluta af ræðutíma mínum hér í kvöld. Fulltrúar Framsfl. á Alþingi og í ríkisstjórn hafa að sjálfsögðu látið sig skipta alla þætti félagsmála á því kjörtímabili sem senn er á enda. Á kjörtímabilinu hefur verið gert sérstakt átak í málefnum fatlaðra. Fylgt hefur verið þeirri stefnu að byggja upp svæðisbundna þjónustu fyrir fatlaða og hefur það gjörbreytt aðstöðu þeirra og öryggi. Nýtt heimili fyrir fjölfötluð börn tekur til starfa í Reykjavík á miðju árinu. Greiningarstöð ríkisins er tekin til starfa. Réttur öryrkja og fatlaðra að húsnæðislánakerfinu hefur verið stóraukinn.

Á kjörtímabilinu voru sett ný sveitarstjórnarlög sem fela í sér aukið vald og ábyrgð sveitarfélaga. Mikilvægt er að frjálslynd umbótaöfl taki þátt í mótun framkvæmdar þessara nýju laga sem geta haft mikil og heillavænleg áhrif til raunhæfrar byggðaþróunar í landi okkar. Undirbúningur er þegar hafinn við það að koma upp fyrstu stjórnsýslumiðstöðinni úti á landi sem verður staðsett á Akureyri. Áherslu ber að leggja á að slíkar miðstöðvar rísi í öllum landshlutum.

Góðir áheyrendur. Framsfl. var í öndverðu vaxinn upp af þjóðlegri rót og stofnsettur sem umbótaflokkur til stuðnings lífsbaráttu fjöldans. Honum var strax í upphafi ætlað að vera í fararbroddi framfaranna á pólitíska sviðinu og vera vernd og skjól sjálfsbjargarfélagsskapar fólksins í baráttu þess fyrir framförum, efnalegu sjálfstæði og aukinni menntun. Í dag vill þjóðin umfram allt annað trausta stjórn efnahagsmála. Það er forsenda þeirra félagslegu umbóta sem við framsóknarmenn stefnum að. Við göngum til komandi kosninga undir kjörorðinu: Festa, ábyrgð og framfarir.

Ég þakka áheyrnina og óska landsmönnum allra heilla.