16.03.1987
Efri deild: 64. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4226 í B-deild Alþingistíðinda. (3869)

10. mál, leyfi frá störfum vegna umönnunar barna

Karl Steinar Guðnason:

Virðulegi forseti. Það kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni að það væri ástæða til að samþykkja þetta litla mál. Ég lít á þetta sem nokkuð stórt mál, alls ekki lítið mál, mál sem er mikils virði fyrir þær konur sem koma til með að njóta þess í framtíðinni. Ég er hins vegar á þeirri skoðun að þetta mál þurfi meiri skoðunar en fengist hefur nú, einmitt með tilliti til þess að þetta geti virkað eins og menn ætlast til.

Ég hef nokkra reynslu af samningagerð og samskiptum við þann aðila vinnumarkaðarins sem rekur fyrirtækin. Þess vegna er mér það ljóst að það verður að tryggja frið um þessa framkvæmd. Við verðum líka að tryggja það að þeir sem fást til afleysinga í þetta langan tíma fái sinn rétt líka. Við þurfum að tryggja að það myndist ekki stétt fólks, eða kvenna, sem er vísað úr einu starfinu í annað og njóti ekki neinna réttinda vegna þess að það er alltaf í afleysingum. Aðrir haldi störfunum fyrir þessu fólki og því öryggi sem fastráðningu fylgir. Þess vegna tel ég rétt að þetta mál verði skoðað frekar. Eina vitið hefði verið að samþykkja till. Kolbrúnar Jónsdóttur, en þar segir í ákvæði til bráðabirgða:

"Heilbr.- og trmrh. skal þegar í stað skipa nefnd með aðild samtaka vinnumarkaðarins sem hafi það verkefni að gera tillögu um rétt foreldra til leyfis frá störfum vegna umönnunar barna.“

Þetta var því miður fellt. En ég hygg að svona vinnubrögð eins og tillagan gerir ráð fyrir séu skynsamleg. Og ég vísa í það hvað sem hver segir að allt frumkvæði um rétt kvenna í þessum efnum hefur komið frá alþýðusamtökunum. Allt frumkvæði. Skrefin hafa öll verið stigin á þeim vettvangi, síðan flutt inn á Alþingi til frekari staðfestingar og af velviljuðum aðilum gert að lögum.

Ég óttast það að ef þessi tillaga sem hér liggur fyrir frá hv. 11. þm. Reykv. verður samþykkt, þá geti hún orðið til þess að skapa öðrum konum erfiðleika sem erfitt verður við að fást ef ekki verður tekið á því strax. Þess vegna er ég inni á því að þessu máli verði vísað til ríkisstjórnarinnar. Ég hef ekki tekið þátt í því áður að vísa máli til ríkisstjórnar en við förum nú væntanlega að skipta um ríkisstjórn innan tíðar og við skulum vona að sú ríkisstjórn taki á þessu stórmáli föstum tökum.