13.03.1987
Efri deild: 60. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4117 í B-deild Alþingistíðinda. (3710)

168. mál, læknalög

Karl Steinar Guðnason:

Virðulegi forseti. Það hefur farið fram drjúg vinna í heilbr.- og trn. við skoðun á þessu frv. til læknalaga. Það er einnig ljóst að nefndin hefur gegnt nokkurs konar sáttahlutverki á milli hinna ýmsu aðila sem hagsmuna hafa að gæta þarna. Hins vegar hafa nm. í góðu samkomulagi tekið af skarið þar sem þeim hefur þótt að svo þyrfti að vera.

Það kom til umræðu hér áðan að setja þyrfti nánari ákvæði hvað varðar vottorð og var vísað í tillögur sem hefðu komið frá Tryggingastofnun. Ég tel nauðsynlegt að það verði skoðað nú á milli umræðna og óska hér með eftir því að svo verði gert.

Ég tel rétt að það komi fram að kaflinn um vottorð er nýr í læknalögum. Þessi kafli var ekki í lögunum áður og ég hef spurt að því hvernig með skuli fara. Það var þá fullyrt að gefin yrði út reglugerð um meðferð og útskriftir vottorða. Ég tel þetta atriði heilmikið mál, og hef af því nokkra reynslu, bæði það að vottorð eru oft á tíðum mjög ónákvæm og líka það að þau séu verðlögð eftir því hver fær vottorðið, hvort það eru sjóðir eða einstaklingar sem vottorðin fá.

Í nefndinni var mjög rætt um afhendingu sjúkragagna. Sá texti sem kominn er fram í brtt. varð samkomulag eins og margt annað hér og ég vænti þess að betri skikkan komist á þau mál en verið hefur. Það hefur að vísu breyst nokkuð meðferð þessara mála á undanförnum 2-3 árum vegna mikillar gagnrýni sjúklinga sem ekki hafa getað togað út skýrslur frá læknum og veit ég persónulega um slík dæmi. Ég vænti þess að sú breyting sem verður og er að vísu takmörkuð verði þó ekki til þess að það sama gerist og gerst hefur í Svíþjóð þar sem fullyrt er að læknar hafi tvöfalt bókhald hvað varðar sjúkragögn, annað handa sjúklingum og hitt handa sjálfum sér.

Ég tek undir það sem hér hefur komið fram að það er mjög nauðsynlegt að frv. nái fram að ganga á þessu þingi. Ég hef samt nokkrar efasemdir um að það takist vegna þess að það eiga margir aðilar eftir að koma að því í Nd. og líklegt er að það samkomulag sem náðist í heilbr.- og trn. Ed. verði ekki flutt yfir í Nd. án einhverrar röskunar.