13.03.1987
Neðri deild: 63. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4184 í B-deild Alþingistíðinda. (3819)

422. mál, almannatryggingar

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir skýringarnar og hv. 9. landsk. þm. sömuleiðis. Það er alveg rétt, sem hann sagði, að það er afar algengt að reglugerðir séu fyrst settar þegar búið er að setja lög. Það má heita alveg regla að ég best veit og er ánægjulegt að hann skuli taka sér fyrir hendur að upplýsa þingheim um það, nema hv. þm. hafi nýlega uppgötvað þetta, en þetta hefur verið svona mjög lengi, að reglugerðir eru jafnan settar eftir að búið er að setja lögin en aldrei öfugt. (ÓE: Ræðumaður hefur vitað það líka væntanlega.)

Varðandi þessar upplýsingar vildi ég gjarnan spyrja að því frekar hvaða hugmyndir eru uppi um hverjir eigi að skipa þessa þriggja manna nefnd og hver á að skipa hana. Ég mundi leggja til að það yrði ráðherra. Er ætlunin að svo verði eða ætlunin að það verði Tryggingastofnunin sem gengur frá nefndarskipuninni? Ég hef orðið var við að fatlaðir hafa áhyggjur af að sjá á eftir þessu máli í Tryggingastofnun ríkisins. Það er dapurlegt að heyra það og verða vitni að því að menn vilji frekar sjá sínum málum fyrir komið í fjmrn. en Tryggingastofnun ríkisins. Það segir ekki fallega sögu um Tryggingastofnun ríkisins, því miður. Það er æskilegt að fá um það upplýsingar hvaða hugmyndir eru uppi um skipan þeirrar nefndar sem hv. 9. landsk. þm. gat um áðan.