12.03.1987
Sameinað þing: 63. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4075 í B-deild Alþingistíðinda. (3686)

Almennar stjórnmálaumræður

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Fyrst ætla ég að víkja hér nokkrum orðum að dæmalausri ræðu hæstv. fjmrh. Þorsteins Pálssonar. Hann sagði að það hefði ekki verið tilviljun að ringulreiðarverðbólgan hefði geisað í ríkisstjórninni 1979-1983. Þetta veit hann líklega vel. Hann hefur nefnilega ýmsa fréttaritara um það hvernig mál gengu þar fyrir sig. Hann hefur líklega fræðst um það af Albert Guðmundssyni, efsta manni flokksins í Reykjavík, sem var guðfaðir þessarar ríkisstjórnar. Hann hefur kannske snúið sér við á listanum á Suðurlandi og spurt Eggert Haukdal sem var stuðningsmaður þessarar stjórnar. Hann hefur kannske spurt annan hvorn ráðherrann úr Sjálfstfl. sem var í þessari sömu ríkisstjórn. Þessi ríkisstjórn var undir forustu Sjálfstfl., hvorki meira né minna. Það var Alþfl. sem var einn og óskiptur í þeirri stjórnarandstöðu.

Þorsteinn Pálsson gerði sér tíðrætt um Alþfl. og ekki að ástæðulausu. Hann lýsti því að fjárlagatillögur Alþfl. hefðu aukið halla ríkissjóðs um 500 millj. Samkvæmt þingskjölum, sem ráðherranum er velkomið að lesa og hann ætti reyndar að kynna sér betur, kemur fram að tillögurnar hefðu bætt stöðu ríkissjóðs um 1000 millj. kr. og lækkað erlendar skuldir um 1700 millj. kr.

Þorsteinn Pálsson lýsti því að Alþfl. hefði flutt tillögur um afnám niðurgreiðslna - um afnám niðurgreiðslna. Aftur ætti ráðherrann að líta í þingskjöl. Þar sést að tillögur Alþfl. hefðu lækkað niðurgreiðslur úr 760 millj. kr. í 600 millj. kr. Þetta er lækkun um 160 millj. niður í 600 millj. og minnkun á þessum lið er í samræmi við þá stefnu okkar að draga úr framleiðsluhvetjandi stuðningi en beina fénu í staðinn að vöruþróun, sölu og markaðssetningu. Þetta eru nokkur dæmi um talnameðferð fjmrh. Hér hefur talað hinn tölvísi fjmrh. Endurteknar falsanir og bull og svo talar maðurinn um traust.

Við höfum heyrt ræðu hæstv. landbrh. Það vill nú þannig til að íslenskir bændur rísa út um allt land upp til byltingar. Þeir halda stórfundi svo klukkutímum skiptir og krefjast afdráttarlausra svara um pólitík.

Við höfum líka lesið grein þingflokksformannsins í Framsfl. Það var grein sem kom í Tímanum síðsumars og hún hét, ef ég man rétt: „Landbúnaður, aðferð til að lifa.“ Aðferð til að lifa. Svo líklega sem það hljómar í dag. Hann var ekki aldeilis sammála þessu ungi maðurinn á Austurlandi sem skrifaði grein um landbúnaðarstefnuna í framsóknarblaðið Austra í janúar s.l. Greinin hans hét nefnilega: „Jarðarförin auglýst síðar.“

En hvernig er dagur í lífi bóndans núna? Eigum við að taka dæmi af ungum bónda. Hann var hvattur af kerfinu til að fjárfesta. Hann var styrktur til að byggja 60 kúa fjós. Nú er hann búinn að fá tölvustrimil í gluggaumslagi frá skrifborðsbændum við Hagatorg. Þar er honum sagt að hann fái greitt fyrir afurðir 30 kúa. Dagur í lífi þessa bónda snýst ekki um að bústofninn lifi af baráttuna við duttlunga moldar eða náttúruafla. Nei. Hver dagur í lífi þessa unga bónda snýst um það hvort fjölskyldan lifir af baráttuna við kerfið, baráttuna við tölvustrimlana og skuldbreytingavafstrið. Kerfið, sem segist vera honum til varnar, er vaxið honum yfir höfuð, það drepur kjark hans og kæfir sjálfsbjargarviðleitni. Svo mikil er landbúnaðarstefna þessarar ríkisstjórnar: Jarðarförin auglýst síðar.

En lítum á hagi fleira fólks. Hvernig er þessi dagur í lífi fiskverkakonunnar? - í tilefni af þjóðarsáttartali Þorsteins Pálssonar. Hún mætti kl. 7 í morgun og vann til kl. 7 í kvöld. Þetta gerir hún sex daga vikunnar. Hún er rekin í kaffi og úr kaffi og hún er rekin í pásu og úr pásu með glymjandi bjölluhringingum. Afköst hennar eru vegin og skráð á tölvurnar. Handbragð hennar er metið af eftirlitsmönnunum. Hún er vegin og metin og lífsstarf hennar er fest upp á töflu á kaffistofunni.

Prívat og persónulega stendur hún þannig frammi fyrir dómurum sínum, dag eftir dag, viku eftir viku og ár eftir ár allt þar til hún getur ekki meir. Hvað leitar á huga þessarar konu eftir langan vinnudag? Hún hugsar e.t.v. eins og svo margir aðrir, ekki síst á landsbyggðinni: Af hverju er þessi vinnuþrælkun í landi háu þjóðarteknanna? Sagði ekki Steingrímur um áramótin að við hefðum aldrei haft það svona gott? Aldrei. Og hún kannske spyr sig: Hvernig skyldu þeir reikna bónusinn á kaupfélagskontórnum eða í bankanum? Aldrei heyri ég bjöllurnar glymja þar. Hún kannske hugsar: Ja, kannske maður ætti að reyna að leigja eða selja húsið og flytja bara suður og breyta til? Það er líklega engin framtíð í þessu.

Svo mikið um byggðastefnu þessarar ríkisstjórnar, svo mikið um þjóðarsáttina.

Hvernig skyldi dagur í lífi sveitarstjórans í þessu plássi vera? Hvað ætli hann hafi gert í dag? Hvað ætli hafi staðið í minnisbókinni hjá honum í morgun?

1. Hringja í þingmennina út af höfninni. Pressa þá til að setja smá-pening í þilið.

2. Hringja í menntamálaráðuneytið. Pína þá til að gera upp þessa tveggja ára skuld í skólabyggingunni.

3. Hringja í þingmanninn og láta hann hringja í bankastjórann í Reykjavík og láta hann hringja í útibússtjórann hér til að lána frystihúsinu til að frystihúsið geti borgað fólkinu.

Hvað skyldi leita á huga þessa sveitarstjóra að loknum vinnudegi? Skyldi hann ekki velta fyrir sér hlutverki Alþingis, sjálfsbjargarleysi heimafólks? Skyldi hann ekki velta því fyrir sér hvort hægt sé að flytja vald á heimaslóð? Kannske spekúlerar hann: Af hverju þarf sífellt að hanga í símanum og hringja suður`? Af hverju fæ ég ekki að ráða neinu?

Svo er nú komið að það er þörf stórra byltinga í íslenskum stjórnmálum. Það þarf í fyrsta lagi að bylta stjórnkerfinu til að færa völd heim í héruð, stöðva fjármagnsflóttann og brjóta betlistafinn. Þessi völd eiga að færast til héraða og sveitarfélaga frá stöðnuðu flokka- og embættismannavaldi í Reykjavík.

Í öðru lagi þarf atvinnulífsbyltingu, gjörbreytingu á hugsunarhætti, þannig að ríkisvaldið hætti að stjórna atvinnurekstri af borðum ráðuneytanna og hagsmunasamtakanna með stjórnmála- og embættismönnum. Í staðinn á ríkisvaldið að stuðla að, það á að styðja og það á að láta fólkið um að skapa.

Til þess að koma þessum áformum í framkvæmd þarf byltingu á hugarfari, stjórnkerfi og atvinnulífi. Þetta eru háleit markmið. Ég treysti Alþýðuflokknum, sterkum og stórum flokki jafnaðarmanna, til þess að innleiða þessi nýju sjónarmið.