29.10.1986
Neðri deild: 7. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 411 í B-deild Alþingistíðinda. (377)

103. mál, tékkar

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég hef engin sambönd, hæstv. ráðherra, hjá þessum „okurlánasjoppustjórum“ hér á landi. Ætli það séu ekki einhverjir aðrir frekar sem hafa það? Og hæstv. ráðherra væri auðvitað sæmst að reyna að kynna sér hvernig hlutirnir eru reknir gagnvart almenningi í þeim stofnunum heldur en að vera uppi með skæting af því tagi sem hann var með hér.

Það sem liggur fyrir er það að ný seðlabankalög eiga að taka gildi eftir heila tvo sólarhringa og ef því fylgja ekki ákvarðanir um að takmarka vexti getur hafist á næstu vikum tryllt vaxtakapphlaup og það er eðlilegt að mál af þessu tagi sé tekið til umræðu á Alþingi og óhjákvæmilegt og það væri skrýtið ef þingið tæki ekki á svona máli örfáum klukkutímum svo að segja áður en þessi nýju lög eiga að taka gildi.