29.10.1986
Neðri deild: 7. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 413 í B-deild Alþingistíðinda. (380)

86. mál, stjórn fiskveiða

Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Virðulegi forseti. Eins og kunnugt er er ákvæði um það í lögum um stjórn fiskveiða að lögin skyldu tekin til endurskoðunar fyrir ákveðinn tíma á þessu hausti og að því máli hefur verið unnið í sumar og haft um það samráð við sjútvn. þingsins og hagsmunaaðila. Það eru, eins og hv. frsm. Karvel Pálmason, 3. þm. Vestf., sagði, skiptar skoðanir um þessi mál og ljóst er að margir gætu hugsað sér ýmsar breytingar á þessum lögum. Sumir gætuhugsað sér það að vitað væri til lengri tíma að hverju við gengjum í þeim málum, m.a. með því að framlengja lögin þótt með einhverjum breytingum yrði. En niðurstaðan hefur orðið sú að ekki þykir rétt að breyta þessum lögum að svo komnu máli en það verður væntanlega verkefni komandi ríkisstjórnar að taka á því máli og eðlilegt að hún hafi svigrúm til þess. Mér heyrist að Alþfl. ætli sér stóran hlut í þeirri ríkisstjórn. Þess vegna er afar fróðlegt að fá upplýsingar um stefnu Alþfl. í þessu máli vegna þess að það hefur ekki legið alveg á lausu en nú hefur sjálfur þm. Vestf. og formaður Alþfl. flutt sameiginlegt frv. sem lýtur að þessu máli og ég á von á því að þetta sé þeirra aðalniðurstaða um breytingar í málinu en sé ekki flutt til þess að nú „fjari betur undan kvótamönnum“ eins og hv. þm. tók hér fram, að það væri aðaltilgangur frv. Það væri nú út af fyrir sig fróðlegt að fá úr því skorið hvort það er tilgangurinn eða hvort tilgangurinn er sá að koma að þessum efnisbreytingum sem ég skal nú aðeins víkja að.

Í fyrsta lagi er lagt til að ákvæði laganna taki ekki til veiða með línu og handfærum. Nú er það svo að smábátar eru mjög frjálsir til sinna veiða, en það eru þeir bátar sem einkum stunda handfæraveiðar. Því verður ekki með sanni sagt að neinar umtalsverðar takmarkanir séu á handfæraveiðum. Það er veiðiskapur sem almennt er mjög lítið stundaður af stærri skipum.

Að því er línuveiðar varðar eru þær utan svokallaðs kvóta bæði fyrri hluta árs og seinni hluta árs. Þar með er kominn hvati til línuveiðanna og um þetta varð allbærileg sátt á síðasta þingi þegar fjallað var um línuveiðarnar. Það var mjög ákveðin skoðun mjög margra þm. að þar ætti að gæta meira frjálsræðis og sú varð niðurstaðan. Hins vegar verður að hafa í huga að inni í aflamarki viðkomandi skipa er sá afli sem þau fengu á línu á viðmiðunarárunum. Ég held því að ekki sé hægt að taka tillit til þeirra orða hv. þm. að ekkert tillit hafi verið tekið til þessara hluta.

Að því er varðaði 2. gr. hafði hann mjög sterk orð um það mál, en þar er hann væntanlega að leggja til - eins og ég man eftir að ég rakti þegar sama tillaga var flutt 1984 og hafði þá tölur þar um - að skip í ákveðnum byggðarlögum verði sérstaklega skert. Það er því miður ekki hægt aðeins að bæta við, og ef um viðbót er að ræða til skipanna þarf að sjálfsögðu að huga að því hvernig hún eigi að skiptast. En hann vill með þessu halda því fram að öll skip sem gerð eru út frá útgerðarstöðum eins og Húsavík, Akureyri, Akranesi, Keflavík, Reykjavík eða Hafnarfirði, svo eitthvað sé nefnt, búi við mun skarðari hlut en önnur skip. Þá kemur náttúrlega upp sú spurning hvort þá verði nokkur rekstrargrundvöllur fyrir skipum frá þessum byggðarlögum og hvort er ekki í reynd miklu einfaldara að leggja það til að útgerð frá þessum stöðum sé hreinlega hætt. Ég býst við því að þegar hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson skrifaði upp á þetta frv. hafi hann enn þá verið ákveðinn í því að bjóða sig fram austur á landi þannig að það má vel vera að þetta hafi eitthvað breyst á seinni dögum hjá formanni Alþfl. (Gripið fram í: Er nokkuð séð fyrir endann á því?) Það er e.t.v. ekki séð fyrir endann á því en ég hygg að þetta mundi ekki koma við neitt byggðarlag á Austurlandi og Vestfjörðum þó ég sé nú ekki alveg viss um það, það vinna nú orðið svo margir við sjúkrahúsið á Ísafirði að það gæti verið að sú starfsemi hafi breytt eitthvað hlutfallinu í því byggðarlagi, en aukning á opinberri þjónustu og þjónustu í viðkomandi byggðarlögum getur orðið til þess að þetta hlutfali raskist. En ég er þeirrar skoðunar að þetta verði ekki til þess að hjálpa neitt til í þeim byggðarlögum sem eiga við sérstakan vanda að etja en með því er ég ekki að gera neitt lítið - (Gripið fram í: Hvaða byggðarlög eru það?) úr því. Ég ætla ekki að fara að telja þau upp en mér er kunnugt um ýmis byggðarlög sem eiga við vanda að etja og sveitarstjórn eins kom til mín í morgun út af vandamálum í því byggðarlagi, en breyting sem þessi mundi engu skipta fyrir það byggðarlag og það er ekki rétt af hv. þm. Karvel Pálmasyni að halda því fram að því er það varðar.

Ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð. Það var ekki mín ætlan að fara að upphefja sérstaka umræðu um þetta mál sem er mjög erfitt og viðkvæmt en hins vegar get ég ekki mælt með þessu sem hér er komið fram. En út af fyrir sig er fróðlegt að nú skuli liggja heldur meiri vitneskja fyrir um stefnumörkun Alþfl. í þessum málum, eða ég tek tillit til þess að formaður flokksins er þarna á blaði.