13.03.1987
Neðri deild: 63. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4143 í B-deild Alþingistíðinda. (3777)

318. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Deildin hefur áður fellt tvær eða þrjár tillögur sem snúa að því að taka svokallaðar kaupleiguíbúðir inn í Byggingarsjóð ríkisins. Skilgreiningin á kaupleiguíbúðum eða því hugtaki er því miður mjög óljós vegna þess að það liggur ekki fyrir hverjir eiga að eiga íbúðirnar þann tíma sem þær eru í leigu. Það er mikilvæg forsenda þess að hægt sé í rauninni að afgreiða málið. Þar sem hins vegar er um almennt heimildarákvæði að ræða að því er varðar kaflann um Byggingarsjóð verkamanna í þessari brtt. tel ég eðlilegt að þessi stafliður bætist við sem nýr stafliður, verði d-liður á eftir liðnum um húsnæðissamvinnufélög og búseturéttaríbúðir eins og þetta er nú í 34. gr. laganna. Ég tel því rétt að ákveða þetta nú, en mikið nánari útfærsla er eftir. Ég segi já.