13.03.1987
Neðri deild: 63. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4203 í B-deild Alþingistíðinda. (3837)

342. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjármálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég ætla aðeins að gera örfáar athugasemdir vegna ummæla hv. 3. þm. Reykv. um hugsanlegar tekjubreytingar í kjölfar þessara nýju skattalaga og áhrifa þeirra á tekjur ríkissjóðs. Við þessa kerfisbreytingu og undirbúning hennar var við það miðað að tekjur ríkissjóðs yrðu því sem næst óbreyttar, en til þess að ná eðlilegri álagningu á milli ákveðinna hópa í þjóðfélaginu var ákveðið að standa á þann veg að þessari breytingu að skattgreiðendur högnuðust frekar en ríkissjóður.

Við undirbúning frv. var miðað við álagningu skatta á árinu 1986, þ.e. tekjur ársins 1985, sem voru þá nýjustu upplýsingar sem tiltækar voru. Þegar frv. var fullsmíðað var ljóst að ríkissjóður mundi samkvæmt þeim tölum sem frv. byggði á, nýjustu reynslutölum, tapa rúmlega 300 millj. kr. Þjóðhagsstofnun hefur metið þessar upplýsingar miðað við væntanlega álagningu á árinu 1987 og er þá í raun og veru að framreikna tekjur frá árinu 1985 til ársins 1987. Auðvitað er hægt að fá mismunandi tölur út úr dæmum sem þessum eftir því hvað menn gefa sér miklar tekjubreytingar á milli ára. Ef við reiknum með meiri tekjubreytingum en Þjóðhagsstofnun gerir í sínu dæmi, þá fáum við auðvitað meiri tekjur. Og ef ég skil rétt þá var það einmitt slíkt dæmi sem hagfræðingur Alþýðusambandsins lagði fram sem hugsanlega útkomu úr þessu.

Kjarni málsins er sá að það hefur alltaf legið fyrir að meta yrði frv. eða álagningarreglurnar í frv. út frá nýjustu upplýsingum eftir álagningu 1987 áður en kerfisbreytingin tekur gildi. Það eru ekki nýjar upplýsingar og leiðir af eðli máls. Þess vegna held ég að það sé algjör óþarfi að gera mikið veður út af bollaleggingum af þessu tagi. Það er einfalt mál að fá miklu hærri tölur ef menn reikna með meiri launabreytingum á milli ára en Þjóðhagsstofnun gerir þarna ráð fyrir. En þetta kemur ekki í ljós fyrr en álagningin liggur fyrir á þessu ári og þá er ætlunin að meta þessar niðurstöður. Það hefur þegar verið óskað eftir tilnefningu þingflokka í ráðgjafarnefnd sem fjmrn. hefur ákveðið að setja á fót og hefur skipað Indriða H. Þorláksson formann fyrir. Jafnframt hefur verið óskað eftir því að Alþýðusamband Íslands og Vinnuveitendasamband Íslands tilnefni einn mann hvort í þessa ráðgjafarnefnd.

Þó að aðstæður séu með þessum hætti að augljóst er að meta þurfi nýjustu upplýsingar þegar þær eru komnar fram og áður en kerfisbreytingin tekur gildi, þá segir það í sjálfu sér ekkert um undirbúning frv. að öðru leyti og þau stóru orð sem ýmsir hafa látið falla um óvandaðan undirbúning hafa sjaldnast verið studd rökum. En auðvitað gera allir sér grein fyrir því að þessi mikla kerfisbreyting er unnin á tiltölulega stuttum tíma og þeir sem að henni hafa unnið hafa leyst fjölmörg og flókin verkefni á mjög stuttum tíma.

Ég sé ekki ástæðu, herra forseti, til að fara fleiri orðum um þessi atriði en vildi aðeins leggja áherslu á þetta vegna ummæla hv. 3. þm. Reykv. Ég vil svo nota þetta tækifæri til að þakka nefndarmönnum í hv. fjh.- og viðskn. fyrir skjót og góð störf við athugun á þessum frv. og hv. þingdeildarmönnum fyrir að lýsa því yfir að þeir vilji greiða fyrir framgangi málsins nú fyrir þinglok.