16.03.1987
Efri deild: 64. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4209 í B-deild Alþingistíðinda. (3849)

392. mál, almannatryggingar

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil þakka virðulegum forseta fyrir að hafa geymt 3. umr. þessa máls þar til í dag og þar með gefið mér færi á að taka þátt í afgreiðslu málsins héðan úr hv. deild. Við 1. umr. ræddi ég þetta frv. allítarlega og mun því ekki hafa mjög mörg orð um það nú.

Afstaða mín til þess er í stuttu máli sú að á meðan ég fagna því að meirihlutafrumvarp um lengingu fæðingarorlofs skuli loksins hafa séð dagsins ljós hér á hæstv. Alþingi, þá harma ég hversu seint það er fram komið og hvílík fljótaskrift verður að vera á því hér í meðförum Alþingis sökum tímaleysis. Jafnframt harma ég að á þessu frv. eru allnokkrir ágallar sem einfalt hefði verið að leiðrétta hefði vilji staðið til.

Í fyrsta lagi er hér lagt til að fæðingarorlof lengist úr þremur mánuðum í sex mánuði. Því er ég innilega samþykk, enda hef ég hér þrjú þing í röð flutt frv. þess efnis. Hins vegar hef ég það að athuga við þetta atriði frv. að lengingin gengur hægt fyrir sig. Það er áætlað að lengja fæðingarorlofið úr þremur mánuðum í sex á þremur árum héðan í frá að telja. Þetta hefði hins vegar mátt gera í einu stökki hefði öðruvísi verið á málum haldið. Ég tel ákaflega brýnt að svo sé gert vegna þess að þannig háttar til hér á landi að yfir 80% kvenna eru úti á vinnumarkaðnum og að sjálfsögðu enn þá hærra hlutfall kvenna á barneignaraldri, það er sennilega yfir 90%, og því er augljóst að lenging fæðingarorlofs í sex mánuði úr þeim þremur sem það er núna er mál sem enga bið þolir. Ég harma því að hæstv. ráðh. treystir sér ekki til að taka þetta skref í einu stökki, heldur leggur til að þessu marki, sex mánaða markinu, verði náð á nærri þremur árum.

Lenging fæðingarorlofs úr þremur mánuðum í sex hefur töluverðan kostnað í för með sér og á umliðnum þingum hef ég ævinlega lagt fram hliðarfrv. með fæðingarorlofsfrv. sem gerir ráð fyrir sérstakri tekjuöflun til að standa straum af þeim kostnaði sem þessi lenging hefur í för með sér. En það hefur farið fyrir því eins og fæðingarorlofsfrv. að það hefur aldrei fengist afgreitt.

Hitt meginatriðið í þeim frv, um fæðingarorlof og greiðslur í fæðingarorlofi sem hér liggja fyrir er sú tilhögun á greiðslunum sem frv. kveða á um. Samkvæmt greiðslufrv. bera heimavinnandi konur áfram skertan hlut frá borði hvað varðar fæðingarorlofsgreiðslur. Og þótt þær séu samkvæmt þessu frv. þó hærri hér á landi en annars staðar í nágrannalöndunum, þá tel ég engan veginn að þessar greiðslur séu þar með nógu háar. Samkvæmt frv. njóta heimavinnandi konur einungis fæðingarstyrks, sem kallað er, en ekki fæðingardagpeninga. Ég vil gera sérstaka athugasemd við þetta óskemmtilega orð, fæðingarstyrkur. Ég hefði frekar kosið að sjá orð eins og fæðingargreiðslur notaðar í frv. því mér finnst að með orðinu styrkur sé dálítið talað niður til kvenna sem ekki eru útivinnandi.

Ég hef verið og er þeirrar skoðunar að heimavinnandi konur ættu að njóta fullra viðmiðunargreiðslna og sitja að því leyti til við sama borð og aðrar konur hér á landi. Þær greiðslur eru nú um 32 þús. kr. á mánuði. Því hef ég ávallt lagt til að sú skerðing, sem frá upphafi hefur verið í gildi varðandi greiðslu fæðingarorlofs til heimavinnandi kvenna, yrði afnumin. Það er ekki gert í þessu frv. Heimavinnandi konur fá samkvæmt því helmingi lægri greiðslur en konur í fullu starfi úti á vinnumarkaðnum. Mér þætti reyndar ákaflega fróðlegt að heyra hvað þeir hv. þm. Framsfl., sem sæti eiga í þessari hv. deild, hafa um þetta atriði að segja. Því ef ég man rétt hefur það verið eitt af stefnumálum Framsfl. að heimavinnandi konur sætu við sama borð og aðrar konur hvað varðar greiðslur í fæðingarorlofi. En hér er nú komið fram og til 3. umr. stjfrv. sem kveður á um hið gagnstæða. Heimavinnandi konur munu áfram bera skertan hlut frá borði.

Hvað útivinnandi konur varðar kveður greiðslufrv. á um að þær fái auk fæðingarstyrks einnig fæðingardagpeninga. Og séu þær í fullri vinnu á vinnumarkaðnum þá nemur upphæðin rúmlega 33 þús. kr. á mánuði, sem er u.þ.b. 1000 kr. meira en þær fá nú miðað við núgildandi lög.

Ég hef haft þá skoðun á þessum málum og hef enn, og hún hefur komið fram í þeim frv. sem ég hef hér flutt um þetta mál, að réttast væri að greiða konum óskert laun í fæðingarorlofi, þeim konum sem eru úti á vinnumarkaðnum. Það er vegna þess að konur eru fyrirvinnur engu síður en karlar og við vitum það, og það er viðurkennt hér á hæstv. Alþingi, að í dag þarf hvert heimili tvær fyrirvinnur. Þess vegna skiptir ákaflega miklu máli að útivinnandi kona haldi sínum launum óskertum í fæðingarorlofi, vegna þess að á launum hennar byggir afkoma heimilisins einnig.

Ég vil benda á að það mun ekki muna mjög miklu í fæðingarorlofsgreiðslum hvort konum eru borguð út sín laun óskert eða hvort þær njóta fullra viðmiðunargreiðslna því launabil á milli útivinnandi kvenna hér á landi er afskaplega lítið. Samkvæmt nýjustu upplýsingum sem við höfum um þessi mál, þá er launum kvenna þannig háttað að aðeins 5% kvenna á vinnumarkaðnum ná meðallaunum karla. 95% kvenna eru þar fyrir neðan. Enda kom það fram þegar Tryggingastofnun ríkisins reiknaði þetta út fyrir mig í fyrra að það skipti nánast engu máli hvort greiddar voru út fullar viðmiðunargreiðslur til kvenna í fæðingarorlofi eða hvort þeim voru greidd full laun. Niðurstöðutalan var nokkurn veginn sú sama. Upphæðin var nokkurn veginn sú sama.

Einnig er þess að geta að með því að konur haldi fullum launum þegar þær taka fæðingarorlof þá metum við þau störf sem felast í því að annast um nýfætt barn jafnmikils og hvert annað starf sem móðirin hefur með höndum úti á vinnumarkaðnum. Ég tel ákaflega mikilvægt að það sé viðurkennt af hendi löggjafans að slíkt sé engu ómerkilegra en hvert annað launað starf.

Með því að skerða laun kvenna með þeim hætti sem frv. gerir ráð fyrir, þ.e. að þær haldi ekki fullum launum í fæðingarorlofi, þá má segja að verið sé að refsa konum launalega fyrir það að eiga börn. Þær lækka í launum sumar hverjar við það að fara heim og sinna börnunum, og það get ég heldur ekki samþykkt. Jafnframt er á það að benda, eins og fram kemur í þessu frv., að sumar konur halda óskertum launum í fæðingarorlofi samkvæmt þeim kjarasamningum sem þær búa við. Það eru konur, og feður einnig, sem eru opinberir starfsmenn og sem eru í félagi bankamanna. Þarna er því mikið ósamræmi á ferðinni. Sumar konur halda fullum launum, aðrar konur gera það ekki og það fer eftir því hvar þær eru á vinnumarkaðnum, samkvæmt þessum frv., hvorn hópinn þær skipa.

Ég tel afar nauðsynlegt að samræma þetta, að hið sama gildi um allar útivinnandi konur að þessu leytinu til, en það er ekki gert í þessu frv. Það eru ASÍ-konurnar, konur sem ekki teljast til opinberra starfsmanna eða bankamanna heldur eru innan Alþýðusambands Íslands, það eru þær konur sem ekki halda óskertum launum í fæðingarorlofi. Og þetta eru einnig sömu konurnar sem lægst hafa launin hér á landi.

Hvað varðar greiðslurnar sjálfar þá getur dæmið litið þannig út að kona, sem er opinber starfsmaður og hefur t.d. 40 000 kr. í mánaðarlaun og fer í fæðingarorlof, hún heldur sínum 40 000 kr. Kona, sem er í fullri vinnu annars staðar á vinnumarkaðnum og fer í fæðingarorlof, hún fær 33 000 kr. á mánuði. Kona í hálfri vinnu fær 24 000 kr. á mánuði og kona sem er heimavinnandi fær minnst af öllum eða aðeins 15 000 kr. á mánuði samkvæmt þessu frv. Hér er um mismunun að ræða sem ég get ekki með nokkru móti samþykkt.

Ég ætla ekki að ræða öllu ítarlegar um þessi frv. Það er margt í þeim sem til bóta horfir hvað varðar réttindin, einkum og sér í lagi í réttindafrv. sjálfu, og ég hef áður hér tiltekið. Hins vegar þykir mér enn upp á skorta að nægilegt tillit sé tekið til foreldra sem ættleiða börn og til móður sem fæðir andvana barn. Af foreldrum sem ættleiða barn er klipinn einn mánuður. Fæðingarorlof þeirra getur lengst orðið fimm mánuðir í stað sex hjá öðrum þegar frv. er komið til fullra framkvæmda. Ég sé engin rök fyrir því að stytta fæðingarorlof þessa foreldrahóps um einn mánuð. Hvað varðar móður sem fæðir andvana barn er aðeins gert ráð fyrir að hún njóti tveggja mánaða fæðingarorlofs, sem ég tel allt of, allt of skammt. Hún þarf skilyrðislaust a.m.k. þrjá mánuði til að ná sér eftir þá áreynslu sem barnsburðurinn er og þá ekki síst þá andlegu áreynslu sem felst í því að missa barn sitt í fæðingu. Þannig að ég er ekki sátt við það að henni séu aðeins skammtaðir tveir mánuðir.

Ég sé að hér liggur fyrir brtt. frá hv, þm. Kolbrúnu Jónsdóttur þess efnis að fæðingarorlofsgreiðslur til móður sem fæðir andvana barn skuli lengt um einn mánuð, í þrjá mánuði. Þessari tillögu er ég vitaskuld sammála og mun greiða henni atkvæði mitt, en ég held að hún sé ekki fullnægjandi eins og hún liggur hér fyrir vegna þess að það er ekki nóg að gera brtt. við 2. gr. frv. í þessu efni, heldur þarf brtt. einnig að ná til 1. gr. Fyrsta gr. kveður á um fæðingarstyrk og 2. gr. kveður á um fæðingardagpeninga og skv. brtt. nær þessi viðbótarmánuður einungis til greiðslu fæðingardagpeninga en ekki fæðingarstyrks, og þar af leiðandi er skv. þessari brtt. aðeins um að ræða hálfa greiðslu til móður sem andvana barn fæðir.

Einnig sé ég að meiri hl. heilbr.- og trn. hefur lagfært það atriði frv. sem kveður á um það hversu margar vinnustundir skuli liggja til grundvallar fullum fæðingarorlofsgreiðslum og fært það til samræmis við það sem nú er, þ.e. lækkað dagvinnustundafjöldann í stað þeirrar hækkunar á honum sem í frv. var að finna. Að óbreyttu hefði frv. því skert fæðingarorlofsgreiðslur til margra kvenna sem útivinnandi eru, en með þessari breytingu er það lagfært og er það tvímælalaust af hinu góða.

En meginþættir þessa máls og þær meginathugasemdir sem ég hef við það að gera eru þær að lenging fæðingarorlofs úr þremur mánuðum í sex tekur allt of langan tíma. Þessu hefði mátt ná með einu stökki. Og hitt atriðið er það hvernig konum er mismunað í greiðslum samkvæmt þessu frv. Mér þykir það bera til þó nokkurra tíðinda hér í hv. deild að hv. þm. samþykki greiðslufrv. vegna þess að það hefur gengið eins og rauður þráður í gegnum þær umræður, sem á þremur umliðnum þingum hafa orðið um þetta mál hér í hv. deild, að þm. vildu að greiðslur til kvenna í fæðingarorlofi væru jafnar. Það eru þær ekki í þessu frv. En samt sem áður eru horfur á að það muni njóta hér meirihlutastuðnings.

Virðulegi forseti. Ég hef ekki lagt fram brtt. við þessi frv. Annars vegar vegna þess að framsetning þeirra er svo flókin að til þess að leggja fram brtt. á þann veg sem ég hefði viljað sjá þessum málum fyrir komið hefði þurft að taka þessi frv. bæði upp á saumunum og smíða ný. Til þess gefst ekki færi við þær vinnuaðstæður sem nú eru hér á hæstv. Alþingi og við þau vinnubrögð sem hér eru nú stunduð.

Ég mun greiða fæðingarorlofsfrv., þ.e. réttindafrv., atkvæði mitt. Þar er að vísu of hægt farið við að lengja fæðingarorlofið, en allt er betra en ekkert í þessum efnum og því mun ég greiða því atkvæði. Greiðslufrumvarpið, sem kveður á um greiðslutilhögunina, get ég hins vegar alls ekki samþykkt. Þá miklu mismunun sem þar er um að ræða gagnvart konum í fæðingarorlofi get ég ekki með nokkru móti samþykkt og mun ég því sitja hjá við atkvæðagreiðslu um það frv.