16.03.1987
Efri deild: 64. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4217 í B-deild Alþingistíðinda. (3853)

392. mál, almannatryggingar

Helgi Seljan:

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að segja mikið við þessa umræðu. Ég kom inn á flest þau atriði sem ég vildi gera athugasemdir við þetta frv. við 2. umr. málsins. Ég ræddi þá rétt heimavinnandi kvenna alveg sérstaklega, ekki einungis rétt þeirra í þessu máli heldur rétt þeirra í fjölmörgum réttindamálum þeirra, og ég viðurkenndi að þó að hér væri ekki gengin gatan á enda gagnvart því sem margir hafa haft á orði um rétt þeirra til fæðingarorlofs, þá væri hér um áfangahækkun að ræða sem vissulega bæri að meta, hækkun á greiðslum til þeirra miðað við það sem er í dag.

Hitt er svo annað mál að svipað og hv. 11. þm. Reykv. gerði hér áðan, þá ég minnti á það sérstaklega hvernig þeir framsóknarmenn notuðu þetta í síðustu kosningum sem sérstakt kosningamál að þeir vildu skilyrðislaust og fyrirvaralaust sömu greiðslur til heimavinnandi kvenna og til útivinnandi kvenna í sambandi við fæðingarorlof og ekki hægt annað en að minna á það hér. Er greinilegt að þeir hafa þar skipt um skoðun eða þá að þeim þykir þessi áfangahækkun orðin nægileg.

Það er einnig rétt sem kom fram í máli hv. 11. þm. Reykv., og ég kom hér inn á við 2. umr., að þetta frv. felur í sér ákveðna mismunun varðandi laun. Um fullt réttlæti í því efni eigum við langt í land og í raun og veru byggist þetta ákvæði á þeim samningum sem gilda í þjóðfélaginu hverju sinni. Það er þess vegna grunnurinn sem þetta byggir á, launajafnréttið úti í þjóðfélaginu, eða launamisréttið réttara sagt, sem ákvarðar það í þessu sem öðru, úr því að verið er að bæta fólki tekjumissi, sem ákvarðar það að fæðingarorlofsgreiðslur eru svo misjafnar sem raun ber vitni. Það eru vitanlega samningarnir á vinnumarkaðnum, launamisréttið sem þar viðgengst sem endurspeglast í þessu eins og öllum öðrum félagslegum réttindamálum sem hér er komið inn á.

Ég hefði einnig kosið það fremur að í sambandi við fæðingarstyrk stæðu fæðingarlaun, fæðingargreiðslur eða eitthvað ámóta. Ég hins vegar játa það að styrkur er notaður í fjölmörgum greinum, bæði tryggingalaga og annarra laga, sbr. lög um námslán og námsstyrki, örorkustyrki, eins og hæstv. heilbr. og trmrh. kom hér inn á áðan, o.s.frv. En hins vegar er það rétt að þegar umræðan í nefndinni var um þetta þá var talað um það að breyta þessu orði einungis til þess að koma í veg fyrir allan útúrsnúning á því og það lét ég koma fram hér við 2. umr.

Ég vil hins vegar segja það svo í lokin að ég ætla ekki að fara að endurtaka og tefja umræður með því hér, eftir það samkomulag sem gert var s.l. föstudag, að endurtaka það sem ég kom inn á við 2. umr. málsins. Hér hefur verið lögð fram brtt. frá hv. þm. Kolbrúnu Jónsdóttur í þremur liðum. Ég mun að sjálfsögðu styðja alla þessa liði. Ég er í raun og veru búinn að rökstyðja af hverju ég styð 1. og 2. liðinn, það gerði ég við 2. umr. málsins, en 3. liðinn styð ég sem vissan áfanga. Það snertir annað mál sem hér er á dagskrá þessa fundar. Ég sé alveg hversu það muni fara þar sem meirihlutaálit liggur þar fyrir um frávísun þess máls eða vísun til ríkisstjórnar og þar af leiðandi mun ég greiða þessari brtt., um ákvæði til bráðabirgða varðandi þetta mál, atkvæði af þeirri einföldu ástæðu að það er þó í áttina við það sem við í minni hl. félmn., hv. 11. þm. Reykv. og ég, höfum lagt þar til með brtt. við það mál.

Hitt vil ég svo láta koma skýrt fram að þrátt fyrir athugasemdir ýmsar þá mun ég greiða þessu frv. atkvæði. Ég tel mig nefnilega ekki vera að greiða mismunun atkvæði í þessum efnum, ég tel mig vera að greiða atkvæði með áfangahækkun sem er jafnvel meiri en ég átti von á frá hálfu þessarar ríkisstjórnar þó vitanlega ætli hún ekki að efna neitt af því fyrr en hún hefur geispað golunni eins og ég sagði hér áður. (Heilbrmrh.: Ekki fyrr en hún á aura til þess.) Ja, hún hefur nú átt aura til ýmissa hluta, hæstv. ráðh., ef við ættum að fara að lengja umræðuna um það. Ríkisstjórnin hæstv. hefur nefnilega átt aura til ýmissa hluta en ekki til þessa þannig að ég held að við ættum að fara varlega í að lengja umræður hvað það snertir.

En ég segi það að þegar eitt af fáum réttlætismálum hæstv. ríkisstjórnar er þó hér til meðferðar og þó hún ætli vitanlega ekki að efna það á sínum líftíma heldur eigi aðrir að efna það, þá mun ég greiða þessari áfangahækkun atkvæði þó ég hafi, eins og ég gerði grein fyrir við 2. umr., fjölmargar athugasemdir við þetta að gera. Vegna þess að ég tel að með því að greiða því atkvæði, þá sé ég þó að þoka máli til réttrar áttar þó mikið vanti á að þar sé fyllsta réttlæti náð.