14.10.1986
Sameinað þing: 3. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 54 í B-deild Alþingistíðinda. (38)

20. mál, samningur milli Íslands og Bandaríkjanna

Utanríkisráðherra (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Ég ætla ekki að blanda mér meira inn í þýðingarmál og læt það útrætt, en ég vildi aðeins út af því sem hv. 5. þm. Reykv. sagði hér um verktöku þar syðra benda á að í apríl 1984 lagði þáv. utanrrh. Geir Hallgrímsson fram skýrslu. Sú skýrsla var byggð á fsp. sem fram höfðu komið af hálfu Alþfl. og Bandalags jafnaðarmanna varðandi ýmsa þætti þar syðra. Í þessari skýrslu, á bls. 17, segir:

„Til þess að undirbúa þetta“, þ.e. að kanna skilyrði þess að opna aðildarfélög samningsaðila frekar en nú er, „þá hefur utanrrh. ákveðið að koma á fót fimm manna samstarfsnefnd sem í eiga sæti tveir fulltrúar Verktakasambands, fulltrúi Íslenskra aðalverktaka, Keflavíkurverktaka og fulltrúi ráðuneytisins. Nefndinni verði jafnframt falið að kanna fyrirkomulag þessara mála og reynslu í öðrum ríkjum Atlantshafsbandalagsins.“

Þessi nefnd hefur starfað frá þessum tíma og ég vil benda á að það hafa orðið töluvert miklar breytingar á verktökunni þar syðra einmitt í tíð fyrrv. utanrrh. Geirs Hallgrímssonar sem gerir grein fyrir því hér. Þessar breytingar, sem þegar hafa verið gerðar, eru auðvitað hluti af því sem unnið hefur verið þar að og alltaf er hægt að bæta eins og sagt er og það verður auðvitað gert komi fram um það ákveðnar hugmyndir frá þeim aðilum sem um þetta hafa fjallað.

Þetta vildi ég láta koma fram í tilefni af því sem hv. þm. sagði.