12.03.1987
Sameinað þing: 63. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4072 í B-deild Alþingistíðinda. (3685)

Almennar stjórnmálaumræður

Landbúnaðarráðherra (Jón Helgason):

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Þegar Framsfl. hafði forustu um myndun núverandi ríkisstjórnar var það til að takast á við og leysa þau vandamál sem þá blöstu við um leið og unnið yrði að því með varanlegum úrræðum að treysta undirstöðu þjóðarbúsins og efla velferðarþjónustu þjóðfélagsins.

Viðureignin við verðbólguna var þar efst á blaði. Árangurinn þar hefur skipt sköpum fyrir einstaklinga, atvinnuvegi og þjóðina alla. Enginn atvinnuvegur varð jafnhart úti af völdum verðbólgunnar og landbúnaðurinn. Hjá honum bættist þá einnig við verðhrun á erlendum markaði fyrir búvörur og ýmsar fleiri erfiðar aðstæður. Við öllu þessu þurfti að bregðast skjótt og það hefur verið gert með margvíslegum aðgerðum.

Þó að slíkt sé rifjað upp þegar staðan er metin í lok kjörtímabils er það að sjálfsögðu framtíðin og stefnumörkun flokkanna um hana sem kjósendur spyrja um. Framsfl. hefur ítrekað stefnu sína í landbúnaðarmálum með samþykkt á flokksþingi á s.l. hausti. Öruggasti leiðarvísir kjósenda er þó aðgerðir flokksins á þessu sviði og samningsbundin áform um framhald þeirra.

Lögin um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum marka þáttaskil. Þar er mörkuð stefnan um að veita margfalt meira fjármagni en áður til uppbyggingar í nýjum atvinnuvegum í sveitum, jafnframt því sem lögð er áhersla á að stuðla að sem bestum kjörum bænda á meðan unnið er að þeirri uppbyggingu. Til þess að draga úr rekstrarkostnaði hefur söluskattur verið afnuminn af vélum og tækjum, framlög veitt til lækkunar á áburðarverði þannig að raunverð áburðar hefur farið lækkandi, jafnframt því sem rekstur áburðarverksmiðjunnar stefnir til frambúðar í betra horf. Lausaskuldalán voru færð frá veðdeild Búnaðarbankans til Stofnlánadeildar, vextir lækkaðir og lánstími lengdur. Hagræðingarlán voru veitt þeim bændum sem staðið hafa í framkvæmdum síðustu árin og miðuðu þær framkvæmdir við meiri framleiðslu en núverandi markaðsaðstæður leyfa. Þyngst vegur að sjálfsögðu staðgreiðsla afurðanna sem flýtti greiðslum til bænda að upphæð 700 millj. kr. á s.l. hausti sem þannig komu strax í vasa bænda í stað þess að þeir þurftu að bíða mánuðum og árum saman eftir lokauppgjöri. Og um næstu helgi munu bændur fá inn í verðlagsgrundvöll þá hækkun á launaliðum sem leiðir af hækkun lægstu launa eftir kjarasamningana í desember í samræmi við samkomulag sexmannanefndar. Ríkisstjórnin mun gera ráðstafanir til að þetta valdi ekki hækkun á útsöluverði. Allt þetta miðar að því að sem mestur hluti afurðaverðsins verði eftir sem hreinar tekjur hjá bændum og er óhætt að fullyrða að aldrei hafa verið gerðar jafnvíðtækar ráðstafanir til að stuðla að því.

Fjárveitingar til Framleiðnisjóðs hafa stutt að uppbyggingu nýrra atvinnugreina á margvíslegan hátt. Það hefur verið gert með lánum og framlögum til loðdýraræktar, fiskeldis, ferðaþjónustu og margs fleira. Jafnframt hefur undirstaða þessara atvinnugreina verið styrkt með kennslu í nýjum greinum við bændaskólana og margvíslegri leiðbeiningarþjónustu. Dæmi um það hvernig þar hefur til tekist eru: Á sviði sjúkdómavarna fyrir fiskeldi er þjónusta hérlendis nú orðin betri en gerist í Noregi og í Kollafirði er nú hafinn undirbúningur að samnorrænu rannsóknaverkefni í laxakynbótum. En þessar atvinnugreinar eru þær sem menn trúa að hafi mesta vaxtarmöguleika á næstu árum og áhugi er mikill fyrir framförum og framkvæmdum. Fleiri en nokkru sinni fyrr óska eftir að hefja minkarækt enda afkomuhorfur þar vænlegar.

Á síðustu vikum og mánuðum hefur verið unnið að mörgum þáttum landbúnaðarmála. Lokið er útreikningi á endurgreiðslu á meiri hluta þeirrar verðskerðingar á innleggi kindakjöts sem var innan búmarks á s.l. hausti og er verið að vinna að því að senda þær greiðslur til bænda. Lokauppgjör fyrir innlegg umfram búmark getur ekki farið fram fyrr en að loknu verðlagsári.

Þá er lokið við að ganga frá viðbót við reglugerð um fullvirðisrétt sauðfjárafurða fyrir næsta haust þar sem sérstaklega verður tekið tillit til þeirra bænda sem verið hafa að byggja upp bústofn sinn síðustu árin. Ákvörðun hefur verið tekin um að gera og framkvæma áætlun um útrýmingu riðuveiki á næstu tveimur árum en á miklu veltur fyrir framtíð sauðfjárræktarinnar í landinu að slíkt megi takast.

Ákveðið hefur verið að veita Framleiðnisjóði lán til þess að hann geti haldið áfram jafnöflugum stuðningi við búháttabreytinguna í landinu og áformað var þrátt fyrir þær skuldbindingar sem hann tók á sig á s.l. hausti til að hraða búháttabreytingunni og koma í veg fyrir frekari samdrátt í bústærð.

Jafnframt hafa stjórnarflokkarnir ákveðið með samþykkt ríkisstjórnarinnar að áfram verði haldið framlögum til Framleiðnisjóðs eftir 1990 svo að unnt sé að lengja aðlögunartímann. Þannig getur Framleiðnisjóður nú tekið að sér umfangsmeiri verkefni en upphaflega var ráðgert.

Nú er verið að ganga frá samningum um afurðamagn milli ríkisstjórnarinnar og Stéttarsambands bænda fyrir verðlagsárin 1988-1990 þar sem sama magn sauðfjárafurða er lagt til grundvallar svo að fullvirðisréttur einstakra framleiðenda breytist sem minnst. Hins vegar verður mjólkurmagnið aftur aukið á samningstímanum þar sem sala mjólkurvara hefur farið vaxandi að undanförnu. Fari salan fram úr þeirri áætlun sem samningurinn miðar við munu bændur líka að mestu leyti njóta þess í auknum fullvirðisrétti. Þarna er ávinningur búvörulaganna þegar að koma í ljós. Þessi staða er m.a. árangur af öflugu sölustarfi á s.l. ári sem áfram þarf að halda. Að því var einnig unnið varðandi kindakjötssölu en þar þarf að taka betur á og hefur nú verið undirbúið að halda slíku starfi áfram.

Nefnd er nú að ljúka athugun og tillögum um hagræðingu hjá vinnslustöðvum landbúnaðarins með tilliti til breyttra aðstæðna svo að kostir skipulagsins, sem þar hefur verið byggt upp, nýtist neytendum og framleiðendum sem best og er mikið í húfi að það verði ekki brotið niður. Það er nauðsynlegt að allir skilji hve mikils virði það er fyrir okkur að eiga aðgang að afurðum íslensks landbúnaðar sem framleiddar eru af grasi sem vaxið er í ómenguðum jarðvegi.

Það er ekki aðeins af þeim sökum að hagur landbúnaðarins varðar þjóðina alla heldur einnig vegna þeirrar undirstöðu sem hann er fyrir byggðina í landinu. Nefnd sem nú vinnur að tillögum að skipulagi sauðfjárræktarinnar hlýtur því í niðurstöðum sínum að taka tillit til byggðasjónarmiða og annarra slíkra aðstæðna. Í þeirri nefnd sitja fulltrúar landbúnaðarins og Byggðastofnunar en lögð hefur verið áhersla á að hafa náið samstarf við hana við framtíðarskipulagningu.

Byggðastofnun hefur nýlega skilað skýrslu sem unnin var að beiðni landbrn. og í nánu samstarfi við það um loðdýrarækt á Íslandi. Leggur sú skýrsla grundvöll að ákveðnari stefnumörkun. Byggðastofnun vinnur nú að fleiri verkefnum sem geta haft grundvallarþýðingu fyrir byggðaþróun í landinu.

Á s.l. ári var gefin út skýrsla um drög að landnýtingaráætlun með margvíslegum gagnlegum ábendingum og upplýsingum og fyrir fáum dögum samþykkti Alþingi nýja landgræðsluáætlun.

Herra forseti. Ég vil að lokum minnast á örfá mál er snerta dómsmrn.

Verið er nú að ljúka við afgreiðslu nýrra umferðarlaga hér á Alþingi. Eru í þeim margvísleg nýmæli sem eiga að stuðla að auknu umferðaröryggi en það er mál sem snertir hvern einasta íbúa í landinu.

Nýlega hafa verið afgreidd lög um breytingu á nauðungaruppboðum sem eru til mikilla hagsbóta fyrir þá sem í slíkum erfiðleikum lenda. En bætt réttarstaða er markmiðið í mörgum lögum sem sett hafa verið á þessu sviði á liðnu kjörtímabili. Auk lagasetningar hefur verið reynt að koma á margvíslegum umbótum í réttarfarskerfinu, sérstaklega með tilliti til þess að hraða afgreiðslu mála. Dæmi um þann árangur sem náðst hefur er nýlegur dómur Hæstaréttar sem kveðinn var upp í alvarlegu brotamáli sem framið var aðeins nokkrum mánuðum fyrr.

Herra forseti. Ég hef bent hér á nokkrar mikilvægar staðreyndir sem varða þann veg er Framsfl. vill fara í þessum málaflokkum. Þær eru í samræmi við önnur störf hans og stefnu í ríkisstjórninni. Þjóðin þarf á þeirri stefnu og forustu Framsfl. að halda. Það munu menn verða sannfærðir um þegar að kjördegi kemur.

Ég þakka áheyrnina.