13.03.1987
Neðri deild: 63. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4159 í B-deild Alþingistíðinda. (3786)

119. mál, umferðarlög

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Það frv. sem við erum að fjalla um hér er búið að taka ærinn tíma hv. allshn. deildarinnar og ég vil nota þetta tækifæri til að þakka bæði fulltrúa ráðuneytisins, Ólafi Walter Stefánssyni, og nefndinni fyrir mjög gagngera meðferð á þessum langa frumvarpsbálki.

Ein meginástæðan fyrir því að lögð hefur verið áhersla á að koma þessum bálki í gegnum þingið er að Íslendingar hafa ekki hingað til getað undirritað alþjóðasamning um umferð sem gerður var í Vínarborg 8. des. 1968. Milli Norðurlandanna eru gefin út sameiginleg eða gagnkvæm ökuskírteini. Íslensk ökuskírteini hafa ekki getað gilt á sama hátt og ökuskírteini annarra norrænna þjóða erlendis vegna þess að ekki hefur verið um samræmd umferðarlög að ræða.

Ég fæ ekki séð að þetta frv. eins og það er nú leysi þann vanda, a.m.k. af tveim ástæðum. Annað eru ákvæði 38. gr. um hæsta leyfilegan ökuhraða sem er 90 km í þessu frv. Á öðrum Norðurlöndum er hann einungis 80, en það skal tekið fram að í þeim löndum ákveða menn með tilliti til skilyrða að hægt sé að aka hraðar og þá er það merkt á eðlilegan hátt. En hér, ef þetta frv. verður að lögum, mega menn aka á 90 km hraða alls staðar þar sem búið er að malbika þjóðvegi. Ég held að skynsamlegra hefði verið að þetta væri ekki sjálfkrafa þannig heldur væri, annaðhvort á vegum dómsmrh. eða á vegum vegagerðar, tekið tillit til aðstæðna hverju sinni og hámarkshraði þá hækkaður en að hafa algild ákvæði um 90 km.

Ég á sæti í samgöngunefnd Norðurlandaráðs og ég verð að segja að ég hlakka ekki mikið til að vera fulltrúi þess lands sem versta vegi hefur tvímælalaust á Norðurlöndum en jafnframt hæstan hámarkshraða á þeim sömu vegum. Þannig hefði ég mjög svo kosið að við hefðum haldið okkur við 80 km, en leyft hærri hámarkshraða við ákveðin skilyrði.

Á meðan á meðferð nefndarinnar stóð gerðum við nokkur athugasemdir við ákvæðin um ökukennslu. Ég held að það geti ekki verið ósanngjarnt gagnvart nokkrum manni þó að því sé haldið fram að ökukennsla hér á landi sé miklum mun lakari en hún er annars staðar. Ökukennarafélag Íslands er fyrsti aðili til að viðurkenna það. Ég tel t.d. fráleitt að maður þurfi ekki að vera nema 21 árs, eins og hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir minntist á áðan, til þess að gerast ökukennari því að eins og hún sagði er hópurinn frá 17-22 ára stærsti áhættuhópurinn.

Hér liggur einnig fyrir brtt. á þskj. 885 frá hv. þm. Pálma Jónssyni o.fl. við breytingu á 50. gr., en þar var búið að færa niður þunga vörubifreiða, í a-lið niður í 3500 kg og í b-lið niður í 700 kg. Þetta er nú hækkað aftur vegna þess að það var talið valda mönnum miklum erfiðleikum að þurfa að fara að ganga undir próf og voru t.d. sendibílstjórar títt nefndir. Talað var um að ákvæði gæti verið um að þeir menn sem þegar hefðu réttindi mundu halda þeim, en þeim sem nýir kæmu gert að gangast undir námskeið. Ég harma þessa brtt. og mun ekki greiða henni atkvæði þó ekki væri nema fyrir það að þarna kemur aftur frávik frá þeim norrænu reglum sem ég hef áður minnst á og að ég hygg getur orðið þröskuldur í vegi þess að hægt sé að undirrita norrænan samning. Ég vil leggja áherslu á þessi tvö atriði, hámarkshraðann og þetta þyngdarákvæði.

Í umræðum í nefndinni lögðum við hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir megináherslu á, alla vega mikla áherslu á, að ákvæði yrðu sett um kennslu unglinga á bifhjól. Hvert mannsbarn veit að þau slys sem hafa orðið við akstur bifhjóla eru allt of mörg og kennsla til að aka slíkum tækjum nánast engin er óhætt að segja. Í nál. hv. formanns kemur þetta atriði fram og ég treysti því að ráðherra setji reglur um kennslu til að aka bifhjóli.

Þetta eru þau atriði sem ég vildi minnast á, eitt enn þó. Í 107. gr. eru ákvæði um náðun. Ég gerði að umtalsefni í umræðum í nefndinni að e.t.v. væri óeðlilegt að refsiákvæði væru inni í þessum lagabálki. Mér sýnist að það hefði verið eðlilegra að þau væru einfaldlega inni í almennum hegningarlögum sem sérbálkur þar. Reglur um sviptingu ökuréttinda eru mjög ákveðnar og eru nánast lögbundnar og eftir því sem mér hefur skilist er ráðherra gert mjög erfitt um vik við að veita náðun. Nú geta aðstæður verið afskaplega misjafnar. Svo að tekið sé dæmi um ölvun við akstur getur verið mikill munur á því hvort maður er að hreyfa bíl nokkra metra þó að hann hafi kannske fengið sér í glas eða hvort menn eru ördrukknir að fara langa vegalengd. Ég geri mikinn mun á þessum tveim tilvikum. En ég fæ ekki betur séð en að ótrúlega lítill munur sé á refsingum. En vegna þess að þetta er í raun og veru ekki refsilagaákvæði heldur ákvæði í umferðarlögum hefur hæstv. ráðh. lítinn sem engan rétt til að meta sjálfur hvort ástæða væri til að veita manninum réttindi. Við vitum öll hvað mikilvægt það er í lífi hvers nútíma Íslendings að hafa sín ökuréttindi. Það má hugsa sér t.d. að menn sem hafa verið teknir fyrir akstur undir áhrifum áfengis fari í meðferð og hætti algjörlega að neyta áfengis. Þá getur maður spurt hvort það sé sanngjarnt að slíkt fólk sitji uppi með margra ára sviptingu ökuskírteinis. Ég held að þetta sé eins og aðrir mannanna dómar. Þeir þyrftu að taka tillit til aðstæðna allra. Ég beini því til hæstv. ráðh., hvort sem það verður hæstv. núv. ráðh. eða sá sem við tekur, að hann hugi að þessu og leggi þá fram frv. sem taka öðruvísi á þessum málum.

Ég hef hins vegar, herra forseti, reynt að greiða fyrir því að þetta frv. yrði að lögum, þrátt fyrir ýmsar athugasemdir sem ég gæti gert við það, í trausti þess að hér sé fyrsta umfjöllun málsins, meginfrv. verði að lögum nú á þessu þingi, en hæstv. ráðh. vinni síðan að því að fara ofan í lögin og gera þær breytingar sem á þeim eru augljóslega nauðsynlegar.

Fleira hef ég því ekki að segja um þetta að sinni og ég mun greiða frv. í heild atkvæði.