13.03.1987
Efri deild: 60. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4110 í B-deild Alþingistíðinda. (3700)

308. mál, jarðræktarlög

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Þar sem ég skrifaði undir þetta nál. með fyrirvara þykir mér rétt í örfáum setningum að gera grein fyrir því í hverju hann er fólginn. Hann er í sjálfu sér ekki fólginn í andstöðu við það sem hér er verið að gera, en minn fyrirvari varðar m.a. það sem segir í 5. gr.:

„Héraðsráðunautar skulu vera svo margir sem nauðsyn krefur að dómi Búnaðarfélags Íslands, enda samþykki landbrh. tölu þeirra og starfssvæði.“ Ég held að þetta eigi að vera með öðrum hætti. Ég hef tilhneigingu til að líta á a.m.k. hluta af því sem Búnaðarfélag Íslands fjallar um og starfsemi þess sem tímaskekkju og kerfisskekkju og minn fyrirvari er fólginn í þessu.

Varðandi þær brtt. sem hv. 11. landsk. þm. mælti hér fyrir, þá lýsi ég stuðningi við þær, sérstaklega það sem varðar að auka eða lengja ræktunartíma grænmetis, sem ég held að sé mjög brýnt mál, en hins vegar hefur kannske á það skort að fyrir lægju upplýsingar um það hvort hér væri um svo viðamiklar fjárfestingar að ræða að það væri nauðsyn á opinberri aðstoð til þessa. En það má rétt vera að það sé eðlilegt,að mönnum sé hjálpað af stað með þessa nýjung. Ég get út af fyrir sig fallist á það. En ef þetta er jafnlítið mál og jafnhagkvæmt, þá sýnist mér að hér sé um að ræða mjög hagkvæma fjárfestingu fyrir þá sem stunda ylrækt og framleiðslu grænmetis með þeim hætti, fjárfestingu sem mundi skila sér afar fljótt. Ég bendi bara á að þetta ákvæði gæti þá komið til endurskoðunar síðar en eins og málið er vaxið nú, þá er rétt að styðja við bakið á viðleitni af þessu tagi, einkum og sér í lagi þegar þess er gætt hversu mikla erfiðleika er við að etja í hefðbundnum búgreinum, þá er viðleitni í þessa átt af hinu góða.