13.03.1987
Efri deild: 62. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4126 í B-deild Alþingistíðinda. (3747)

416. mál, tollskrá

Frsm. fjh.- og viðskn. (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Hæstv. forseti. Hv. fjh.- og viðskn. hefur skoðað þetta mál og er sammála um að veita því stuðning sinn, enda er hér um nokkra tollalækkun að ræða á brýnar nauðsynjavörur.

Nefndin flytur eina brtt. Hún er um það að á tollnúmeri 70.15.00, sem nú er í 50% tolli, falli tollurinn niður. Hér er einkum um að ræða gler á úr og klukkur og varahluti sem eðlilegt er að fylgi með breytingunum á tollum á úrin. Tekjubreyting ríkissjóðs vegna samþykktar þeirrar tillögu er óveruleg.

Hér er um að ræða lítið mál en þó í rétta áttina og ég þarf víst ekki í þessari hv. deild að segja frá mínum skoðunum á hinum gífurlega háu tollum sem eru á ýmsum brýnustu lífsnauðsynjunum. Þeir verða að lækka, og hafa nú verið lækkaðir á s.l. ári nokkuð, en þar þarf auðvitað miklu meira til að koma. Þetta er þó lítið spor í rétta átt.

Eins og áður greinir er algjör stuðningur allra nefndarmanna við þetta mál. Að vísu var Sigríður Dúna Kristmundsdóttir fjarverandi og ég náði ekki sambandi við hv. þm., en ég held að ég muni það rétt að hún hafi viljað styðja þetta mál.