13.03.1987
Neðri deild: 63. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4198 í B-deild Alþingistíðinda. (3835)

342. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. 2. minni hl. fjh.- og viðskn. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Það frv. sem hér er til umræðu á að fela í sér annars vegar einföldun á álagningu tekjuskatta og hins vegar er lagt til að allir tekjuskattar séu lagðir á í einu lagi og síðan skipt milli þeirra sem eiga að hafa af þeim tekjur, þ.e. milli ríkisins og sveitarfélaganna. Þessi hugmynd um einföldun skattkerfisins með þessum hætti og staðgreiðslu á sköttunum er ekki alveg ný af nálinni. Hún hefur verið rædd hér í hartnær 40 ár.

Í Sveitarstjórnarmálum, 3. tbl. 1951, er að finna grein um þetta efni sem er byggð á erindi sem hefur verið flutt árið áður. Þar er hugleiðing um það hversu margir þessir skattar séu sem á eru lagðir. Bent er á að beinir skattar til ríkisins árið 1948 hafi verið 15 talsins svo það er ekki nýtt að þeir séu margir. Það er kannske ekki úr vegi að líta aðeins á þessa grein og jafnvel að menn rifji upp hvaða skatta menn höfðu árið 1948.

Beinir skattar til ríkisins voru þá fasteignaskattur af landverði, fasteignaskattur af húsverði, tekjuskattur, tekjuskattsviðauki, stríðsgróðaskattur, eignarskattur, vegasjóðsgjald, námsbókagjald, tryggingagjald skv. 107. gr., tryggingagjald skv. 112. gr., tryggingagjald skv. 113. gr., skírteinisgjald, sjúkrasamlagsgjald, eignarkönnunarskattur, stóreignaskattur. - Til bæjarfélagsins runnu síðan átta mismunandi skattar.

Í þessari grein segir:

„Af þessari upptalningu er ljóst að víða er komið við og fjáröflunarleiðir hins opinbera eru allyfirgripsmiklar og víðfeðmar og má segja að þær mæti okkur svo að segja í hverju fótmáli, enda þarf mikils við.“ - Og kemur þar í ljós að höfundur hefur samúð með sköttum. - „Á sama hátt mætti segja að endurgjaldið mæti þegnunum hvarvetna og hvenær sem er. Vissulega eru öll þessi gjöld mörgum þungur baggi og vafalaust vantar mikið á að þau komi svo réttlátlega niður sem segja mætti að til sé ætlast. En ég ætla ekki að ræða um það hvort öll þessi gjöld til samans eða hvert í sínu lagi séu of há eða ekki en varpa fram þeirri spurningu hvort álagningu þeirra og innheimtu sé svo haganlega fyrir komið sem æskilegt væri.

Allir ættu að geta verið sammála um það að nauðsynlegt og raunar sjálfsagt er að þessum framkvæmdum sé sem haganlegast fyrir komið þannig að beinn kostnaður við þær verði sem minnstur jafnframt því að vera þá sem best af hendi leystar og svo að gjaldþegnunum sé ekki gert erfiðara fyrir að inna gjöldin af hendi en óumflýjanlegt er.“

Síðan segir:

„Það er þá í fyrsta lagi að tekjuskattur er lagður á einn og sama aðila í mörgu lagi: Tekjuskattur, tekjuskattsviðauki og stríðsgróðaskattur, auk eignakönnunarskatts og stóreignaskatts. Allt að fimm tegundir af tekjuskatti geta menn því fengið að greiða á sama tíma.

Öllum þessum sköttum verður að halda sundurgreindum í bókhaldi. Alls hefur mér talist til, eins og áður er greint, að beinir skattar til ríkisins séu í 15 liðum. Ætti að mega gera ráð fyrir að eitthvað af þessu mætti sameina að skaðlausu. Þessi mikla sundurliðun hlýtur óhjákvæmilega að hafa í för með sér mikla vinnu og kostnað bæði við álagningu, innheimtu og bókhald.

Sumar gjaldaupphæðirnar eru lágar en verður þó að sundurliða í enn smærri upphæðir. Þannig borga ég í fasteignaskatt til ríkisins 21 kr. en það er talið nauðsynlegt að sundurliða þessa upphæð í 4,35 kr. af landverði og 16,65 kr. af húsverði. Fleira er þessu líkt.

Þegar búið er að leggja á alla þessa skatta til ríkisins eftir öllum þeim kúnstum sem fyrir er mælt setjast aðrir aðilar á rökstóla og leggja aðra skatta á sömu aðila eftir sömu gögnum en eftir allt öðrum leiðum og eftir hreyfanlegum skattstiga sem saminn er árlega og getur verið mjög mismunandi milli ára og milli byggðarlaga á sama árinu, og á ég þar einkum við útsvörin.

Alls telst mér til að gjöld til bæjarins séu í átta liðum. Vera má þó að tvö þeirra, þ.e. kirkjugjald og kirkjugarðsgjald, beri fremur að telja til ríkisgjalda en bæjargjalda. Þessi gjöld eru innheimt í sex atrennum. Fyrst kemur reikningur yfir fasteignaskatt, sundurliðaður á skatt af húsverði og skatt af landverði, þá tilkynning um fyrirframgreiðslu upp í útsvar, síðan útsvarið, þá fasteignagjöld, þá kirkjugjald og loks kirkjugarðsgjald. Alls hafa þá verið skrifaðir sex reikningar á einn og sama gjaldandann á einu og sama árinu. Sex sinnum verður að renna um bæinn með þessa miða til að tilkynna gjaldendunum þennan sama boðskap ár eftir ár. Síðan koma rukkararnir hver á fætur öðrum.

Hvers vegna ekki að sameina öll þessi gjöld á einn og sama reikning og fara eina ferð með þá í staðinn fyrir sex ferðir og spara með því bæði yfirboðurum og undirgefnum bæði kostnað og fyrirhöfn?

Þá er það athugandi hvort ekki væri heppilegt að öll gjöldin væru lögð á sama aðila eftir einum ákveðnum reglum og innheimt af einni og sömu stofnun.“ - Þarna er sem sagt hugmyndin sem við erum að ræða núna reifuð árið 1951. Og áfram er haldið: - „Skipta síðan tekjunum milli þeirra aðila sem hlut eiga að máli og þá fyrst og fremst milli ríkis og bæjar- og sveitarfélaga. Ýmsir annmarkar kunna að vera á þessu.“ Síðan er það rakið hvaða annmarkar kunna að vera, m.a. að tekjuþörf sveitarfélaganna kunni að vera breytileg og það könnumst við öll við.

Síðan víkur greinarhöfundur að því hvort innheimtunni sé svo haganlega fyrir komið sem verða má og bendir á að allt að tvö ár geti liðið frá því að unnið er fyrir þeirri upphæð sem goldið er af þar til skatturinn kemur til innheimtu, og segir að stundum vilji þá svo fara að lítið verði eftir af fénu til þessara þarfa, en það verður að takast af tekjum yfirstandandi árs.

Niðurstaða höfundar úr þeim hugleiðingum er sú að best væri að gjöldin væru álögð og greidd að sem mestu leyti jafnóðum og unnið er fyrir þeim tekjum sem þau eru lögð á. Gjaldendur vissu þá betur hvað þeir mættu bjóða sér í peningalegu tilliti. Síðan segir:

„Þetta fyrirkomulag, sem hér hefur verið vikið að um álagningu og innheimtu opinberra gjalda, þ.e. að leggja á í einu lagi gjöld bæði til ríkis og bæjar- og sveitarfélaga og innheimta þau jafnóðum og unnið er fyrir þeim tekjum sem lagt er á, er ekki nýtt eða óþekkt. Það hefur verið gert t.d. í Svíþjóð síðan 1946 og sums staðar annars staðar lengur.“

Síðan lýsir hann því hvernig þetta sé gert og telur að það sé til mikilla bóta ef unnt væri að taka upp þennan staðgreiðsluskatt, viðurkennir síðan að þetta kunni að vera vandasamt verk. - Og víst hefur það vafist fyrir íslenskri löggjafarsamkomu í nokkur ár að framkvæma þetta. - En sannfæring greinarhöfundar er sú að þetta væri til bóta.

Grein þessi birtist sem sagt í Sveitarstjórnarmálum árið 1951 og er eftir Jóhann Þorsteinsson, kennara í Hafnarfirði. Hún var samin á eldhúsborðinu heima hjá honum. Og það er einmitt af þeim sökum sem ég hef verið áhugasamur um staðgreiðslukerfi skatta kannske öðrum frekar um langa hríð.

Mér hefði þótt að menn hefðu átt að vera búnir að taka þetta upp fyrir margt löngu síðan og reyndar undrar mig þá í leiðinni að eftir alla þá umræðu sem hefur átt sér stað í hartnær fjóra áratugi og allar þær nefndir sem hafa starfað í þessu máli, þá skuli menn samt nú vera svo vanbúnir að í rauninni getur Alþingi ekki afgreitt þetta mál nú þótt ákvörðun hafi verið tekin um það fyrir allnokkrum mánuðum síðan að nú skyldi þetta gerast. Umfjöllunin hefur staðið í mörg ár. Ákvörðunin lá fyrir fyrir nokkrum mánuðum síðan og samt eru menn svo vanbúnir sem raun ber vitni og því miður mun vanbúnari en ég hafði gert mér vonir um.

Menn eru svo vanbúnir að þegar meiri hl. fjh.- og viðskn. fjallar um þetta mál núna í Ed. þá telur hún upp í sex liðum atriði sem hún telur að þurfi að taka til gagngerrar skoðunar áður en þetta geti orðið að lögum. Ég þarf ekki að rekja það í smáatriðum, en nefndin telur að þrátt fyrir þær brtt. sem hún hafi flutt, þá þurfi að endurskoða álagningarkerfið, það þurfi að athuga áhrif þess að afnema skattfrelsi af fæðispeningagreiðslum, það þurfi að kanna ákvæði laganna um húsnæðisbætur og húsnæðissparnaðarreikninga og um stöðu námsmanna og hvort leiðrétta beri hlut þeirra sem flytja til landsins á árinu 1988. Og þetta er ekkert smáræði eins og menn sjá.

Í ljósi þessa og í ljósi stöðu málsins núna er náttúrlega ankannalegt að hæstv. fjmrh. skyldi ráðast á formann Alþfl. þegar hann innti eftir því hvort málið væri nægilega vel undirbúið og lét í ljós efasemdir um að svo væri. Það hefur nú sannast að áhyggjur hans voru á rökum reistar og ég var óþarflega bjartsýnn.

Herra forseti. Í nál. 2. minni hl. geri ég grein fyrir afstöðu Alþfl. til þessa frv. eins og það liggur hér fyrir. Jafnframt eru í þessu nál. reifaðar brtt. sem Alþfl. telur nauðsynlegt að afstaða sé tekin til á þessu stigi, brtt. sem varða ýmsa þætti, varða greiðslur til sjómanna vegna fæðispeninga, varða þá sem eru að láta af störfum og hafa notið sérstakrar ívilnunar fram að þessu, varða það hvernig eigi að taka á málefnum námsmanna, og hér eru gerðar tillögur um það bæði að því er varðar þá sem eru í námi og hafa tekjur aðeins hluta af árinu og eins hina sem eru að koma frá námi og hafa hingað til notið þess að fyrsta árið sem þeir vinna eftir að þeir koma frá námi þurfi þeir ekki að standa í skattgreiðslu.

Hér er enn fremur brtt. varðandi húsnæðisbætur, en sú brtt. miðar að því að taka tillit til þess að fjölskyldur fæðast ekki fullskapaðar heldur þróast. Það fjölgar gjarnan í fjölskyldum eftir að til þeirra hefur verið stofnað og síðan fækkar aftur í þeim seinna. Þess vegna breytist húsnæðisþörfin og þess vegna er ástæða til þess að komið sé til móts við þessar þarfir.

Hér er líka gert ráð fyrir því að ár hvert skuli ákveðin skattvísitala með tilliti til þess að það getur verið mikið misgengi milli lánskjaravísitölu og launaþróunar og eðlilegt að Alþingi taki þess vegna sérstaka afstöðu til þess á hverju ári hvernig við því misgengi skuli brugðist og að ekki sé fastbundið í lögum að lánskjaravísitalan eigi að gilda um aldur og ævi og ætíð og ævinlega þannig að menn séu njörvaðir niður með þeim hætti, enda er uppbygging hennar ekki með þeim hætti að hún geti talist hafa áunnið sér sérstakan heilagleika í íslensku efnahagslífi.

Loks er tillaga um ákvæði til bráðabirgða sem varðar stefnumörkun. Stefnumörkun í tvennu tilliti.

Annars vegar að því er varðar það að næsta skrefið í þessum málum verði að lækka tekjuskatt launafólks en ætla fyrirtækjunum og atvinnurekstrinum, þeim sem hagnað hafa, að bera meiri hluta af skattbyrðunum en nú er gert ráð fyrir. Og í annan stað að sett verði í gang breyting á skattalögum til þess að koma í veg fyrir, eftir því sem unnt er, skattsvik og skattundandrátt og þá í samræmi við skýrslu sem skilað hefur verið til þingsins og unnin var fyrir fjmrh. um það efni.

Við Alþýðuflokksmenn teljum nauðsynlegt að fólkið í landinu fái að vita að þegar ákveðið er að taka upp staðgreiðslukerfi skatta til handa launafólki, þá standi það ekki eitt og óstutt, heldur að meiningin sé að fram fari heildarendurskoðun á skattkerfinu öllu og stefnumörkunin liggi fyrir um þau helstu atriði sem í þeirri endurskoðun eigi að vera fólgin, a.m.k. að því er varðar skattupphæðina, skattbyrðina og hvernig henni verði skipt milli fyrirtækja og einstaklinga og að meiningin sé að létta á launafólkinu, ætla fyrirtækjunum að bera meiri eða stærri hlut, og í annan stað að Alþingi vilji gera alvöru úr því að taka á skattsvikum í landinu og sé tilbúið til þess að láta vinna þá löggjöf sem talin er nauðsynleg í þeim efnum.

Herra forseti. Það væri ástæða til þess að tala í margar klukkustundir um það mál sem hér er til umræðu, en ég hef einungis tekið mér fáeinar mínútur, reynt að setja málið í sögulegt samhengi annars vegar og hins vegar að benda á þá vankanta sem því miður eru á þessu frv. og tala fyrir þeim brtt. sem við Alþýðuflokksmenn teljum nauðsynlegar að verði nú samþykktar áður en frá því verður gengið. En sorglegast af öllu er þó að niðurstaðan skuli í rauninni vera sú, eins og kom fram í nefndarstarfinu, að því miður sé eiginlega ekkert að marka. Það stóð upp úr allt of mörgum af þeim sem komu til nefndarinnar í yfirheyrslu að þetta yrði nú bara skoðað aftur í haust. Það er sorglegt að það skyldi ekki takast að ganga betur frá þessu, en við skulum vona að betur takist til næst.