16.03.1987
Efri deild: 64. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4213 í B-deild Alþingistíðinda. (3850)

392. mál, almannatryggingar

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Ragnhildur Helgadóttir):

Frú forseti. Það eru einkanlega tvö atriði í máli hv. 11. þm. Reykv. sem ég tel nauðsynlegt að fjalla aðeins um. Hið fyrra atriði var orðið fæðingarstyrkur. Ég held að það geti valdið nokkrum ruglingi í framkvæmd laganna að fara að breyta um þetta orð á þeim grundvelli að með því sé talað niður til kvenna eða einkanlega heimavinnandi kvenna, eins og hv. þm. sagði. Ég tel að það sé afar hæpið að leggja þennan skilning í orðið eða orðshlutann "-styrk“ að þessu leyti í samsetningum ýmiss konar í tryggingalögunum, því þá værum við komin inn á þá braut að við teldum að svo væri einnig um aðrar bætur sem kallaðar væru einhvers konar styrkur. Þetta orð hefur verið í almannatryggingalögum frá því er þau voru fyrst sett. Enn fremur orð eins og örorkustyrkur, ferðastyrkur til bótaþega sem sérstaklega stendur á um o.s.frv. Og það skyti skökku við ef við teldum að það væri eitthvað niðrandi eða ölmusulegt við þær tegundir bóta. Sama má segja um fleiri orð þar sem við notum orðið styrk án þess að fara á nokkurn hátt feimulega með það, eins og t.d. námsstyrk, starfsstyrk o.fl. Ég held þess vegna að þetta sé á misskilningi byggt og því fari fjarri að þetta sé nokkuð meira niðrandi en alla tíð hefur verið um fæðingarstyrk. Munurinn er sá að í þessu tilfelli er fæðingarstyrkurinn betur skilgreindur og upphæð hans miklu hærri en áður hefur verið.

Að því er varðar það sem fram kom í máli hv. þm., og kom þó enn skýrar fram í máli þm. við eldhúsdagsumræðurnar, að í þessu frv. fælist ranglæti gagnvart heimavinnandi konum, þá vil ég eindregið mótmæla því. Það er engin ástæða til þess að halda slíku fram nema síður sé því að í þessu tilviki er um að ræða 50% hækkun á þeim greiðslum sem heimavinnandi konur fá og allar fæðandi konur, sama greiðsla til allra af hálfu hins opinbera. Fæðingardagpeningarnir eru hins vegar alfarið fjármagnaðir af atvinnurekendum. Þannig að þarna er með miklu gleggri hætti skýrgreint hvað um er að vera heldur en áður hefur verið. Og ég er ekki ein um þessa skoðun af þeim konum sem bera hag heimavinnandi kvenna fyrir brjósti og ég vil láta hv. þm. vita að það hefur verið gert hér í þingi áratugum saman.

Mér barst í dag fögur kveðja, sem reyndar fulltrúar frá Bandalagi kvenna komu með ofan í þing rétt fyrir upphaf fundar í dag, og þar voru skráð á blað þessi orð, með leyfi hæstv. forseta:

„Á aðalfundi Bandalags kvenna í Reykjavík, 8. mars s.l., var samþykkt eftirfarandi ályktun: Aðalfundur Bandalags kvenna í Reykjavík lýsir eindreginni ánægju sinni með fram komið stjórnarfrumvarp um breytingu á lögum um fæðingarorlof. Í framhaldi af þessu sendir hagsmunanefnd heimavinnandi húsmæðra í Bandalagi kvenna í Reykjavík kærar kveðjur og þakkir fyrir þinn þátt“ - eins og hér stendur - „sem ráðherra heilbrigðis- og tryggingamála í undirbúningi og frágangi að þessu frumvarpi um breytingu á fæðingarorlofi sem við teljum að allar íslenskar konur hljóti að fagna.

F.h. hagsmunanefndar heimavinnandi húsmæðra,

Helga Guðmundsdóttir.

Ragna Jónsdóttir.“

Ég vil auðvitað taka það fram að þótt ég hafi sem ráðherra haft mikinn áhuga á framgangi þessa máls og undirbúningi þess, þá var minn þáttur í undirbúningi þess í raun og veru ekki annar en sá að tilnefna fólk í nefnd til að undirbúa það og útvega þá starfsaðstöðu sem í mínu valdi stóð, svo að það eru kannske fremur aðrir sem eiga þakkirnar og þá kannske fyrst og fremst þeir þm. sem að lokum munu standa að því að afgreiða þetta frv.

Þetta vildi ég nú láta fram koma til þess að það færi ekki á milli mála að sá hluti þessa máls sem varðar hag heimavinnandi húsmæðra hefur sannarlega verið skoðaður og menn komust að þeirri niðurstöðu, flestir aðrir en hv. 11. þm. Reykv. kannske, að hér sé um mikið réttlætismál að ræða einmitt gagnvart heimavinnandi húsmæðrum og þá náttúrlega að sjálfsögðu einnig hinum sem við höfum áður rætt um.

Þetta voru þá tvö atriði sem ég hef sérstaklega rætt um, frú forseti. Ef ég má nefna aðeins þriðja atriðið sem hv. þm. vék hér að og varðaði fæðingardagpeninga til þeirra kvenna sem fæða andvana barn eða verða fyrir fósturláti, sem jafna má til andvana fæðingar, þá get ég út af fyrir sig skilið þær hugmyndir. Það hefur áður komið hér fram við umræðurnar að tilgangurinn með greiðslunum er tvenns konar. Annars vegar er tilgangurinn sem felst í uppeldis- og umönnunarsjónarmiðinu. Honum er auðvitað ekki til að dreifa þegar ekki er um að ræða lifandi barn sem umhyggju þarf. Hins vegar er svo heilsufar móður. Því atriði er vissulega til að dreifa í þessu tilfelli og ég get vel fallist á að það kunni í mörgum tilvikum að vera svo að þar kunni hinn andlegi þáttur í heilsu móðurinnar sem misst hefur barnið að valda því að þessi tími verði lengri, þannig að konum verði a.m.k. gert kleift að vera lengur heima en ella væri. Ég vildi taka þetta fram, þannig að ég er út af fyrir sig ekki andvíg þeim hugmyndum sem hér hafa komið fram í hv. deild og brtt. um þetta.