13.03.1987
Neðri deild: 63. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4187 í B-deild Alþingistíðinda. (3826)

209. mál, sjómannadagur

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður talaði um að það væri aðeins um að ræða smávægilega breytingu sem við hefðum gert í hv. sjútvn., sem ég tel ekki vera, og hann orðaði það enn fremur að það sem kæmi fram í nál. okkar væri nokkurn veginn sannleikanum samkvæmt. Þetta er nokkuð merkilegt þegar haft er í huga að undir þetta skrifar hv. þm. Garðar Sigurðsson fundaskrifari. Það er skrýtið ef þeir sem ganga frá nál., sem hlýtur að vera frsm., hafi eitthvað farið fram hjá sannleikanum frá því sem fundaskrifari hafði orð á. Nóg um það.

En á margan hátt vil ég taka undir það hjá hv. þm. að það hefði kannske átt að athuga betur í byrjun hvort ekki hefði mátt ná samkomulagi milli aðila á grundvelli þess að við lögfestum fyrst og fremst þann frídag sjómanna sem hér er gert ráð fyrir. Hins vegar er þetta búið að ganga til hagsmunasamtaka og hefur verið rætt þar alveg frá því í október, en þá var að mig minnir þetta frv. kynnt af hæstv. sjútvrh. fyrir sjómannasambandsþingi. Um það var eiginlega ekki rætt hjá okkur í sjútvn., utan það sem hv. síðasti ræðumaður gat um, að hann vildi bókstaflega láta allar greinar falla niður, 2.-6. að báðum meðtöldum, en við gerðum hins vegar tillögu um breytingu á 1. gr., sem hann gerði nokkuð lítið úr, sem þó ekki er lítils virði þegar við höfum í huga að sjómannasambandsþing einmitt lagði til að ákvæðin yrðu á þann veg sem segir í brtt. okkar og eins og frv. var flutt, en þeir breyttu af einhverjum ástæðum í Ed. en það geri ég ráð fyrir að séu einhvers konar fiskverkenda- eða útgerðarmannasjónarmið sem ég kannast ekki við og eiga ekki heima í þessu. Ég á við það ef sjómannadaginn ber upp á hvítasunnudag fyrsta sunnudag í júní. Að vísu var aldrei leitað til okkar sem erum búnir að fást við það hér í Reykjavík að halda sjómannadag í nær 50 ár, en á næsta ári verður 50 ára afmæli sjómannadagsins í Reykjavík. Við höfum haft fulla samstöðu með þeim í Hafnarfirði allan þennan tíma og þótt ekki hafi verið leitað til okkar erum við sammála um að í stað þess að flytja þetta fram í maí beri okkur frekar að flytja það aftur um eina viku eða fram eins og við getum orðað það, að sjómannadagurinn verði í júní. Þó að svo vilji til nú að þetta nálgist eitthvað þjóðhátíðardaginn skiptir það ekki nokkru máli. Sjómannadagurinn er allt annað. Sjómannadagurinn er minningardagur um þá sem hafa látist frá því síðasti dagur var hátíðlegur haldinn. Hann er fjáröflunardagur fyrir þessi samtök sem safna peningum til að láta gott af sér leiða. Og hann er líka til að herða á um björgunar- og slysavarnir á þessu landi eins og dæmin sýna í gegnum þessa áratugi. Það er ekki sama hvort menn eru að efna til útihátíðahalda í maí eða í júní. Það getur munað miklu á hverri viku sem líður á þessum dögum. Ég þekki það sjálfur að við neyddumst til þess hér í Reykjavík og reyndar um allt land þegar síldveiðar voru stundaðar við Jan Mayen að flýta sjómannadeginum fram í maí til þess að þeir sem voru að fara norðaustur í höf gætu átt þátt í þessari hátíð með öðrum félögum sínum. Það reyndist nær óframkvæmanlegt að standa í slyddu og krapahríð við útihátíðahöld. Þetta gekk ekki upp að mínu mati. Þess vegna skil ég ekki enn og fæ ekki neinn rökstuðning frá þeim sem í Ed. hafa að þessu unnið af hverju þessi leið er valin.

Til viðbótar kemur að það er búið að ákveða í lögum fjórða hvert ár sveitarstjórnarkosningar síðasta laugardag í maí. Auðvitað getur komið upp á að svo verði sem er óhæfa þegar við höfum það í huga að a mörgum stöðum á landinu, þar á meðal í heimabyggð hv. þm. Garðars Sigurðssonar, eru tveggja daga hátíðahöld.

En þetta var brtt. okkar í sjútvn. þessarar hv. deildar. Hún er sú að í stað orðanna „á undan“, eins og segir í 1. gr. frv. eins og það kemur frá Ed., leggjum við til að komi: á eftir. Ég leyfi mér að hafa þessi orð um þetta vegna fjarveru frsm. hv. sjútvn.

Umræðu (atkvæðagreiðslu) frestað.