13.03.1987
Efri deild: 63. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4135 í B-deild Alþingistíðinda. (3758)

392. mál, almannatryggingar

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Ragnhildur Helgadóttir):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. nefnd fyrir afgreiðsluna á þessu máli og einkanlega þó ábendinguna um viðmiðunina. Ég er alveg fylgjandi þessari breytingu sem nefndin leggur til að gerð verði og ég vil skýra frá því hvernig stendur á því að viðmiðunin 1700 stundir er inni í frv. Eins og nefndin veit og hv. þm. sem lesið hafa grg. hafa áttað sig á, þá hafði nefndin sett fram þrjá valkosti þegar hún vann sitt verk og ég fékk málið í hendur, og við þá viðmiðunarupphæð sem núna er í lögum eru útreikningarnir sem fylgja frv. miðaðir. Hins vegar var það í vinnu ráðuneytisins sjálfs og minni að þegar þessar þrjár spurningar lágu fyrir sýndist mér í fljótu bragði vera rökrétt að hafa 1700 stunda viðmiðunina vegna þess að viðmiðunin 1032 stundir var miðuð í upphafi við þágildandi lagaákvæði um atvinnuleysisbæturnar, upphæðir sem voru í samræmi við atvinnuþátttöku viðkomandi tóku mið af þeim lögum um atvinnuleysistryggingar. Síðan var þeim lögum breytt 1981 og viðmiðunin færð upp í 1700 stundir. Þá var það auðvitað algjörlega ljóst að það var fjöldi manna sem missti réttindin þegar sú breyting var gerð, en ég veit ekki hvort hv. sömu þm. sögðu nokkurn hlut við því. Þarna var um verulegan hóp að ræða sem missti vissan rétt við lagabreytinguna, en á móti kom hitt að breytingin á réttinum tók algjörlega mið af hlutfallslegri þátttöku viðkomandi sem hún gerði ekki áður. Þá kom upp þessi staða, eins og hv. þm. benti á hér áðan, að sá sem tók 60% þátt í atvinnunni fékk 50% fullra bóta, þannig að þrepin voru stærri, í staðinn fyrir að hægt væri að breyta í 60%, 70% o.s.frv. og í smærri skrefum.

Að því er varðar þá athugasemd hv. þm. Helga Seljans sem þetta varðaði, þá er það misskilningur að það missi nokkur nokkurn rétt frá því sem nú er að því er þetta varðar. (HS: Frá frv. og yfir í þessa breytingu.) Já, frv., hv. þm. vildi ekki samþykkja frumvarpsgreinina. Frv. er ekki orðið að rétti, mikil ósköp. Það verður ekki bæði sleppt og haldið. En eins og breytingin er þá missir enginn eina krónu í réttindum. Það er algjörlega ljóst. En eins og fyrir liggur þá stóð það ekki til að skerða réttindi manna og því er það af hinu góða að þessi brtt. nefndarinnar verði samþykkt.

Að því er varðar þá athugasemd hv. þm. Helga Seljans sem varðar orðið sjálft, fæðingarstyrk. Ég get að vísu skilið að menn velti því fyrir sér hvort það sé einhvers konar ölmusubragð af því. Þess er þó að geta að orðið styrkur hefur verið notað um margar bætur almannatrygginga allt frá upphafi þeirra laga og þar á meðal er fæðingarstyrkur. Það orð hefur verið í tryggingalögum alveg frá upphafi án þess að heyrst hafi stuna eða hósti um að það væri óviðeigandi. Það væri hálfskringilegt að fara að komast að þeirri niðurstöðu núna að þetta sé óviðeigandi. Þetta er að vísu að sjálfsögðu aðeins smekksatriði og það má vel vera að eitthvert annað orð væri betra. Fá mannanna verk eru víst fullkomin. En hitt er annað mál að ég held nú að það mundi kannske valda nokkrum ruglingi að fara að breyta slíkum nöfnum núna af því að það er alveg ljóst hvers eðlis þetta er. Fæðingarstyrkur er fjárhæð sem greidd er öllum fæðandi konum.

Ef ég kem aftur að þessu atriði með 60% vinnuþátttöku eða 65%. Það á að vera algjörlega ljóst að fæðingarstyrkurinn að viðbættum hinum hlutfallslegu dagpeningum, eftir þeim reglum sem gilda nú í dag, samsvarar 2/3 fæðingardagpeninganna fullra, þannig að ég held að þetta mál sem þm. Helgi Seljan hafði áhyggjur af sé algjörlega í höfn nú þegar í frv. einmitt vegna fæðingarstyrksins.

Ég vil nefna það atriði sem bent var á að nú væri í reglugerð um bændakonur og námsmenn. Ég er ekki þeirrar skoðunar að það væri til bóta að festa nákvæmlega það fyrirkomulag í lög. Þarna er um takmörkuð réttindi að ræða sem ég get ekkert sagt um á þessu stigi hvort eiga einhvern tímann eftir að breytast. Þetta byggist á samkomulagi við þá sem að þessum hópum standa og er sett í reglugerð samkvæmt því samkomulagi. Það er ekkert sem hefur breytt þessu samkomulagi þannig að það er alveg ljóst að það gildir áfram. Í reglugerð, sem byggð verður á þessum lögum, þá verður þetta auðvitað látið halda sér. Það samkomulag er jafngilt núna eins og fyrir setningu þessara laga. Þetta fannst mér ástæða til að taka fram.

Að því er varðar lífeyrisréttindatap á fæðingarorlofstímanum, þá finnst mér nú ekki fullnægjandi að segja eins og hv. þm., og vitnaði hér í einn fyrirrennara minna, hv. núv. þm. Svavar Gestsson. Hann sagði jú á sínum tíma að þessa þyrfti ekki að gæta vegna þess að orlofsgreiðslurnar væru það háar að það í sjálfu sér dekkaði þennan rétt. En það er auðvitað hagsmunamál að þessi tími reiknist inn í önnur réttindi sem byggð eru á greiðslum í lífeyrissjóði og það er atriði sem verður að leysa í reglum og lögum hvers lífeyrissjóðs. Það getum við ekki leyst í svona frv. En ég er hins vegar fylgjandi því að það sé gert. (Gripið fram í.) Þetta mundi koma til greina t.d. í sambandi við rétt vegna húsnæðismála.

Að því er varðar ábendingu um að samræma þyrfti réttindi samkvæmt þessu frv. þeim réttindum sem opinberir starfsmenn hafa, þá er í greinargerð frv. einmitt fjallað um það framtíðarmarkmið að gera þetta, á grundvelli sérstaks sjóðs, fæðingarorlofssjóðs. Ég veit það að hv. þm. sem vakti athygli á þessu, Karl Steinar Guðnason, hefur takmarkaða trú á því að það gangi, en ég bið hann að hugleiða það að opinberir starfsmenn fá smátt og smátt samkvæmt þessu frv. helmingi lengri orlofstíma en þeir hafa nú. Og þá bið ég hv. þm. líka að hugleiða hvort það liggi ekki nokkuð í augum uppi að það hljóti að verða hagsmunamál fyrir þann hóp að ganga inn í þetta kerfi þegar þar að kemur. Ég er þeirrar skoðunar að svo sé og hef rætt þetta töluvert við konur sem einnig telja að svo sé.

Ég veit að það hefði e.t.v. verið hægt að draga þær lengur á þessu, þ.e. þær konur sem eru opinberir starfsmenn, eins og einhver sagði við mig. En ég held að það sé hreinlegra að ganga frá málinu eins og hér er gert. Hv. þm. veit það auðvitað að við getum ekki að óbreyttum baksjóðum þessa fyrirkomulags gengið inn í það umsvifalaust og án samráðs við aðila vinnumarkaðarins að segja að allir skuli hljóta fæðingardagpeninga jafnháa óbreyttum launum en það hlýtur að hafa verið það sem þm. átti við þegar hann sagði að að öðrum kosti yrði að samræma þetta réttindum opinberra starfsmanna, nema hann hafi átt við styttri tíma en í frv.

Þess vegna tel ég að hér sé algjörlega ljóst að bæði þær konur sem ekki komast út á vinnumarkaðinn, eins og hv. þm. sagði, eða vilja ekki fara út á vinnumarkaðinn, þær fá stórlega aukinn rétt með þessu frv. þegar það verður að lögum og einnig verkakonur og aðrar konur á hinum almenna vinnumarkaði. Þær fá líka stóraukinn rétt. Bæði eru greiðslurnar sjálfar nokkru hærri en nú er og auk þess réttindatíminn lengri þannig að að því leyti til tel ég að þetta sé mjög mikið til bóta og snúi hlutum aftur í þá áttina að verða hærri greiðslur, eins og þær voru reyndar áður en þessi lög voru sett. Þegar núgildandi lög voru sett var stórlega dregið úr rétti fjölmargra kvenna sem áttu rétt eftir fyrri lögunum og byggðist á atvinnuleysisbótagreiðslum og reglum þar um. Þær greiðslur byggðust jú annars vegar á 90 virkum dögum og svo barnafjölda. Þannig var réttur fjölmargra kvenna að krónutölu til miklu betri áður en núgildandi lög voru sett. En við erum víst sammála um það, nefndarmenn og ég, að við ætlum með þessu frv. að bæta rétt manna en ekki að taka rétt frá neinum.

Ég þakka nefndinni fyrir ábendingarnar og afgreiðsluna á málinu.