29.10.1986
Neðri deild: 7. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 409 í B-deild Alþingistíðinda. (374)

103. mál, tékkar

Samgönguráðherra (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Þessar fyrirspurnir snerta engan veginn efni þessa litla frv. sem er nánast samræming og leiðir af fyrri gerðum Alþingis. En lögin um Seðlabankann taka gildi 1. nóv. og það er verið að ganga frá síðustu vinnu í sambandi við reglugerð um starfsemi Seðlabankans um vaxtamálin almennt. Ég get ekki á þessu stigi fullyrt neitt um þá þróun sem

verður. Við verðum að meta það og vega. Hins vegar, þó að það ríki frelsi í viðskiptabönkunum, held ég að ríkisbankarnir verði fyrst og fremst að vísa veginn í þeim efnum. Samkvæmt lögunum um viðskiptabanka, sem tóku gildi 1. jan. s.l., ber að leggja fyrir bankaráðin vaxtamálin. Í bankaráðunum eru kjörnir fulltrúar Alþingis og sumir hverjir alþm. Hvort sem mönnum líkar það eða ekki hefur það þó orðið ofan á í allmörgum flokkum. Það er fyrst og fremst aðhalds að vænta frá þeim og ég fyrir mitt leyti, sem viðskrh., er reiðubúinn að vera þar með til allra aðhaldsaðgerða í vaxtamálum, en ætlast auðvitað til þess og eðlilega að fulltrúar Alþingis í stjórn bankanna gæti þess að fara vel með það vald og meti það og vegi hversu langt sé hægt að ganga á þessum sviðum.