13.03.1987
Neðri deild: 63. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4163 í B-deild Alþingistíðinda. (3791)

321. mál, vaxtalög

Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. frá meiri hl. fjh.og viðskn. sem er á þskj. 824. Nefndin hélt nokkra fundi um þetta mál og fjallaði ítarlega um það, klofnaði í afstöðu sinni og minni hl. mun skila séráliti. Undir nál. rita auk mín hv. þm. Páll Pétursson, Kjartan Jóhannsson reyndar með fyrirvara, Guðmundur Bjarnason, Ólafur G. Einarsson og Halldór Blöndal.

Á þskj. 825 flytjum við meirihlutamenn nokkrar brtt. Sú fyrsta gerir ráð fyrir því að alls staðar þar sem hugtakið „fjárkröfur“ eða „fjárkrafa“ kemur fyrir í frv. breytist það hugtak í „peningakrafa“. Hér er ekki um efnisbreytingu að ræða, eins og sést á grg. með frv., en kröfuréttarsérfræðingar telja að hugtakið „peningakrafa“ sé nákvæmara, enda bera peningakröfur vexti en ekki aðrar fjárkröfur.

Í 2. brtt. er gerð sú breyting og reyndar í þeirri 4. enn fremur að í stað þess að miðað sé við að vextir skuli vera jafnháir vegnu meðaltali vaxta af almennum óbundnum sparisjóðsreikningum skuli viðmiðunin vera við ársávöxtun af nýjum almennum útlánum. Þessar brtt. eru fluttar m.a. af því að sparisjóðsreikningar eru nú færri en oft áður, enda hafa innlánsform breyst nokkuð á umliðnum misserum og árum.

Við 6. gr. frv. flytjum við brtt. sem er 3. brtt. á þskj. 825 þar sem um er að ræða ákvæði um breytilega vexti til viðbótar við verðbætur þar sem tekið er fram að breytilegu vextirnir skuli vera hæstu lögleyfðu vextir eða hæstu vextir á markaðnum á hverjum tíma. Við gerum ráð fyrir því í þessari brtt. okkar að vextir sem við er miðað séu af hliðstæðum lánum hjá viðskiptabönkum og sparisjóðum sem eru í almennri notkun. Þetta er sett inn til þess að komast hjá því að auglýstir séu vextir sem ekki eru síðan notaðir en gætu verið notaðir eingöngu til viðmiðunar.

Þá er við 9. gr. gerð sú brtt. að kröfuhafi þarf ekki samkvæmt brtt. að áskilja sér rétt til dráttarvaxta. Sá réttur er ávallt til staðar ef brtt. nær fram að ganga.

Við 21. gr. frv. er enn fremur gerð till. til breytinga á þskj. 825 sem er 6. brtt. Þar er gert ráð fyrir að ákvæði II. kafla laganna, sem er kaflinn um almenna vexti, skuli taka til allra skulda sem stofnast eftir gildistöku laganna, en í frv. var gerður munur á II. og III. kafla laganna í því sambandi.

Að síðustu vil ég geta 7. brtt. á þskj. 825. Hún er til samræmis við aðrar greinar frv. að á eftir orðunum „hæstu lögleyfðu vextir á hverjum tíma“ komi orðin: eða hæstu vexti á markaðnum á hverjum tíma. Þetta er til samræmis við aðrar greinar frv.

Það er ástæða til þess, herra forseti, þegar verið er að fjalla um þetta vaxtafrv., að geta þess sérstaklega að í frv. er gert ráð fyrir í greinum nr. 7 og 15 að ákvæði nái til skaðabótakrafna. Er það nýmæli í íslenskum rétti og ber að geta þess að skaðabótaréttur er að mestum hluta ólögmæltur og er það nýlunda að ákveðin ákvæði séu tekin upp í lög að þessu tagi.

Þá er enn fremur ástæða til að benda á að í 3. mgr. 17. gr., sem er í kaflanum um viðurlög og málsmeðferð, er gert ráð fyrir hlutrænni ábyrgð þeirra fyrirtækja sem standa fyrir lánum og ekki er þörf á því að sök finnist hjá einstökum fyrirsvarsmanni eða starfsmanni fyrirtækisins. Hér er um ákvæði að ræða sem ekki á margar hliðstæður í íslenskum rétti, en ástæða þótti til að hafa ábyrgðina hlutlæga þar sem ella gæti sú staða komið upp að ekki væri hægt að sanna sekt á einstakan starfsmann og þess vegna slyppi viðkomandi fyrirtæki við viðurlög samkvæmt þessum lögum.

Ég vil enn fremur taka það fram, herra forseti, að 2. gr. þessa frv. er orðuð með sama hætti og nú er ákvæði um í okurlögum. Það má ekki skilja þessa grein svo að hún taki til affalla fremur en núgildandi lög og er hér um óbreytt ákvæði að ræða.

Þá kem ég að því að ræða örfáum orðum um III. kafla frv. sem fjallar um dráttarvexti. Í nefndinni var miklum tíma varið í umræður um þennan kafla frv. Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttarlögmaður sótti nefndarfundi ásamt aðalhöfundi frv., prófessor Jónatan Þórmundssyni. Jón Steinar Gunnlaugsson lagði fram á fundi nefndarinnar frumvarpsdrög sem er nýr III. kafli. Þessi frumvarpsdrög eru birt sem fskj. með minnihlutaáliti hv. 3. þm. Reykv. Það er ástæða til að taka það fram að sú regla sem kemur fram í hugmyndum Jóns Steinars er önnur og byggir á öðru meginsjónarmiði en þau ákvæði sem nú eru í III. kafla frv.

Það er enn fremur ástæða til að taka það fram að í dómarastétt og meðal lögmanna virðast hugmyndir Jóns Steinars hafa yfirgnæfandi fylgi, en í bankakerfinu eru flestir á þeirri skoðun að halda eigi í þau ákvæði sem nú eru í III. kafla frv. Í raun er III. kaflinn aðeins staðfesting á núgildandi framkvæmd Seðlabankans og bankakerfisins varðandi dráttarvexti. Ef gerðar verða nokkrar breytingar á frumvarpsdrögum Jóns Steinars sýnist vera kominn sæmilegur grundvöllur fyrir því að ná saman tillögu sem byggir á báðum þessum sjónarmiðum. Það mundi gerast með þeim hætti að meginreglan í III. kafla frv. yrði notuð þegar um stutt tímabil vegna vanefnda væri að ræða, en þegar til lengri tíma er litið væri gripið til hugmyndar Jóns Steinars Gunnlaugssonar.

Þar sem ekki gafst nægilegt ráðrúm til að fjalla um þetta mál og málið er að efni til og í eðli sínu allflókið varð það niðurstaða meiri hl. nefndarinnar að benda á í nál. að ráðuneytið kannaði málið á næstu mánuðum og skoðaði það með tilliti til þess hvort ástæða væri til að flytja nýtt frv. í haust og breyta þá III. kafla þessa frv., sem þá væri orðið að lögum, og koma þannig til móts við þau sjónarmið sem eru ríkjandi í dómarastétt og lögmanna.

Meginmunurinn á þessum tveim hugmyndum er sá að í frv. eins og það nú liggur fyrir og meiri hl. mælir með því að það verði afgreitt er miðað við að dráttarvextir reiknist eins og segir í 10. og 11. gr. frv., en það er sú framkvæmd sem verið hefur á þessum málum að undanförnu. Í tillögum Jóns Steinars Gunnlaugssonar er gert ráð fyrir höfuðstólsbótum eða verðgildisbótum sem samsvara lánskjaravísitölu, þ.e. að gerður er skýr greinarmunur annars vegar á dráttarvöxtum og hins vegar á verðbótum. Hugmynd Jóns Steinars er sú að þegar vanefnd verður vegna greiðslufalls sé miðað við að sá höfuðstóll haldi sér, en síðan komi lögmæltir dráttarvextir ofan á verðbætta kröfuna. Til að skýra þetta betur má segja að höfuðstóllinn eigi að halda gildi sínu að fullu þrátt fyrir verðbólguþróunina, en síðan séu dráttarvextirnir ákveðnir í lögum eða þá í reglugerð sem byggist á lagafyrirmælum.

Ég vek athygli á því að í umræðum í nefndinni voru menn ekki á eitt sáttir hvort nota skyldi 8% vexti eins og hún birtist í frumvarpsdrögum Jóns Steinars. Hugmynd nefndarinnar er sú þegar ráðuneytið skoðar þetta mál að hægt væri að orða þessa grein með þeim hætti að vaxtaupphæðin yrði ákveðin af Seðlabanka Íslands. Enn fremur töldu sumir nefndarmanna að ástæðulaust væri að kröfuhafar gætu valið á milli þessara tveggja sjónarmiða, sem birtast annars vegar í III. kaflanum og hins vegar í frumvarpsdrögum Jóns Steinars, heldur ættu hugmyndir sem nú eru í frumvarpsdrögunum við þegar um fyrstu þrjá eða fjóra mánuðina væri að ræða, en síðan ætti hin reglan að notast upp ef vanefndir tækju lengri tíma. Enn fremur væri ugglaust heppilegra að tala ekki um höfuðstólsbætur heldur nota hugtakið lánskjaravísitala, en það er þekkt hugtak. Mundu þá lögin ákveða nákvæmlega hvernig reikna skyldi þá vísitölu út, en þess skal getið að útreikningur á lánskjaravísitölu styðst í dag varla við ákveðin lög.

Þá vil ég taka fram, herra forseti, að með frv. birtust fskj. sem nefndarmeirihlutinn hefur gert að frv. og hefur verið samþykkt við 1. umr. og er til 2. umr. vonandi síðar í dag á fundum hv. deildar.

Að síðustu vil ég nefna eitt mál, herra forseti, sem ég held að skipti ákaflega miklu máli að rætt sé í þessum umræðum, en það er ákvæði til bráðabirgða nr. 1. Það hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Refsiákvæði 2. mgr. 3. gr. laga nr. 58/1960, um bann við okri, dráttarvexti o.fl., skal halda gildi sínu um þau opinber mál sem ríkissaksóknari hefur höfðað til refsingar samkvæmt ákvæði þessu og ekki hafa hlotið fullnaðardóm við gildistöku laga þessara.“

Hér er um ákaflega sérstakt fyrirbæri að ræða þar sem gert er ráð fyrir að þetta ákvæði sé afturvirkt, en það stríðir gegn meginhugmyndum íslensks réttar, ekki síst refsiréttar.

Í 2. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 er skýrt tekið fram að refsilöggjöfin megi ekki og eigi ekki að vera afturvirk. Það er mín skoðun að þetta ákvæði, þótt að lögum verði, verði ekki nothæft fyrir dómstóla landsins. Ég sé ástæðu til að endurtaka að það er álit mitt og margra annarra að þetta ákvæði standist ekki íslensk lög. Að vísu hefur prófessor Jónatan Þórmundsson, sem er sérfræðingur og prófessor í refsirétti, haldið öðru fram, en mín skoðun er sú að hér sé verið að tiltaka ákveðna einstaklinga, sem nú þegar eru þekktir og það stríðir gegn meginhugmyndum réttarreglna í réttarríkjum að refsilöggjöf verði afturvirk gagnvart einstökum, tilteknum mönnum.

Ástæðan fyrir því að þetta er sett í frv. er sú að ýmsir stjórnmálamenn telja sér ekki stætt á því að flytja lagafrv. sem gæti orðið til að draga úr refsingum sem nú eru lögmæltar varðandi þá sem þegar hefur verið stefnt vegna þeirra okurmála sem hafa verið fyrir dómstólum að undanförnu. Ég tel að sú umræða öll hafi verið á miklum villigötum. Því miður virðast einstakir aðilar, þar á meðal ýmsir hæstráðendur á Íslandi, leyfa sér að ræða um þessi mál með þeim hætti að undrun sætir. (KP: Hverjir eru slíkir?) Ég kýs að nefna engin nöfn í þessu sambandi, en sjálfsagt vita flestir við hvern er átt.

Menn verða að átta sig á því að margt fólk hefur gengið inn á skrifstofu í Reykjavík og talið sig vera í fullum rétti að ávaxta sitt fé. Þetta fólk á nú að dæma fyrir okur. Flest af þessu fólki er venjulegt fólk, fólk sem er að leggja til hliðar ellilífeyri, þetta er fólk sem hefur unnið í happdrættum, þetta er fólk sem hefur selt íbúðir sínar og hefur verið hvatt til þess af ríkisstjórninni að sýna ráðdeild og leggja fé til hliðar. Síðan gerist það að þegar þetta fólk á að fá endurgreidda sína fjármuni fær það ekki peningana til baka heldur ávísanir sem hafa hækkað umfram það sem þá var leyft. Hérna er ekki um að ræða að þetta fólk hafi misnotað aðstöðu sína gagnvart þeim sem tekur þetta fé að láni. Þvert á móti er yfirburðaþekkingin hjá þeim sem tekur við fjármununum og ætlar að ávaxta þá áfram.

Ég leyfi mér að kalla það pólitískan heybrókarhátt að þora ekki að fella þetta bráðabirgðaákvæði út úr frv. Ég hafði sjálfur hugsað mér að flytja um þetta brtt., en ákvað að gera það ekki vegna þess að ég tel að það sé nóg að gefa þessa yfirlýsingu hér. Þar með sé ljóst að Alþingi Íslendinga hafi áttað sig á því að þrátt fyrir ákvæði nr. 1 til bráðabirgða gerum við okkur grein fyrir því að það stenst ekki íslensk lög. Það sé betra að láta þetta ákvæði fara svona í gegn en að stefna í þá hættu að brtt. falli í þinginu á röngum forsendum.

Herra forseti. Ég hef séð sérstaka ástæðu til að taka þetta fram vegna þess að ég tel að umræður allar um svokölluð okurmál hafi verið á hreinum villigötum og það sem skipti í raun mestu máli í þessum málum öllum sé að herða refsiviðurlög eins og gert er í frv. gegn þeim sem misnota aðstöðu sína gagnvart þeim sem eru veikari á svellinu af einhverjum ástæðum. Það er megintilgangur þessara laga.

Herra forseti. Ég tel ástæðu til að mæla með því sérstaklega að þessi lög verði samþykkt vegna þess að þá gerist það í fyrsta skipti að sett eru heildstæð lög um vexti og dráttarvexti og verður að telja það til mikilla bóta fyrir íslenskan rétt á sviði kröfuréttarins.