16.03.1987
Neðri deild: 64. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4260 í B-deild Alþingistíðinda. (3932)

318. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Hv. 2. þm. Norðurl. e. hefur komið sér upp mjög harðskeyttri ræðu um húsnæðismál. Hann flytur þessa ræðu yfirleitt alveg án tillits til þess hvaða umræða er annars í gangi á sviði húsnæðismála. Það er þess vegna ekkert skrýtið þó að hann hafi sett á fulla ferð með þessa ræðu sína áðan. Þar fengum við að heyra ýmsa hluti sem við erum flestir farnir að kunna nokkurn veginn utan að, m.a. um kaupleiguíbúðir.

Hæstv. félmrh. virðist aftur á móti hafa misskilið tvennt. Í fyrsta lagi verður aldrei hægt að afsala því valdi út um borg og bý hvort lögum er breytt eða ekki. Það verður Alþingi ávallt að taka ákvarðanir um. Í annan stað: Sé ráðherra veitt heimild, eins og hér er gert ráð fyrir, getur kerfið ekki hrunið vegna heimildarinnar nema ráðherrann misnoti heimildina. Eini möguleikinn til þess að heimildin verði skaðvænleg einum eða neinum er að ráðherra misnoti heimildina. Í þessu tilfelli hlýtur það að vera fyrsti valkostur ráðherra að nota ekki heimildina og í annan stað að nota þá heimildina á þann veg að hún sé, eins og hér er gert ráð fyrir, á þann hátt að aðilar vinnumarkaðarins geti við unað.

Hins vegar flutti hv. 7. þm. Reykv. áðan athyglisverða ræðu þar sem hann vakti athygli á því að það er gjörsamlega óverjandi að á meðan margir munu fá að bíða mánuðum saman, e.t.v. á annað ár, eftir úrlausn sinna mála, sé tekin ákvörðun um það að greiða út úr Húsnæðisstofnun ríkisins niðurgreitt fé til þeirra aðila sem að fullu gætu borið kostnað af sínum íbúðarkaupum. Það er ekki spurning um jafnrétti að leggja til að þetta sé á annan veg. Eins og kerfið er í dag býður þetta upp á glórulaus forréttindi handa þeim hópum sem búnir eru að koma sér fyrir í þjóðfélaginu, glórulaus forréttindi. Hví skyldi Alþingi Íslendinga fyrr huga að því að þeirra vandi sé leystur sem svo vel hafa komið sér fyrir á sama tíma og vandi hinna er látinn bíða?

Í annan stað er verið að fitja hér upp á einhverri nýjung í lagasmíð sem ekki hefur verið áður í lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins. Með leyfi forseta langar mig að lesa hér upp úr lögunum eins og þau voru samþykkt og hljóða í lagasafninu sem er frá 1973. Það eru ekki lögin sem eru í gildi núna en þar segir svo í 3. gr.:

„Umsækjandi byggir fleiri en eina íbúð. Heimilt er húsnæðismálastjórn að hafna eða skerða lánveitingu til þeirra umsækjenda sem áður hafa fengið fullt lán úr Byggingarsjóði ríkisins eða Byggingarsjóði verkamanna og eiga íbúð sem talist getur fullnægjandi að dómi húsnæðismálastjómar.“

Það er ekki verið að brjóta neitt blað í þingsögunni með því að leggja til þá brtt. sem hér hefur verið talað fyrir. Hér er aðeins verið að feta þá slóð að gera ráð fyrir því að þessi stofnun taki með félagslegum hætti á þessum málum. Ég hefði gaman af að sjá framan í þann alþm. sem vildi fá þann lestur af nöfnum yfir sig um einstaklinga sem búið væri að láta fá lán upp á 1200 þús. þegar þeir hefðu verið að minnka við sig húsnæði og fá svo yfir sig lesturinn af þeim sem eiga að bíða eftir því að fá úrlausn, kannske á annað ár. Mig undrar það satt best að segja að menn skuli hafa sig í það að tala gegn þessari tillögu eins og hér hefur verið gert. Hvaða voðalegu menn eru það sem menn gera ráð fyrir að verði félmrh. hjá þessari þjóð eftir kosningar? Ég óttast ekki nokkurn skapaðan hlut meðan Alexander Stefánsson, hæstv. félmrh., fer með þetta vald. Hvaða voðalegur maður er það sem hv. 2. þm. Norðurl. e. telur að taki við og muni misbeita sínu valdi með einhverjum dómstóli? (JBH: Er það kannske sjálfsgagnrýni?) Með einhverjum dómstóli. (GJG: Ætli það sé ekki Jóhanna Sigurðardóttir?) Það er rétt að það fari að koma fram hver þessi voðalegi maður er þannig að menn geti áttað sig á þessu.

Ég held að það verði að líta svo á að heimildargrein eins og þessi geti ekki á nokkurn hátt verið hættuleg fyrir eitt eða neitt samkomulag. Hún er heimild til ráðherrans sem fer með þessi mál að leita samráðs við þessa aðila, sem hann samdi áður við, um eðlilegar reglur sem taka á því vandamáli að það er ekki eðlilegt að sumir fái niðurgreitt fé upp að 1200 þús. kr., peninga sem þeir hafa enga þörf fyrir í reynd en munu fyrst og fremst annaðhvort leggja þá inn í banka eða koma á framfæri hjá öðrum fjármálastofnunum þessa lands, á sama tíma og aðrir, sem nauðsynlega þurfa á þessum peningum að halda til að eignast íbúð mega bíða.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu.