13.03.1987
Efri deild: 63. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4137 í B-deild Alþingistíðinda. (3759)

392. mál, almannatryggingar

Frsm. heilbr.- og trn. (Davíð Aðalsteinsson):

Hæstv. forseti. Vegna þess sem fram kom í máli hv. 2. þm. Austurl. um orðið „fæðingarstyrkur“, þá er það rétt að þetta heiti bar á góma í heilbr.- og trn. og sýndist kannske fleirum en færri eðlilegt að breyta því. Það skal viðurkennt að ekki varð framhald á þeirri umfjöllun í nefndinni, um það mál. Ef t.d. ætti að breyta þessu orði og tala um „fæðingargreiðslur“, eins og jafnvel hefur verið talað um, þá hygg ég að menn lendi í nokkrum vanda að nota það orð mjög víða í greininni. Þar er talað um greiðslu fæðingarstyrks, framlengja skal greiðslu fæðingarstyrks o.s.frv. Að mörgu leyti er þægilegra að hafa um þetta heiti í líkingu við „fæðingarstyrkur“. Ég sé hins vegar ekkert á móti að athuga þetta mál. Það tekur ekki langan tíma á milli umræðna ef mönnum skyldi detta í hug eitthvert snjallt orð sem skilaði sömu merkingu.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til þess að fjalla um frv., en endurtek það sem ég sagði í minni framsögu að það er heildarsamstaða um málið og mikil áhersla lögð á það af hálfu nefndarinnar að málið nái fram að ganga.