13.03.1987
Neðri deild: 63. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4205 í B-deild Alþingistíðinda. (3840)

340. mál, staðgreiðsla opinberra gjalda

Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. frá meiri hl. hv. fjh.- og viðskn. á þskj. 868. Áður en ég vík frekar að því áliti vil ég staðfesta það sem kom fram í ræðu hv. 3. þm. Reykv. að fulltrúar Bandalags starfsmanna ríkis og bæja sem mættu á fund nefndarinnar óskuðu eftir því og sögðu það vera skoðun BSRB að fresta ætti þessu máli um eitt ár. (Gripið fram í: Til að byrja með.)

Þetta er eitt af fjórum frumvörpum sem kölluð eru einu nafni staðgreiðslufrumvörp. Eitt er ekki komið á dagskrá til 2. umr. en nál. er tilbúið frá félmn., það fjallar um breytingar á tekjustofnalögum sveitarfélaga, en þetta frv. sem hér er um að ræða heitir „Um staðgreiðslu opinberra gjalda.“

Meiri hl. leggur til að frv. verði samþykkt með breytingu sem flutt er á sérstöku þskj.brtt. kemur fram á þskj. 871 og þar er gert ráð fyrir því að ríkissjóður greiði sveitarfélögunum þann hluta persónuafsláttar sem ráðstafað er til greiðslu útsvars vegna hvers launamanns á staðgreiðsluári eigi síðar en fyrir lok næsta mánaðar eftir eindaga staðgreiðslu opinberra gjalda. Þetta þótti ýmsum sveitarstjórnarmönnum mjög mikilvægt ákvæði og þrátt fyrir yfirlýsingar um að þetta yrði framkvæmdin og yrði komið fyrir í reglugerð, þá þótti ástæða til þess að taka af skarið og flytja þessa brtt. Meiri hl. leggur til að frv. verði samþykkt með þessari breytingu sem flutt er á sérstöku þskj.

Þá vil ég enn fremur, herra forseti, vegna ummæla hv. 3. þm. Norðurl. e. geta þess að formaður hv. fjh.- og viðskn. Nd. er jafnframt formaður þingflokks Framsfl., Páll Pétursson. Hann tók ekki brtt. 3. þm. Norðurl. e. sérstaklega fyrir í nefndarstarfinu og þess vegna taldi ég ekki ástæðu til að geta þessarar brtt. sérstaklega í minni framsöguræðu við það mál sem nú rétt áðan var lokið umræðu um.

Herra forseti. Minni hlutarnir munu skila sérstöku áliti og gera grein fyrir þeim, en undir meirihlutaálitið skrifa auk mín hv. þm. Páll Pétursson, Guðmundur Bjarnason, Halldór Blöndal og Ólafur G. Einarsson.