13.03.1987
Neðri deild: 63. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4176 í B-deild Alþingistíðinda. (3797)

321. mál, vaxtalög

Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að tefja framgang þessa máls, en það eru örfá atriði sem mig langar til að gera að umtalsefni þar sem þau hafa komið fram í ræðum manna hér.

Í fyrsta lagi vil ég þakka þær ræður sem hér hafa verið fluttar og sérstaklega vil ég þakka hv. 3. þm. Reykv. að lesa upp grein Jóns Steinars sem var langsamlega besti hluti ræðu hv. þm.

Ég held að það sé ástæða til að benda rækilega á atriði sem hafa ekki komið fram í umræðunum og það er hver er munurinn á þessum tveimur aðferðum við ákvörðun dráttarvaxta. Annars vegar er aðferð Seðlabankans, sem er í lagafrv., en þar er gert ráð fyrir ákveðnu álagi á vexti. Þannig er dráttarvaxtaupphæðin fundin. Hin aðferðin er sú að dráttarvextir eigi að reiknast af höfuðstól sem þá hafi verið verðbættur.

Í grein Jóns Steinars er talið að skuldarar hafi tapað með ósanngjörnum hætti hundruðum milljóna. Það er ástæða til að gera athugasemd við þetta vegna þess að hann gefur sér að dráttarvextir yrðu lögmæltir 8%, eins og hann hefur lagt til. Það er enginn sem getur sagt til um það hvort það hefði orðið niðurstaða löggjafans ef mæla ætti fyrir í lögum um dráttarvaxtaupphæðir. Þessi málflutningur er því alveg út í hött því að hann byggir á gefnum vafasömum forsendum.

Ég gat þess í minni ræðu áðan að sumir nefndarmenn hefðu kosið að taka út úr hugmyndum Jóns Steinars það ákvæði sem segir að dráttarvaxtaupphæðin eigi að vera lögákveðin. Til að nefna dæmi um hvernig dráttarvextir eru fundnir og hafa verið á undanförnum mánuðum hefur álagið ofan á ávöxtun almennra útlána verið frá 1. apríl á s.l. ári frá 4,6 og upp í 9,1 og lengst af á þessu tímabili var álagið sem mótaði dráttarvaxtaupphæðina 9,1 eða í efri kanti þess bils sem nú er að finna í III. kafla lagafrv. Vanskilavextir hafa verið 27% mestan hluta tímans, en eru nú 30%. Til þess að sýna hvernig álagið er fundið er deilt með ávöxtun almennra útlána í vanskilavextina og þá kemur út álagið sem er í frv. á bilinu 1,05 og 1,1 og þýðir að frá 1. mars er álagið 1,074 og er þá miðað við að vanskilavextir séu 30% eins og þeir voru ákveðnir af Seðlabanka Íslands og að ávöxtun almennra útlána hafi verið hinn 21. febr. 21,05%. Nóg um þetta.

Mig langar til að fara örfáum orðum um það mál sem hefur verið hér nokkuð til umræðu og varðar ákvæði til bráðabirgða I. Í því sambandi vil ég, herra forseti, lesa 2. gr. almennra hegningarlaga, en þar segir í 1. mgr., með leyfi forseta:

„Hafi refsilöggjöf breyst frá því að verknaður var framinn til þess er dómur gengur skal dæma eftir nýrri lögunum, bæði um refsinæmi verknaðar og refsingu.“

Þetta er aðalreglan. Hins vegar kemur fram undantekning í 2. mgr. Þar segir:

„Aldrei má þó dæma refsingu nema heimild hafi verið til þess í lögum þegar verk var framið og ekki þyngri refsingu en orðið hefði eftir þeim lögum.“

Nú undirstrika ég og les áfram: „Hafi refsiákvæði laga fallið úr gildi af ástæðum sem ekki bera vitni um breytt mat löggjafans á refsinæmi verknaðar skal dæma eftir lögum þeim sem í gildi voru þegar brot var framið.“

Hér lýk ég lestrinum og hef þá lesið tvær fyrstu mgr. 2. gr. almennra hegningarlaga nr. 19 frá 1940. Það sem refsiréttarprófessorinn hengir hatt sinn á er að með þeirri lagabreytingu sem hér er verið að koma fram sé ekki verið að breyta mati löggjafans á refsinæmi verknaðar. Ég held að þetta sé rangt því að í raun og veru erum við að taka stórkostlegt skref. Við erum í fyrsta lagi að leyfa mönnum að ákveða vexti samkvæmt samningum, frjálsa vexti þar sem ekkert hindrar hver vaxtaupphæðin er nema afskiptaréttur Seðlabankans í því undantekningartilviki sem kemur fram í lögum um Seðlabanka Íslands. Við erum til viðbótar að ákveða að fella brott það sem hingað til hefur verið kallað okur, en taka upp misneytingu, þótt hún sé af einhverjum ástæðum kölluð okur í þessum lögum. Það er nákvæmlega sams konar ákvæði eins og nú eru til í lögum og kallast misneyting. Ég tel þetta vera verulega breytingu og því tel ég að þetta bráðabirgðaákvæði standist ekki gagnvart dómstólum.

En ekki nóg með það. Það er annað stórt atriði sem skiptir hér miklu máli og það er að í ákvæði til bráðabirgða í frv. er verið að tiltaka einstaklinga sem eru þekktir. M.ö.o.: Gömlu lögin, þar sem refsingin er þyngri, eiga aðeins að ná til þeirra sem þegar er búið að höfða mál gegn en ekki til manna sem á kannske eftir að höfða mál gegn en gátu hafa brotið af sér á sama tíma. Refsiréttarprófessorinn telur að í frv. sé tiltekinn málaflokkur undanskilinn, en það er rangt. Þetta eru tilteknir einstaklingar og ég held að í réttarríkinu Íslandi verðum við að átta okkur á því að slíkt gengur ekki upp.

Þess vegna, herra forseti, gaf ég svona sverar yfirlýsingar í framsöguræðu minni fyrr á fundinum og ég ætla að ítreka að þrátt fyrir þær umræður sem hér hafa farið fram tel ég útilokað að dómstólar komist að þeirri niðurstöðu að ákvæði til bráðabirgða nr. I sé nothæft. En á það verður að reyna. Jónatan Þórmundsson prófessor í refsirétti gat þess á nefndarfundi að hann hefði borið málið undir Hallvarð Einvarðsson ríkissaksóknara og ég gat ekki skilið prófessorinn öðruvísi en svo að ríkissaksóknari mundi halda áfram með þau mál sem nú eru í gangi ef þetta bráðabirgðaákvæði væri numið brott úr lagafrv. og láta á það reyna hvern dóm viðkomandi einstaklingar fengju samkvæmt nýju lögunum. Það er ekki hundrað í hættunni fyrir þá sem vilja eindregið láta dómstólana fjalla um mál þessara tilteknu einstaklinga sem að mínu mati eru hins vegar einstaklingar sem er fremur verið að níðast á, vegna þess að þeir gengu að mínu mati inn á opna, auglýsta skrifstofu í Reykjavík alsaklausir og án þess að vita að þeir væru að fremja brot á okurlögunum. Enda tel ég að ef um eitthvert misferli hefur verið að ræða í þessu máli sé það kannske fremur hjá hinum sem tóku lánin hjá viðkomandi aðila sem ávaxtaði fé fyrir ýmsa einstaklinga í Reykjavík og nágrenni.

Umræðu (atkvæðagreiðslu) frestað.