16.03.1987
Efri deild: 65. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4232 í B-deild Alþingistíðinda. (3881)

196. mál, tollalög

Frsm. fjh.- og viðskn. (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Virðulegi forseti. Á milli umræðna hafa nefndarmenn í fjh.- og viðskn. haldið með sér óformlega fundi. Það hafa komið ýmsar ábendingar fram um orðalag sem betur gæti farið og minni háttar efnisbreytingar og við flytjum, sex af sjö nefndarmönnum, þessa till. en sá sjöundi, hv. þm. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, hafði ekki aðstöðu til að vera á fundum þar sem þessi mál bar á góma vegna veikindafjarveru.

Tillögur þessar eru í fjórum liðum. Það hefði nú kannske mátt númera það. 1. liður er við 6. gr., 2. liður við 27. gr., 3. liður við 96. gr. og 4. liður við 103. gr. Efnisatriðin eru þau að í tölul. 1 sem ég var að nefna er bætt inn í heimild til að fella niður gjöld af hráefni vegna iðnaðar. Þegar þetta frv. var í smíðum mun hafa verið höfð hliðsjón af því að virðisaukaskattur yrði e.t.v. tekinn upp á þessu þingi og orðalagi breytt en menn eru sammála um að eðlilegt sé að halda núgildandi orðalagi með hliðsjón af því að þessi breyting hefur ekki á orðið.

Við 2. lið hafði verið breytt örlitið til um tollumdæmi og einn hreppur færður til í umdæmi en þessu er breytr til fyrra horfs og skýrir sig sjálft.

Síðan eru tölul. 3 og 4. Þar er fjallað um tolleftirlit og aðflutningsskýrslur og efni þessara tillagna er í rauninni það að í frísvæði svokölluðu gildi sömu reglur og í tollgeymslunum en tollgeymslan er nú reyndar einungis ein til þessa. Þannig má vinna iðnaðarvöru á þessu frísvæði og ef hún er flutt t.d. til útlanda, fullunnin, kemur aldrei til neinnar tollgreiðslu og yfirleitt ekki fyrr en varan fer út af frísvæðinu. Einnig um þetta eru menn sammála og vænti ég þess að þessar brtt. verði samþykktar. Þess er að geta að það verður haft samráð að sjálfsögðu við neðrideildarnefndina eða formann hennar og ég hygg að hv. þm. Nd. muni einnig vera stuðningsmenn þessara breytinga. Þær eru allar til bóta, hygg ég, og þess vegna muni það ekki seinka neitt afgreiðslu málsins sem nemur þó að það þurfi að ganga aftur til hv. Nd.