12.03.1987
Sameinað þing: 63. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4062 í B-deild Alþingistíðinda. (3682)

Almennar stjórnmálaumræður

Fjármálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Þetta er síðasti eldhúsdagur á þessu kjörtímabili. Þjóðin gengur til kosninga nú í vor. Við þessar kosningar stendur þjóðin frammi fyrir einföldum og skýrum kostum. Sennilega hefur þjóðin sjaldan staðið frammi fyrir jafnskýrum kostum. Það er hægt að velja tvenns konar ríkisstjórn. Það er hægt að velja ríkisstjórn þar sem Sjálfstfl. er í lykilhlutverki og það er hægt að velja ríkisstjórn þar sem vinstri flokkarnir taka höndum saman. Það er hægt að velja um tvær leiðir í þessum kosningum. Það er hægt að velja um leið festu og lágrar verðbólgu og það er hægt að velja leið vinstri stjórnar, verðbólgu og kjaraskerðingar. Þetta eru þeir tveir skýru kostir sem fólkið í landinu fær að velja á milli í þeim kosningum sem í hönd fara.

Við höfum haft nokkrar vinstri stjórnir í þessu landi þar sem Alþfl., Alþb. og Framsfl. hafa starfað saman. Um nokkurra ára skeið störfuðu Hannibalistar í vinstri stjórn, en þeir eru nú í forustu Alþfl. Það er ekki tilviljun að vinstri stjórnin 1956-1958 kom þjóðinni fram af bjargbrún óðaverðbólgunnar. Það er ekki tilviljun að viðreisnarstjórnin rétti efnahag þjóðarinnar við og kom efnahagslífi þjóðarinnar í jafnvægi. Það er ekki tilviljun að vinstri stjórnin 1971 kom verðbólgunni yfir 50%. Það er ekki tilviljun að stjórnin undir forustu Geirs Hallgrímssonar sem þá tók við náði aftur tökum á verðbólgunni. Það er ekki tilviljun að þrjár ríkisstjórnir á árunum 1978-1983 komu verðbólgunni upp í 130 stig. Og það er ekki tilviljun að ríkisstjórnin sem starfað hefur undanfarið kjörtímabil þar sem Sjálfstfl. hefur verið í lykilhlutverki kom verðbólgunni aftur niður á það stig sem var á viðreisnartímanum. Þetta eru staðreyndirnar sem við blasa.

Það var út af fyrir sig ekki langur loforðalisti sem þessi ríkisstjórn samdi um fyrir hartnær fjórum árum. Hún samdi um það fyrst og fremst að ná verðbólgunni niður og nú við lok kjörtímabilsins skilar hún þeim árangri að hafa komið verðbólgunni úr 130% niður á sama stig og á viðreisnartímanum. Hún skilar þeim árangri að hafa komið dúndrandi viðskiptahalla í jöfnuð í viðskiptum við útlönd. Hún skilar þeim árangri að kaupmáttur er nú meiri en nokkru sinni fyrr, að kaupmáttur elli- og örorkulífeyrisbóta er hærri en nokkru sinni áður. Hún skilar þeim árangri að hafa búið til aðstæður þjóðarsáttar á vinnumarkaðnum.

Andstæðingar okkar segja stundum: Þjóðarsáttin, þetta er ekkert að marka. Verkalýðshreyfingin gaf ríkisstjórninni þjóðarsáttina. Auðvitað er það svo að hún hefði ekki tekist nema vegna víðtæks samstarfs í þjóðfélaginu, nema vegna þess að aðilar á vinnumarkaðnum tóku frumkvæði í þeim efnum eftir að ríkisstjórnin gaf tilboð um slíka þjóðarsátt með skattalækkunum 1984. En ég spyr: Ef það er satt að þjóðarsáttin sé einhliða gjöf nokkurra verkalýðsforingja til ríkisstjórnarinnar, hvers vegna gáfu þeir ekki Svavari Gestssyni slíka þjóðarsátt þegar hann sat í ríkisstjórn?

Þessi ríkisstjórn skilar þeim árangri að sparnaður hefur vaxið á hverju ári. Áður fór hann minnkandi. Þessi ríkisstjórn skilar af sér nýju staðgreiðslukerfi tekjuskatta með lægri skattálagningu og hærri skattleysismörkum. Þannig hefur náðst árangur á flestum sviðum efnahags- og fjármálastjórnar í þjóðfélaginu.

En auðvitað er það svo að við höfum ekki náð öllum markmiðum okkar. Það væri rangt að halda því fram og hrein blekking. Ég nefni hér eitt stórt dæmi, ríkisfjármálin. Þar er enn halli. Ríkisstjórnin tók þá ákvörðun að færa fórn til þess að ná þjóðarsátt, að lækka skatta og tolla til þess að auka kaupmátt án verðbólgu. Hún færði þessa fórn til að ná þessu mikilvæga efnahagslega markmiði. Ég tel að það hafi verið rétt og skynsamleg ákvörðun. En afleiðingin er sú að við glímum um nokkurra ára skeið við ríkissjóðshalla. Honum er hægt að ná niður án skattahækkana ef við höldum þannig á málum á næsta kjörtímabili að auka ríkisútgjöldin minna en heildaraukningu útgjalda þjóðarbúsins nemur. Á þennan veg getum við náð þessum markmiðum.

Við búum nú við góðæri. Þessi ríkisstjórn gekk í gegnum á fyrri hluta kjörtímabilsins dýpstu efnahagslægð sem þjóðin hefur gengið í gegnum í þrjá áratugi. Hún hefur á tveimur síðustu árum búið við mikið góðæri. Við verðum að treysta árangurinn og við megum ekki glutra þeim árangri niður sem við höfum nú náð.

Við höfum áður búið við góðæri. Við höfum áður búið við góðæri sem vinstri stjórnir glutruðu. Árið 1971 gekk yfir mikið góðæri. Þá fengum við vinstri stjórn sem misnotaði þetta góðæri sem endaði í óðaverðbólgu. Það var mikið góðæri á árunum kringum 1980 og það var notað á þann veg að erlendar skuldir jukust stórlega og stjórnin skilaði af sér 130% verðbólgu. Það skiptir þess vegna meginmáli hvernig á málum er haldið, hver árangurinn verður að lokum. Við viljum ekki glutra þessu tækifæri niður. Við viljum varðveita þann árangur sem náðst hefur. Þess vegna verður að koma í veg fyrir að ný vinstri stjórn taki hér við völdum að loknum kosningum.

Við höfum á þessu kjörtímabili gert grundvallarbreytingar á þjóðfélaginu, grundvallarbreytingar sem snerta peningakerfið, snerta atvinnufyrirtækin og snerta heimilin í landinu. Við hurfum frá daglegri gengisfellingarstefnu og tókum í þess stað upp fastgengisstefnu. Við hurfum frá gamla haftakerfinu í bankakerfinu og á peningamarkaðnum, færðum það til þess frjálsræðis sem ríkir á öðrum Norðurlöndum. Við heyrum nú forustumenn í bankakerfinu tala um að það komi að því senn að þeir fari að bjóða lán. Bankakerfið er að hætta að verða skömmtunarkerfi. Það er að verða þjónustukerfi fyrir atvinnufyrirtæki og heimilin í landinu.

Við afléttum ríkiseinokun á útvarpsrekstri, gerðum útvarpsreksturinn frjálsan. Við breyttum þeirri ákvörðun Svavars Gestssonar að greiðslukort mættu einungis forstjórar og æðstu embættismenn ríkisins nota. Við leyfðum líka heimilunum í landinu, fjölskyldunum í landinu að hagnýta sér greiðslukortin. Þannig hafa verið gerðar grundvallarbreytingar. Vildi einhver búa í þessu þjóðfélagi í dag á þann veg að það væri ekki hægt að spara? Vildi einhver búa í þessu þjóðfélagi í dag án útvarpsfrelsis? Vildi einhver búa í þessu þjóðfélagi í dag þar sem bara forstjórarnir hans Svavars Gestssonar fengju að nota greiðslukort en ekki fjölskyldurnar og heimilin í landinu? Á þann veg hafa verið gerðar grundvallarbreytingar. Það hafa verið færð völd og ábyrgð yfir til fólksins í landinu.

Stjórnarandstaðan talar gjarnan um frjálshyggju. Þeir notuðu stór orð þegar við vorum að þvinga fram útvarpsfrelsið og sögðu: Þarna er dæmið um frjálshyggjuna. Aldrei hefur hún náð jafnlangt. Þeir voru á móti greiðslukortum til heimilanna af því að það var frjálshyggja. Nú koma þeir fram fyrir fólkið í landinu og segja: Við sáum eftir því að vera á móti útvarpsfrelsinu. Þeir syngja iðrandi stef og segja: Við vildum hafa verið með. Og þeir sjá eftir því að hafa verið á móti greiðslukortunum. Þannig er málflutningur þeirra og skyldu ekki stóru orðin eiga við fleiri umbætur í þessu þjóðfélagi sem orðið hafa?

Við stöndum frammi fyrir stórum verkefnum, Íslendingar. Við viljum ekki byggja þetta land á þann veg að byggðin verði við Faxaflóa. Nei, við ætlum að byggja Ísland allt. Við þurfum að byggja upp alhliða atvinnulíf í þessu landi. Við þurfum að halda áfram framgangi í samgöngumálum. Við þurfum að byggja upp skólakerfið um land allt og trausta heilsugæslu. Við viljum búa í þjóðfélagi mannúðar og markaðsbúskapar. Við viljum búa svo um að frjálst atvinnulíf, kraftur frjáls atvinnulífs geti skapað verðmæti til þess að takast á við félagsleg verkefni, þá þjónustu sem ríkið á að veita.

Við heyrðum málflutning formanns Alþfl. Það voru stór orð og mikið af lýsingarorðum. En berum saman orð og efndir. Hann talaði mikið um ríkisfjármál og hélt því fram að í því efni mundi ekkert gerast til batnaðar fyrr en Alþfl. kæmi til valda. En stjórnarandstaðan verður að sæta því að það séu borin saman orð og athafnir á nákvæmlega sama hátt og stjórnarflokkarnir verða að sæta ábyrgð fyrir það sem þeir hafa gert.

Tökum tillögur Alþfl. Þeir fluttu 80 tillögur um kerfisbreytingar í ríkisfjármálum útfærðar í krónum og aurum, en þeir gleymdu að leggja saman og draga frá og þegar það hafði verið gert í Fjárlaga- og hagsýslustofnun kom í ljós að fjárlagahallinn væri 500 millj. kr. meiri ef tillögur Alþfl. hefðu verið samþykktar.

Og eitt lítið dæmi um það hvernig Alþfl. ætlar að skera upp hið félagslega kerfi atvinnulífsins. Talsmaður Alþfl. í fjárlagaumræðunni í vetur flutti harða ádeilu á ríkisstjórnina fyrir að setja ekki nógu mikið af fjármunum til Ferðamálaráðs og í sömu ræðu mælti hann fyrir till. Alþfl. um að leggja Ferðamálaráð niður.

Alþfl. hefur flutt tillögur um það við fjárlagagerðina að afnema niðurgreiðslur, hækka búvöruverð um 15-20%. Þeir hafa farið á fundi hjá bændum og sagt: Við viljum halda áfram niðurgreiðslum tímabundið.

Formaður Alþfl. hefur flutt tillögur um að flytja stóran hluta af kvóta fiskiskipa við Faxaflóa og á Suðurnesjum og við Eyjafjörð eitthvað annað og þannig leggja niður eða leggja meira og minna í rúst sjávarútveg á þessum svæðum.

Þeir tala um skattamálin, Alþýðuflokksmenn. Hver er reynslan af Alþfl. í skattamálum? Þeir fóru í ríkisstjórn 1978. Fyrsta verk Alþfl. í þeirri ríkisstjórn var að leggja á afturvirkan tekjuskatt. Þó höfðu þeir í kosningabaráttunni flutt sömu ræðurnar og þeir flytja núna um lækkun tekjuskatta á almenning. Þetta eru orð og efndir og það skulum við hafa í huga þegar við gerum upp hug okkar um það hverjum á að treysta.

Ég er sammála ýmsu sem Alþfl. hefur fram að færa, en meðan málflutningurinn byggist á svona hverfullyndi þarf Alþfl. örugglega að lúta mjög sterkri forustu ef hann á að vera hæfur til setu í ríkisstjórn.

Aðalatriðið er þetta: Við höfum náð miklum árangri á undanförnum árum. Við verðum að varðveita þennan árangur og byggja upp nýtt og betra þjóðfélag á Íslandi á þessum grundvelli. Við megum ekki glutra því niður.

Það er gott að vera Íslendingur í dag. Það er bjart fram undan og þess vegna höfum við ástæðu til að segja nei takk við vinstri stjórn og þess vegna höfum við ástæðu til þess að halda áfram á réttri leið.

- Góðar stundir.