13.03.1987
Efri deild: 60. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4112 í B-deild Alþingistíðinda. (3705)

79. mál, almannatryggingar

Frsm. heilbr.- og trn. (Davíð Aðalsteinsson):

Hæstv. forseti. Heilbr.- og trn. hefur haft þetta mál til umfjöllunar. Frv. gerir ráð fyrir því að fjölga fulltrúum í tryggingaráði. Heilbr.- og trn. flytur brtt. við þetta frv. Í frv. er reyndar gert ráð fyrir því að þeir fulltrúar, sem lagt er til að bætist við tryggingaráð frá Öryrkjabandalagi Íslands og Landssamtökunum Þroskahjálp verði þar með fullum réttindum. En eins og ég ætlaði að skýra hér frá, þá flytur nefndin brtt. þess efnis að umræddir fulltrúar Öryrkjabandalags Íslands og Landssamtakanna Þroskahjálpar tilnefni sinn fulltrúa hvor í tryggingaráð með málfrelsi og tillögurétti.

Það er skoðun innan heilbr.- og trn. að það sé fremur styrkur að því fyrir tryggingaráð að hafa fulltrúa þessara samtaka við umfjöllun mála í tryggingaráði.

Nefndin er einhuga í afstöðu sinni til málsins og leggur til að frv. verði samþykkt með þeirri breytingu sem ég hef gert grein fyrir.