13.03.1987
Neðri deild: 63. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4207 í B-deild Alþingistíðinda. (3845)

341. mál, gildistaka staðgreiðslu opinberra gjalda

Frsm. 1. minni hl. fjh.- og viðskn. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Á þskj. 883 er nál. 1. minni hl. fjh.og viðskn.:

„Fyrsti minni hl. leggur til að frv. verði samþykkt en heimild til tekjuaukningar í eigin atvinnurekstri lækki í 15%.“

Tillaga hv. þm. Ragnars Arnalds í Ed. um að lækka þessa tölu í 10% var þar felld þannig að hér er gerð tilraun til þess að finna milliveg í þessu efni. Það er óþarfi að heimila þeim sem eru í eigin atvinnurekstri að bæta við sína frádráttarmöguleika eins og gert er ráð fyrir í þessu frv. Reyndar er ég sammála því, sem þeir Alþýðuflokksmenn hafa verið með, að fella þetta niður alveg, og væntanlega kemur sú tillaga þá fyrst til atkvæða og mun ég greiða henni atkvæði en síðan, ef hún fellur, sem gera má ráð fyrir, þá kemur þessi tillaga mín um 15% viðbót við tekjur í eigin atvinnurekstri til atkvæða.

Að öðru leyti flyt ég brtt. á þskj. 884 um að við 4. gr. bætist ný málsgrein sem er svohljóðandi:

„Nú hefur skattgreiðandi verið tekjulítill eða tekjulaus á árinu 1987 vegna veikinda, námsvistar eða atvinnuleysis og skal þá lækka álagðan tekjuskatt og útsvar í samræmi við viðmiðunarreglur sem ríkisskattstjóri setur.“

Ég held að hérna sé í raun og veru um mjög einfalda og sanngjarna tillögu að ræða og eðlilegt að flytja hana hér sem brtt. við þetta frv. til laga um gildistöku laga um staðgreiðslu opinberra gjalda.

Einnig væri auðvitað hugsanlegur hlutur að nefna í þessu sambandi af því að hér er komið inn á námsmenn að í nefndinni var ræddur sá möguleiki að þeir, sem eru að koma frá löngu námi, eru skattlausir núna á fyrsta ári, þeir fengju frið frá skattyfirvöldum áfram á fyrsta ári og vissar brtt. í þeim efnum voru sýndar í nefndinni en ekki náðist samkomulag um þær, því miður. Það er vissulega vandasamt að afmarka þessi tilvik sem rétt er að taka inn í þessa mynd. Á að takmarka þetta við námsmenn eina eða á að miða við alla þá sem eru að koma inn á vinnumarkaðinn í fyrsta sinni? Það kann að vera nokkuð snúið. Þær tillögur sem fram komu í nefndinni um þetta efni náðu ekki eyrum meiri hlutans og bersýnilega ekki ætlun hans að samþykkja neitt slíkt þó að það hefði auðvitað vel komið til greina við afgreiðslu þessa máls að mínu mati.

Ég veit ekki að hve miklu leyti við eigum að fara að eyða þessum kvöldfundi í almennt pólitískt pex, við hv. þm. Friðrik Sophusson, en ég hefði þó haldið hvað svo sem öðru líður að með ákvörðun um staðgreiðslu og einföldun persónuskattanna væri unnt, ef menn vildu, að skapa betri frið um það kerfi en verið hefur. Ég held að það sé skynsamlegt frá efnahagslegu sjónarmiði að reyna að skapa ákveðinn lágmarksstöðugleika í kringum skattamálin eins og aðra þætti efnahagsmála og vil gjarnan líta svo á að menn séu að reyna að finna þann lágmarkssamnefnara sem geti dugað þinginu og þar með þjóðinni í sambandi við álagningu á persónutekjusköttum í ríkissjóð. Hins vegar er allt hitt eftir, sem eru tekjuskattar fyrirtækjanna, og auðvitað er hneyksli að láta þau liggja eftir í friði. En það er svo sem ekki við öðru að búast af þessari stjórn.

En afstaða mín og Alþb. til frv. kemur fram á nál. á þskj. 883.