16.03.1987
Efri deild: 65. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4233 í B-deild Alþingistíðinda. (3882)

196. mál, tollalög

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Eins og fram kemur í nál. hv. f] h.- og viðskn. ritaði ég undir álitið með fyrirvara. Ástæðan er einfaldlega sú að frv. þetta hefur verið æðilengi í neðra, kemur ekki til okkar hér í þessari deild fyrr en á seinustu dögum þingsins, og um er að ræða mjög viðamikið og margbrotið mál og því nær útilokað fyrir menn jafnhliða því geysilega annríki sem er við lýði hér á Alþingi þessa dagana og hjá þm. vegna komandi kosninga að gera þá úttekt á málinu sem þörf væri á.

Þó get ég lýst því yfir að ég tel að meginstefna frv. sé rétt. Þarna er verið að endurskipuleggja yfirstjórn tollamála í landinu og ég tel að breytingarnar séu til bóta frá því sem nú er. Þess vegna er ég hlynntur meginefni frv. en ég hef hins vegar ekki verið í aðstöðu til að fara ofan í einstakar greinar til að átta mig á því hvort ekki væru þar verulegir hnökrar á.

Í þessu frv. er jafnhliða verið að koma fram geysimikilvægu máli sem er svonefnd tollkrít. Á sínum tíma var ég eindregið hlynntur því að tekin yrði upp tollkrít þegar ég gegndi embætti fjmrh. og flutti um það frv. hér í þinginu á seinustu mánuðum þess þings, árið 1983. Mér finnst að núverandi ríkisstjórn hafi legið nokkuð lengi á þessu máli og sé kannske nokkuð sein að koma með þetta inn í þingið núna, að við séum hér í Ed. að afgreiða þetta stóra mál á seinustu dögunum. Staðreyndin er auðvitað sú að þetta er mál sem kostar ríkissjóð býsna mikla fjármuni og það er eftirtektarvert þegar maður les grg. fyrir þessu frv. að það er ekki minnst á það einu einasta orði hvað þetta frv. kosti ríkissjóð mikla fjármuni en við umræðu í nefndinni var það upplýst af starfsmanni ráðuneytisins að í dag væri áætlað að kostnaður við framkvæmd frv. yrði um 300 millj . kr. sem stafar einfaldlega af því að tollatekjur innheimtast síðar eftir að frv. er orðið að lögum en áður hefur verið og það verður því tilflutningur í greiðslum inn í ríkissjóð sem verður varanlegur. Vissulega koma þessar greiðslur á endanum í ríkissjóð en vegna þess að þær koma þetta mikið seinna en áður tapast á fyrsta árinu sem þetta kemur til framkvæmda einar 300 millj. kr. og þær endurheimtast ekki heldur má segja að ríkissjóður sé síðan stöðugt þessum 300 millj. kr. á eftir að fá inn þessar tekjur. Ég sé nú að hæstv. iðnrh. hristir höfuðið og virðist ekki vera sammála mér en þetta er staðreynd og það er vissulega mikið kæruleysi hjá Alþingi að afgreiða þetta mál án þess að gera sér alveg fullkomlega grein fyrir þessari staðreynd, 300 millj. kr. eru nú engin smáupphæð. Vissulega ættu menn að horfast alveg í augu við að þarna er um geysilega mikið tekjutap ríkissjóðs að ræða á árinu 1988 þegar þetta kemur til framkvæmda í fyrsta sinn. Auðvitað verður að reyna að afla tekna á móti til þess að ekki komi út samsvarandi hallarekstur ríkissjóðs þar á móti en það verður ef ekkert er að gert.

Ég hefði því talið að eðlilegur undirbúningur þessa máls hefði líka verið fólginn í því að menn hefðu hugað að því með hvaða hætti þeir ætluðu að afla þessara tekna á móti, þessara 300 millj. kr. Mér finnst það satt að segja ansi mikið kæruleysi og svona í stíl við annað hjá þessari ríkisstjórn að gefa út ávísun á ríkissjóð upp á 300 millj. kr. án þess að nokkur tilraun sé gerð til að átta sig á því með hvaða hætti þetta skarð verði fyllt. Eins og ég hef þegar sagt er þetta bara í stíl við svo margt annað sem er að gerast hér í þinginu þessa dagana. Það er verið að gefa út ansi stóra gúmmítékka, loforð upp á æðimörg hundruð milljóna og jafnvel þúsundir milljóna án þess að við fáum nokkuð að vita um það hvað á að koma í staðinn, hvernig ríkisstjórnin ætlar að framkvæma þetta. Og meðan svo er óttast maður auðvitað að hér sé um tómt mál að tala. T.d. munu fæstir hafa ýkja mikla trú á ríkisstjórn sem hefur árum saman vanrækt að koma langtímaáætlun í vegamálum til framkvæmda og ævinlega skorið niður framlög til vegaframkvæmda á árinu en verið síðan með geysiháar tölur um framkvæmdir á árinu þar á eftir og þannig hefur þetta gengið núna ár frá ári og er enn svo að menn skera framkvæmdir í vegamálum svo niður að það er ekki varið til þeirra nema 2/3 hlutum af því fé sem á að vera samkvæmt vegáætlun. Svo setja menn sér fyrir að á næsta ári fáist svo og svo mörg hundruð til viðbótar til þessara mála, sem sagt: Lofa upp í ermina á sér án þess að gera nokkra grein fyrir því hvernig fjármunanna verði aflað.

Eins og ég hef þegar sagt er afgreiðslan á þessu máli, tollamálinu með tollkrít sem kostar ríkissjóð 300 millj. kr., í nákvæmlega sama stíl. Það er engin grein gerð fyrir því hvernig á að afla ríkissjóði þarna tekna á móti sem auðvitað verður óhjákvæmilegt og það er ekki einu sinni vakin athygli á því í grg. frv. eða í umræðum af hálfu ríkisstjórnarinnar og ráðherra hennar að þarna sé um svo fjárfrek áform að ræða. Með þessum fyrirvara sem ég hef nú gert grein fyrir lýsi ég því yfir að ég tel að frv. í heild horfi í sjálfu sér í rétta átt og ég mun því styðja það.