16.03.1987
Neðri deild: 64. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4270 í B-deild Alþingistíðinda. (3953)

346. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Félagsmálaráðherra (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Í sambandi við þetta mál vil ég upplýsa að auðvitað eru skiptar skoðanir um það meðal sveitarstjórnarmanna hvað mikið frelsi þeir hafa til álagningar. Ég hef hins vegar haldið mig við það að láta gera könnun á því sem liðið er og ég veit ekki betur en hv. þm. hafi haft fyrir framan sig álagninguna alveg frá 1982-1986, hvernig hún hefur verið í raun og hvernig hún mundi verða miðað við þær upplýsingar sem fyrir liggja um hið nýja kerfi, þ.e. staðgreiðslukerfi skatta og hvernig sú breyting er áætluð þar. Við höfum látið gera úttekt á 54 mismunandi sveitarfélögum um hvernig það mundi koma niður. Niðurstaðan er sú í gegnum þessa nákvæmu könnun, sem þar hefur verið gerð og hefur verið í höndum nefndarmanna í báðum deildum, að álagning sveitarfélaga eins og hún var lögð til í frv. mundi alveg vera fullnægjandi.

Hins vegar er ljóst að sveitarfélögin hafa meiri áform. Það kemur fram í áætlunum þeirra fyrir árið 1987 að þau mundu þurfa að hafa rýmri tekjustofn. Þar af leiðandi varð það úr að hækka prósentuna úr 7% í 71/2% og upplýsingar sem fyrir liggja á sömu forsendum og hitt sýna að það mundi verða mikill tekjuauki fyrir sveitarfélögin.

Ég tek undir að auðvitað þarf að fylgjast nákvæmlega með þessu og eins og hæstv. fjmrh. hefur sagt í sambandi við þessi mál almennt er nauðsynlegt að alþm. fái að fylgjast með þessu máli eins og það kemur fram við hina raunverulegu álagningu fyrir árið 1987. Það gildir alveg sama um tekjuskattinn og með útsvarið að það þarf að átta sig vel á þessari stöðu. En alla vega get ég fullyrt, miðað við þær upplýsingar sem ég hef í höndum, að hlutur sveitarfélaganna er ekki fyrir borð borinn. Þau fá hærri tekjur, þau fá miklu betri innheimtu í gegnum þetta nýja kerfi og sérstaklega verður hlutur hinna minni sveitarfélaga miklu betri í gegnum þetta staðgreiðslukerfi en þau búa við í dag. Það er alveg 100% öruggt. Það þori ég að fullyrða í þessum ræðustól. En ég tel eðlilegt að það sé sem fyrst reynt að hafa til þær nákvæmu upplýsingar um þessi mál sem hv. 3. þm. Reykv. fór fram á að það liggi fyrir að menn geti fylgst með þróuninni og gripið inn í ef með þarf. En sem betur fer, ef heppnast að koma þessu nýja kerfi á, er hlutur sveitarfélaga betur tryggður en hann er í dag.