29.10.1986
Neðri deild: 7. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 419 í B-deild Alþingistíðinda. (384)

86. mál, stjórn fiskveiða

Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Virðulegur forseti. Mér fannst það á hæstv. samgrh. að hann ætlaði að stilla skap sitt í þessari umræðu og mér leiðist þessi útúrsnúningur sem hann var hér með. Ég var einfaldlega að benda á að það hefði átt sér stað veruleg aukning í þjónustu í heilbrigðiskerfinu víða í landinu, sérstaklega á nokkrum stöðum á landinu þar sem eru miðstöðvar, og regla eins og þessi gæti leitt til þess að vegna þess að það hefði gerst mundi viðkomandi staður falla undir þessa 35%-reglu. Hæstv. samgrh. virðist hafa tekið það þannig að ég væri að bera fram sérstaka gagnrýni á uppbyggingu heilbrigðiskerfisins sem hann m.a. hefur starfað við. Ég ætla á engan hátt að fara að blanda því máli saman við sjávarútvegsmál eða þá að ég ætli að fara að blanda saman við sjávarútvegsmál uppbyggingu verslunar í Reykjavík eða uppbyggingu banka o.s.frv. sem hefur gengið á í gegnum langan tíma og ýmsir bera ábyrgð á. Ég ætla ekki að fara að blanda þessu saman. En það er alger óþarfi af hans hálfu að taka þetta með þeim hætti nema um sé að ræða einhverja viðkvæmni út af þessum málum.

Ég er ekki mjög hrifinn af uppbyggingu íslenska heilbrigðiskerfisins. Ég tel að þar sé hið mesta bruðl á ýmsum sviðum og læknar hafi þar um ráðið allt of miklu. Þau eru ekki aum launin þeirra sem vinna á sjúkrahúsunum í Reykjavík. Ég gæti vel trúað því að það þyrfti eitthvað að líta ofan í skipulag þessara mála. En að vera að blanda því saman við þetta með þessum hætti finnst mér á allan hátt fremur ósmekklegt. Og ég ann þeim þess mjög vel á Vestfjörðum að búa við hina bestu heilbrigðisþjónustu og hef áhuga fyrir því að sú þjónusta sé sem mest út um land.

En rætt er um þá röskun sem hefur orðið í ýmsum byggðarlögum með tilflutningi skipa. Þar eru ýmsar ástæður. Á þeim stað sem hér hefur verið sérstaklega talað um eru ýmsar ástæður fyrir hendi. Það var löngu áður en sú fiskveiðistjórnun sem nú er var tekin upp að sú þróun byrjaði. Þannig er heldur ómaklegt að ætla að fara að rekja þá þróun sérstaklega til þess sem þar hefur gerst.

Hitt er svo annað mál að margir bátar í landinu hafa verið seldir til þeirra staða þar sem rækjuveiðin og rækjuvinnslan hefur dafnað best og þeir fengið þar ný verkefni. Auðvitað hafa rækjuveiðarnar og rækjuvinnslan orðið til þess að bjarga mörgum fiskiskipum frá gjaldþroti. En það er jafnljóst að

þau byggðarlög sem misst hafa þessi skip, annaðhvort vegna þess að þau hafa ekki trúað eins á þá uppbyggingu eða af öðrum orsökum, sitja eftir með skarðan hlut. Auðvitað þarf að ræða þau mál og líta til þeirra, en það er allt annað en einfalt. Og það er allt annað en einfalt að ná samstöðu um hverjir eiga erfiðast í þessu sambandi. Það koma mjög margir til mín og menn líta mjög misjöfnum augum á það.

En ég fullyrði að veruleg fjölgun skipa mun aðeins auka vanda íslensks sjávarútvegs. Auðvitað skipta örfá skip litlu máli í því sambandi, en ef á að koma yfir okkur bylgja af nýjum fiskiskipum mun það auka verulega vanda íslensks sjávarútvegs og gera okkur erfiðara um vik að taka á þeim vandamálum sem þar er þó verið að vinna að.