16.03.1987
Neðri deild: 64. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4242 í B-deild Alþingistíðinda. (3898)

119. mál, umferðarlög

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Hér er um það að ræða hvort taka eigi upp eina samræmda skráningu bifreiða fyrir landið allt eða halda skráningu í einstökum umdæmum eins og verið hefur. Breytingar í þá átt sem frv. eins og það kom frá Ed. gerir ráð fyrir hafa verið lengi á dagskrá. Það er upplýst af Bifreiðaeftirliti ríkisins og fleiri aðilum sem koma nálægt skráningu á bifreiðum að hér væri um verulega einföldun og sparnað að ræða og tilfinningasemi af því tagi sem fylgir því að eiga gömul eða lág númer verður að mínu viti að víkja fyrir slíku hagræðingaratriði, enda færist það lengra og lengra aftur í fortíðina að einhverjir tilteknir menn fengu fyrstu númerin. Ég hygg að þetta erfiða mál mætti leysa á þann hátt að þegar settar verða reglur eða reglugerð um skráningu samkvæmt hinu nýja kerfi verði þeim sem eiga sérstaklega falleg og lág númer heimilað að hengja gömlu plöturnar ofan við nýju skráningarnúmerin og þar með væri þetta mál leyst og mikil einföldun og sparnaður hefði náðst fram. Ég segi því nei við þessari brtt.