13.03.1987
Efri deild: 60. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4113 í B-deild Alþingistíðinda. (3708)

168. mál, læknalög

Frsm. heilbr.- og trn. (Björn Dagbjartsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir áliti heilbr.- og trn. og er nál. að finna á þskj. 881 og brtt. á þskj. 882. Nefndin fjallaði um frv. á mörgum fundum og fékk skriflegar umsagnir frá nokkrum aðilum eins og um getur í nál., en nefndin varð sammála um að mæla með samþykkt frv. með þeim breytingum sem er að finna á þskj. 882.

Mál þetta er búið að vera nokkuð lengi í fæðingu þrátt fyrir að um það hafi farið margar læknishendur. Það mun hafa verið í september 1979 sem nefnd var skipuð til að endurskoða læknalög og er því alveg ljóst að meðgöngutíminn hefur verið erfiður. Líkast til hefur oft legið við andvana fæðingu og er raunar ekki útséð um að svo verði enn.

Meðferð heilbr.- og trn. var mest í því fólgin að fara yfir ítarlegar umsagnir og ræða við málsaðila. Það er svo sem skiljanlegt að um þetta séu nokkuð skiptar skoðanir. Þetta er erfitt og viðkvæmt mál og læknastéttin stór og ekki eru alltaf allir sammála þar fremur en meðal annarra stétta. Því er ekki að neita að okkur nm. virtist sjónarmiðin stundum nær því ósættanleg og virtist oft á tíðum ekki sjást nokkur leið til þess að koma mönnum saman. Þess varð þó ætíð vart að viljinn til að fá frv. samþykkt, að fá ný læknalög, var ætíð fyrir hendi og sterkur vilji vil ég segja, og metnaður viðmælenda nefndarinnar var mikill að vel væri gert. En það er nú svo stundum að það virðist ekki vera hægt að gera öllum til hæfis og þá er auðvitað að finna málamiðlunarleið og svo hefur verið í þessu tilfelli og brtt. bera þess nokkur merki. Það getur auðvitað verið að hv. Nd. treysti sér ekki til þess að standa að samþykkt málsins á þeim skamma tíma sem eftir er og er það út af fyrir sig synd þar sem svo mikil vinna hefur verið lögð í málið og það er ljóst að það mun tefjast eitthvað ef svo fer að það nær ekki fram að ganga nú. Ég vænti þess því að það fái brautargengi í hv. Nd.

Ég vík aðeins að þeim brtt. sem nefndin hefur gert. Þær eru margar hverjar hreinlega orðalagsbreytingar og tilfærslur til betri vegar. Þar má nefna að hvarvetna sem talað er um ávana- og fíknilyf í brtt. stóð áður í upphaflegu frv. ýmist eiturlyf eða önnur heiti en samkvæmt ábendingum fulltrúa Læknafélagsins og reyndar fleiri aðila er þetta heiti þessa lyfjaflokks nú orðið fast í málinu og í hinni sérfræðilegu umræðu.

Það eru ýmis skýrari ákvæði í brtt. en voru í frv. og auðvitað er nefndin sammála um að svo sé og orðalagið betra. Í brtt. við 2. gr. er gerð tillaga um breytingu á skipun nefndarinnar sem fjalla skal um leyfi til að stunda lækningar. Hefur skipan þeirrar nefndar verið færð til fyrra horfs en í frv. sem fyrir liggur var gerð tillaga um að breyta frá því sem er í gildandi lögum.

Það er víðar sem breytt er uppsetningu til bóta. Einnig er efnisbreyting eða í öllu falli skýrari ákvæði um ábyrgð lækna í 9. og 10. gr. og í 15. gr., um afhendingu sjúkragagna, eru nokkuð skýrari og afdráttarlausari ákvæði um það með hvaða hætti sjúkraskrár skulu afhentar og er því ekki að neita að það eru þó nokkuð afdráttarlausari ákvæði en er að finna í núgildandi lögum.

Að lokum er svo í 27. gr., sem kveður á um starfslok þessarar stéttar, ákvæði sem nefndin féllst á að væru til bóta í þessu efni. Nefndin var sammála um að rétt væri að þessu ábyrgðarmikla starfi fylgdu einhver ákvæði um starfslok. Hins vegar þótti sjálfsagt að þau ákvæði væru a.m.k. fyrst í stað ekki mjög afdráttarlaus og er því þetta orðalag valið sem er í brtt. Auk þess gerir nefndin tillögu um það að ákvæðum 27. gr., samkvæmt ákvæðum til bráðabirgða, verði frestað að gildistöku til 1. júlí 1988.

Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa um þetta öllu fleiri orð. Ég vil aðeins endurtaka það að það væri synd ef þessi lög eða þetta frv. dagaði uppi hér í þinginu eftir alla þá vinnu sem fram hefur verið lögð og þær fæðingarhríðir sem staðið hafa allar götur síðan 1979.