13.03.1987
Efri deild: 60. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4115 í B-deild Alþingistíðinda. (3709)

168. mál, læknalög

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir flest og í raun og veru allt sem fram kom í máli hv. frsm. nefndarinnar. Hér höfum við reynt að vinna vandasamt verk, bæði gagnvart stétt og gagnvart þolendum eða njótendum, hvort sem við viljum kalla þá, og það hefur verið unnið býsna vel í þessu máli og við höfum fengið góða aðstoð til að reyna að samræma hin ýmsu sjónarmið sem uppi hafa verið.

Í svona viðamiklum málaflokki koma auðvitað upp mörg álitamál og ég nefni það að þrátt fyrir þetta samkomulag eru auðvitað enn í huga okkar margra nm. efasemdir um sumt, t.d. um breytinguna frá upphaflega frv., í 2. gr., yfir í það sem við leggjum þó til hér vegna þess að samkomulag hefur fengist um það. Það er ábyggilega efi í okkar huga um það að sú skipan sé til bóta en um hana er samkomulag og þar af leiðandi höfum við fallist á það.

Ég vildi aðeins koma því að hér að við höfum fengið ýmsa til að fjalla um þessi mál á vegum nefndarinnar. Ég nefni það, vegna þess að ég fékk sérstakt bréf um það núna í morgun, að ein sú stofnun sem hefur kannske hvað allra mest samskipti og viðkvæmust við lækna, Tryggingastofnun ríkisins, hefur ekki verið kölluð til. Við höfum ekki leitað til hennar og okkur hefur sem sagt ekki hugkvæmst að leita til þeirrar stofnunar um ýmislegt sem þar kemur þó mjög inn á eins og varðandi vottorðagjöf og annað því um líkt. Lögfræðingur þeirrar stofnunar hefur einmitt verið að skoða þetta mál sérstaklega núna og máske ekki áttað sig á því að óska eftir því, því að það er auðvitað nákvæmlega eins að mínu viti með svona stofnanir, þær geta vitanlega óskað eftir viðtölum við nefndir alveg eins og nefndir óska eftir viðtölum við einstaka aðila, þannig að þarna er um beggja sök að ræða. Það sýnir bara hversu vandasamt þetta er að núna bara rétt á síðustu klukkutímunum er maður að fá tillögur um breytingar við þetta frv. í hendurnar frá stofnun sem kemur mjög nálægt öllum þessum málum.

Ég er ekki að leggja neitt mat á það hvernig þessar tillögur eru. Þær eru við 11. gr. frv. í sambandi við reglur um útgáfu og gerð læknisvottorða og rökstuðningur fyrir þeim er sá að flest þau vottorð sem rituð eru af læknum fara um hendur lækna Tryggingastofnunar ríkisins. Hér er nánast alfarið um að ræða vottorð sem með einum eða öðrum hætti hafa í för með sér útgjöld hins opinbera eða annarra aðila svo sem lífeyrissjóða. Segja má að lagt sé mat á nálega öll þessi vottorð af læknum Tryggingastofnunar ríkisins og sjúkrasamlaga. Því er ekki óeðlilegt að lagt sé til að tryggingayfirlæknir geti haft hönd í bagga með gerð á reglum sem varða útgáfu læknisvottorða og ég tel að það væri einungis til að auðvelda þessi mál og einfalda ef það hefði verið gert.

Sama er að segja varðandi 19. gr. Það varðar sjúkraskrárnar. Þar komum við einnig að málum sem við höfum líka rætt mikið og um það þegar verið er að gera kröfur um greiðslur á hendur almannatrygginga, hvernig Tryggingastofnun ríkisins getur farið fram á að fá að skoða sjúkraskrár gagnvart því. Ég tel þarna um eðlilegan hlut að ræða líka sem við hefðum án efa skoðað í nefndinni hefðum við fengið þetta fyrr. Það er almennt viðurkennd regla, eins og segir í rökstuðningi frá stofnuninni, að hið opinbera skuli hafa rétt til eftirlits með greiðslum vegna læknisverka og útgáfu vottorða, lyfseðla og annarra gagna sem hafa í för með sér miklar greiðsluskuldbindingar. Með öðrum hætti er vandséð hvernig hægt er að tryggja hagsmuni hins opinbera og þar með hins almenna skattborgara.

Í samningum sem nýlega voru gerðir á milli Tryggingastofnunar ríkisins og Læknafélags Reykjavíkur um sérfræðilæknishjálp er gert ráð fyrir að tryggingayfirlæknir hafi heimild til að fara á stofu sérfræðinga og skoða sjúkraskrár með tilliti til samanburðar við reikninga. Auðvitað er þar um mjög viðkvæmt mál að ræða í sambandi við þessa stétt eins og við vitum og deilumál og ágreiningsmál og jafnvel blaðamál út af því hafa komið upp varðandi reikningsskil til Tryggingastofnunar frá einstökum læknum og óeðlilegar upphæðir sem hafa þótt vera þar þó að þær kunni að hafa sínar skýringar. Einnig er í samningi við Tryggingastofnun ríkisins við heimilislækna samsvarandi ákvæði. Þannig virðist ríkja einhugur á milli læknasamtaka og Tryggingastofnunar ríkisins um það atriðið að eftirlit sé nauðsynlegt. Í þessu tilfelli hefðum við auðvitað þurft að breyta þessu frv. á þann veg og ég er auðvitað ekki búinn að sjá það að hefðum við ætlað að setja þetta inn í lagatextann þrátt fyrir samninga sem hér gilda um og er verið að geta um er ég ekkert viss um að læknastéttin sem slík hefði þá verið tilbúin að fallast á það. Ég er ekki búinn að sjá það. (Grípið fram í.) Nei, og þá hefðum við verið komin aftur í sama vítahringinn. Nei, ég er sammála hv. þm. enda höfum við ekki gert það að fara í öllu eftir þeirra tillögum í því efni eins og hann veit eins vel og ég. En þá hefðum við aftur verið komin í þann vítahring, að kanna það hvort við gætum náð samkomulagi um þessi mál og svo þá að skera á ágreiningsefni sem kynnu að vera.

Auðvitað höfum við gengið talsvert til móts við Læknafélagið í þessum brtt. okkar. Við höfum gengið talsvert til móts við þá. En við höfum líka hafnað mörgu. Við höfum líka, eins og kom fram í kynningu hv. frsm. á 2. gr., gengið býsna langt til móts við læknadeild Háskólans með því að samþykkja brtt. við 2. gr. Allt hefur þetta verið gert til þess, eins og hann tók fram, að reyna að koma málinu hér í gegn.

Ég veit ekki hvort tími gefst til þess milli umræðna að skjóta á nefndarfundum til að skoða þessar tillögur. Ég taldi hins vegar skylt, úr því að ég fékk þær í hendur frá þessari stofnun, að kynna þær hér. En tíminn er orðinn naumur og Nd. á alveg eftir að fá málið þannig að auðvitað efast maður um það að málið fái framgang í þinginu, þrátt fyrir góða vinnu okkar, því að nú kemur að nm. í Nd. og þm. þar sem trúlega hafa ekki kynnt sér þetta mál neitt til hlítar. Enn þá eru þarna atriði sem við erum ekkert tiltakanlega hrifin af í nefndinni þó að við föllumst á þetta samkomulag.