16.03.1987
Neðri deild: 64. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4253 í B-deild Alþingistíðinda. (3929)

318. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það er hressilegt rétt fyrir þinglokin að taka smásnerru um húsnæðismálin. Við höfum rétt einu sinni enn heyrt í þessum hv. þm., varaformanni Alþfl., frú Jóhönnu Sigurðardóttur, 2. landsk. þm., þar sem hann lýsir þeirri skoðun sinni, sem marglýst hefur verið yfir, að það er eitur í hans beinum að almenn úrlausn fáist í húsnæðismálum og að menn fái að sitja við sama borð.

Síðast þegar við töluðum um þessi mál hér í deildinni var það skoðun þessa hv. þm. að það ætti að skera niður lánsfyrirgreiðslu Byggingarsjóðs ríkisins til þeirra sem vildu kaupa notaðar íbúðir, talaði um að upp hefði komið í stjórn Húsnæðisstofnunar tillaga um það að skilyrða ætti að 50% lánsfyrirgreiðsla seljanda skyldi koma til ef menn fengju lán til kaupa á notaðri íbúð úr Byggingarsjóði ríkisins. Þetta var staðfest af formanni Alþfl. við þær umræður.

Þarna er um verulega lækkun að ræða. Eins og við vitum er það svo nú að þessi lánsfyrirgreiðsla getur að hámarki orðið allt að 70% af söluverði íbúðarinnar. Þetta átti að skera niður. Það átti að skerða hag þessa fólks til þess að hægt væri að koma fram sjónarmiðum eða hugsjónum Alþýðuflokksmanna, krata, víðs vegar um landið þegar þeir vilja seilast í vasa skattborgaranna til að standa við þau loforð sem þeir hafa gefið í hinum ýmsu sveitarfélögum, sem eru í því fólgin að það eigi ekki aðeins að rétta þessu fólki fé frá sveitarfélögunum sem svarar 15-20% eftir atvikum af kaupverði eða byggingarverði íbúðar. Það er ekki nóg með að það eigi að skattleggja sérstaklega þetta fólk í sveitarfélögunum heldur á að veita þessu fólki sérstaka fyrirgreiðslu í Byggingarsjóði verkamanna og Byggingarsjóði ríkisins, 80-85% úr Byggingarsjóði ríkisins. Meðan aðrir verða að láta sér nægja 70% eiga þessir að fá 8085% úr Byggingarsjóði ríkisins plús 15 eða 20% frá sveitarfélögunum og þar að auki á svo að víkka út lánsfyrirgreiðslu Byggingarsjóðs verkamanna. Með þessum hætti á að auka á mismunun í þjóðfélaginu. Ég sá líka Alþýðublaðið sem maður fékk allt í einu inn um dyrnar hjá sér án þess að það væri í „konfelúttu“. Það var mikið viðtal við efsta mann á lista Alþfl. í Reykjavík þar sem hann sagði að í félagslegum málefnum ætti hann samleið með Alþb., en auðvitað ekki Sjálfstfl. sem vill vinna að því að menn sitji við sama borð og reyni að spjara sig.

Ég vil fyrst segja: Þetta er auðvitað ágæt till. sem hv. þm. hafa borið fram, hv. þm. Kjartan Jóhannsson, hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson og hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson, þess efnis að félmrh. sé heimilt að höfðu samráði við ASÍ, VSÍ og VMSS að setja reglur um að skerða eða hafna lánveitingu úr Byggingarsjóði ríkisins ef umsækjandi á íbúð sem talist getur fullnægjandi að dómi húsnæðisstjórnar. Nú á að láta húsnæðisstjórn meta það og ráða því hvaða íbúð er fullnægjandi. Ef þessir matsmenn, ef þessi yfirdómur þessara þm. metur það svo að einhver íbúð sé fullnægjandi á að svipta viðkomandi mann lánsrétti úr Byggingarsjóði ríkisins. Þetta eru þeirra hugsjónir. Svipta hann lánsréttinum.

Nú var það svo að við spurðum að því, sem vorum í húsnæðisnefndinni, fulltrúa verkalýðshreyfingarinnar, sem komu að hitta okkur, hvort þeir vildu fara þannig að að menn ættu ekki jafnan rétt til lána úr Byggingarsjóði ríkisins. Þeir sögðu að það yrði að vera svo, að rétturinn yrði að vera jafn vegna þess að þetta fólk allt saman, félagar í lífeyrissjóðunum, greiddi til lífeyrissjóðanna og þetta fólk hefði rétt til lána úr lífeyrissjóðunum eins og þá var. Það var þess vegna hér verið að tala um að þrengja lánareglur lífeyrissjóðanna þannig að meira fé en áður færi til húsnæðismálanna, en á hinn bóginn talið nauðsynlegt bæði af verkalýðsfélögum og vinnuveitendum að um leið og lánsrétturinn yrði með þessum hætti þrengdur yrði fólkinu ekki bannað að fá lán úr Byggingarsjóði ríkisins til að kaupa sér íbúð. Sá réttur hefur raunar alltaf verið. Sá réttur var þegar Alþfl. fór síðast með embætti húsnæðisráðherra. Magnús Magnússon var þá húsnæðisráðherra og skildi að vísu eftir sig þann eftirmála að þá hafði verulega verið skert það fé sem ríkið lagði til húsnæðismálanna og var það upphafið á ógæfusögu Byggingarsjóðs ríkisins. Hún hófst með sæti Magnúsar Magnússonar uppi í félmrn. 1979. Þá var ekki spurt um það, ef menn vildu byggja hús, hvort þeir ættu íbúð fyrir. Það var ekki spurt um það. Þeir fengu lán til að byggja sér íbúð. Það var á hinn bóginn þannig að lánveitingar til þeirra sem voru að kaupa notaðar íbúðir voru mjög óverulegar, en þær voru líka mjög óverulegar til þeirra sem ekki áttu íbúð fyrir. En fyrir þá sem voru að byggja var þessi lánsréttur alveg tvímælalaus.

Á bak við þessa hugsun, að lánsrétturinn skuli vera jafn, er þessi skoðun aðila vinnumarkaðarins að þeir menn sem greiði fé í lífeyrissjóðina skuli allir sitja við sama borð. Þetta hefði einhvern tíma verið talin jafnaðarhugsun, en það er nú komið svo fyrir jafnaðarmannaflokknum að hann er að verða einhver mesti ójafnaðarmannaflokkur veraldarinnar með því ævinlega að koma hér inn á Alþingi með hvers kyns útgjaldatillögur sem eru til þess fallnar að misbjóða fólki og veita sumum sérréttindi á kostnað annarra. Þetta ern mergurinn málsins í því sambandi.

Ég get vel tekið undir það og hef oft sagt, og flutt þá ræðu margsinnis í þessum stól, að okkur hafi tekist með húsnæðislögunum fyrir einu ári, eða þeirri samþykkt sem þá var gerð og staðfest á Alþingi á s.l. vori, að stórauka svo fé til húsnæðismála að gagnvart þeim sem ekki eiga íbúð fyrir erum við sennilega að margfalda fjárhæðirnar með 3-4 ef um nýbyggingu er að tefla og enn þá meira ef um notað húsnæði er að tefla. Og sömuleiðis gagnvart þeim sem íbúð áttu fyrir. Þar er líka um margföldun fjármuna að ræða. Þetta er auðvitað mjög stórt skref sem við stígum þarna og það hljóta allir að skilja að það hlýtur að taka á bæði ríkissjóð og lífeyrissjóðina að standa undir allri þessari auknu fjáröflun.

Alþfl. hefur kvartað undan því að vextir séu háir og ýmsir fleiri eru að kvarta undan því að vextir séu háir. Hvers vegna eru vextir háir nema vegna þess að eftirspurnin eftir innlendu fjármagni er meiri en framboðið? Það er m.a. skýringin á því hvers vegna vextir af lífeyrissjóðslánunum til húsnæðislánakerfisins eru jafnháir og raun ber vitni. Ef við á hinn bóginn vildum auka þessi framlög verulega, skattleggja þjóðina til að auka húsnæðislánin - Ég tók rétt eftir því að efsti maður á lista Alþfl. í Reykjavík hefur fundið það að þeirri ríkisstjórn sem nú situr að hún hafi hleypt kaupmættinum of hátt á s.l. ári og rétt hefði verið að auka skattheimtuna. - ef við hefðum aukið skattheimtuna með þeim hætti, aukið fé í húsnæðisgeiranum mundi eftirspurnin vaxa enn þá meira eftir húsnæðinu. Byggingar mundu þjóta upp. Það mundi koma þensla í byggingarmarkaði. Þetta mundi þýða að innan tíðar hlyti að koma til samdráttar eins og gerst hefur sums staðar úti á landi með allri þeirri ógæfu sem því fylgir.

Okkur hefur tekist að koma húsnæðislánunum upp í rétt um 2,5 millj. til þeirra sem eru að byggja í fyrsta skipti eða 70% af byggingarverði. Þetta er mjög mikill og merkur áfangi. Það hefur verið talað um að fá nokkra reynslu af því hvernig þetta nýja kerfi muni reynast og við vitum það, sem höfum kynnt okkur þessi mál, að yfirgnæfandi líkur benda til þess að sú fyrirgreiðsla sem nú er veitt muni duga til þess að fólk lendi ekki í samsvarandi greiðsluerfiðleikum og meðan gamla húsnæðislánakerfið var við lýði og það jafnvel þótt húsnæðislánin hafi verið hækkuð um 50% á árinu 1984 til þeirra sem voru að byggja sína fyrstu íbúð. Þá var samt komið í ljós að sú hækkun reyndist ekki nóg og ýmsir lentu í greiðsluerfiðleikum.

Nú er hér verið að tala um það að ef þessi dómstóll þingmanna, sem hér er lagt til að setja, telji íbúðina fullnægjandi eigi viðkomandi ekki að fá lánsfyrirgreiðslu úr Byggingarsjóði ríkisins ef hann vill selja þessa íbúð og kaupa aðra stærri. Þetta er í miklu ósamræmi við málflutning hv. 2. landsk. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur þegar hann er að ræða um það fólk sem lenti í greiðsluerfiðleikunum, greiðsluvandanum. Margt af því fólki átti íbúð fyrir og mér hafa sagt bankastjórar að margir þeir sem í mestum erfiðleikunum stæðu hefði einmitt verið fólk sem hefði verið að stækka við sig, fara úr minni íbúð í stærri, en hefði síðan ekki getað selt íbúðina. Ef þessi dómstóll hefði dæmt fyrri íbúð fullnægjandi, nógu stóra að mati þingmanna hérna, áttu þeir ekki að fá lánsfyrirgreiðslu úr Byggingarsjóði ríkisins. Það er þeirra tillaga.

En mergurinn málsins er sá að nauðsynlegt hefur reynst að koma þessu fólki til hjálpar hvað eftir annað og vonir standa til að sú mikla fyrirgreiðsla sem þannig hefur verið veitt muni duga til þess að þetta fólk geti komið fótunum undir sig.

Herra forseti. Ég skal ekki hafa um þetta miklu fleiri orð. Við höfum oft tekið snerru um húsnæðismálin. Sú lausn sem ég hef lagt til er almenns eðlis. Við eigum að koma til móts við alla borgara þessa lands. Þeir menn sem hafa fulla heilsu og dugnað til að koma sér vel áfram eiga auðvitað að eiga kost á því að fá íbúð á frjálsum markaði og við eigum að efla Byggingarsjóð ríkisins til þess að sá kostur geti orðið betri en hann er nú. Á hinn bóginn eru ævinlega margir sem nauðsynlegt er að koma sérstaklega til móts við með félagslegum aðgerðum. Ástæðurnar geta verið margvíslegar. Það getur verið hjónaskilnaður., heilsubrestur, viðkomandi getur af ýmsum öðrum ástæðum lent í erfiðleikum. Til þess að mæta þessu er Byggingarsjóður verkamanna og hann veitir fé til verkamannabústaða. Það er mjög nýstárlegt að heyra nú að það skuli vera Alþfl. sem hefur sett fram mestar efasemdir um að þeir eigi lengur rétt á sér, að þeir svari kröfum tímans, eins og komið hefur fram í ræðum a.m.k. eins þm. Alþfl., og það er líka merkilegt að annar þm. Alþfl. skuli hafa haldið því fram hér í þessum stól að vart sé að treysta verkalýðshreyfingunni í sambandi við þá sem verst mega sín og úrlausn þeim til handa á félagslegum grundvelli í sambandi við íbúðir. Mjög er merkilegt að slík orð skuli hafa fallið frá þeim mönnum sem telja sig arftaka Héðins Valdimarssonar og Jóns Baldvinssonar.

En auðvitað viljum við sjálfstæðismenn byggja á sjálfseignarstefnunni. Við viljum að einnig þeir sem verr eru settir eigi kost á því að eignast íbúð í verkamannabústöðum og að sjálfsögðu er nauðsynlegt að leiguíbúðir sveitarfélaga séu við lýði áfram. Hitt væri svo fróðlegt að fá nánari útlistun um. Ég sé að hv. 3. þm. Reykn. hefur kvatt sér hljóðs. Hann hefur ekki svo að ég muni áður talað um kaupleiguíbúðirnar í sölum Alþingis, en ég veit að hann íhugar mjög vel sitt mál og væri fróðlegt að fá frá honum upplýsingar um hvað raunverulega felist í kaupleiguíbúðartilboði Alþfl. þannig að menn geti glöggvað sig á því hvað býr þar á bak við.